Frá drengjakollum til #MeToo: Líkamsbyltingar í eina öld

Dr. Þorgerður H. Þorvaldsdóttir

Dr. Þorgerður H. Þorvaldsdóttir er fjórði fyrirlestraraðar RIKK á haustmisseri 2018 og nefnist fyrirlestur hennar „Frá drengjakollum til #MeToo: Líkamsbyltingar í eina öld“. Fyrirlesturinn er fluttur fimmtudaginn 18. október, kl. 12-13 í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands.

Í fyrirlestrinum, sem er tvískiptur, verður byrjað á því að setja #MeToo-byltinguna í sögulegt samhengi, þar sem hún er skoðuð sem hlekkur í langri keðju átaka og umróts þar sem kvenlíkaminn er í forgrunni. Þær líkamsbyltingar, sem horft verður til eru innreið drengjakollsins á þriðja áratugnum þegar snoðkollurinn varð táknmynd aukins sjálfræðis kvenna. Á áttunda áratugnum settu harðvítug átök um fóstureyðingar, gagnrýni á þröngt skilgreind fegurðarviðmið og (meintar) brjóstahaldarabrennur kvenlíkamann aftur í fókus. Loks verður sjónum beint að keðju líkamsbyltinga á síðustu árum sem allar hafa, með einum eða öðrum hætti, snúist um kynfrelsi kvenna og lausn undan áþján kynferðisofbeldis. Síðasti hlekkurinn í þeirri keðju er #MeToo-byltingin. Skoðað verður hvernig hún birtist hér á landi með því að rýna í þær rúmlega 800 frásagnir kvenna sem birst hafa en þær spanna allt frá óviðeigandi bröndurum, niðurlægjandi athugasemdum, um útlit eða getu, og þöggun yfir í kynferðislega áreitni, ofbeldi og nauðgun. Við lesturinn birtust ákveðin þemu eða þrástef sem ítrekað komu upp, þvert á hópa og stéttir. Í erindinu verða þessi þrástef nefnd á nafn og þeim lýst með völdum dæmum. Read more »

„Ást er líkt við …“: Reynsla erlendra kvenna af ástarsamböndum í íslensku samfélagi í ljósi #MeToo

Dr. Brynja E. Halldórsdóttir

Dr. Brynja E. Halldórsdóttir er þriðji fyrirlesari fyrirlestraraðar RIKK á haustmisseri 2018 og nefnist fyrirlestur hennar „„Ást er líkt við …“: Reynsla erlendra kvenna af ástarsamböndum í íslensku samfélagi í ljósi #MeToo“. Fyrirlesturinn er fluttur fimmtudaginn 4. október, frá kl. 12.00-13.00, í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands.

MeToo-frásagnir erlendra kvenna sem birtust í Kjarnanum síðastliðinn vetur sýna að ástin er ekki alltaf dans á rósum, sérstaklega hvað varðar reynslu þeirra í nýju landi. Erfitt reyndist að nálgast frásagnir þessara kvenna en hafa ber í huga að þær hafa oft á tíðum ekki sama stuðningsnet og íslenskar konur og eru því mun berskjaldaðri fyrir hvers kyns kynbundnu ofbeldi. Í ljósi þessa er þýðingarmikið að draga fram reynslu þeirra og frásagnir sem er einmitt markmið þessa fyrirlesturs. Í þeim kemur fram að þær hafa mátt sæta grófu ofbeldi, frelsissviftingum, mansali og vinnutengdu ofbeldi. Mikilvægt er þegar frásagnirnar eru greindar og túlkaðar að setja þær í ákveðið samhengi og skoða þá m.a. margbreytilegar menningarhefðir, skyldur og væntingar. Í þessu erindi verða frásagnir erlendra kvenna í kjölfar #MeToo-byltingarinnar greindar út frá hugmyndum og skrifum bell hooks um ástina sem undirstöðu félagslegs jafnréttis í vestrænum samfélögum. Read more »

„Aumingja Al Franken“: Hugleiðingar um bakslagsviðbrögð við #MeToo

Eyja Margrét Brynjarsdóttir

Dr. Eyja Margrét Brynjarsdóttir

Dr. Eyja Margrét Brynjarsdóttir er annar fyrirlesari fyrirlestraraðar RIKK á haustmisseri 2018 og nefnist fyrirlestur hennar „Aumingja Al Franken“: Hugleiðingar um bakslagsviðbrögð við #MeToo. Fyrirlesturinn er fluttur fimmtudaginn 20. september, frá kl. 12.00-13.00, í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands.

Fljótlega eftir að #MeToo-hreyfingin fór af stað fóru að koma fram merki um andstöðu við henni og bakslag. Raddir heyrðust sem spurðu hvort það væri ekki komið nóg af þessu #MeToo, hvort það væri ekki farið að ganga of langt og margir lýstu áhyggjum af afdrifum manna sem yrðu fyrir ásökunum og því að það „mætti bara ekkert lengur“. Núna, innan við ári síðar, virðast margir ganga út frá því að #MeToo hafi runnið sitt skeið og samfélagið sé búið að gera upp öll þau mál sem þar hafi komið upp. Karlar sem voru þar afhjúpaðir snúa aftur eins og ekkert sé og þeim til varnar er spurt „Hvað átti maðurinn eiginlega að þurfa að bíða lengi?“ Read more »

Nafnlausi femínistinn: Atbeini, áföll og mennska í #MeToo-hreyfingunni

Dr. Giti Chandra

(English below)

Dr. Giti Chandra er fyrsti fyrirlesari fyrirlestraraðar RIKK á haustmisseri 2018 og nefnist fyrirlestur hennar „Nafnlausi femínistinn: Atbeini, áföll og mennska í #MeToo-hreyfingunni“. Fyrirlesturinn er fluttur fimmtudaginn 6. september, frá kl. 12.00-13.00, í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands.

Einn umdeildasti þáttur MeToo-hreyfingarinnar er birting á nafnalistum gerenda. Það fólk sem bætt hefur nöfnum á listana hefur oft kosið að koma ekki fram undir nafni. Ýmist er litið á að þessir nafnlausu aðilar séu veikgeðja og illgjarnir sem skýli sér á bak við nafnleysi í þeim tilgangi að hefna sín á þeim gerendunum sem nefndir eru eða að um sé að ræða veikgeðja, andlitslausa einstaklinga sem fastir eru í fórnarlambshlutverkinu.

Fyrirlesturinn setur þessa umræðu í samhengi við áfallafræði og skoðar hvaða áhrif hún hefur á hugmyndina um atbeina og fórnarlamb og býður upp á aðra, femíníska leið án aðgreiningar, til að hugsa um nafnleysi og mennsku. Read more »

Call for abstracts for a book on #metoo

#metoo

Subject: Call for submissions

Deadline to submit abstracts: 1 December 2018

Length of articles: 5.000-7.000 words with footnotes

Submission of articles: 20 January 2019

Publication: September 2019

Giti Chandra and Irma Erlingsdottir propose a book length study in English of the many avatars of the #metoo movement around the world; a compilation of perspectives from people of all genders across nations and cultures that can be put into conversation.

The year 2017 will be remembered as the year when women ran out of tolerance for sexual harassment and violence, and the burgeoning of the #metoo revolution. While it was women in Hollywood who became the most visible face of the movement, paving the way with their accusations against Harvey Weinstein and other prominent figures, Tarana Burke’s initial birthing of the idea of Me Too, and the providing of a forum for survivors to Just Be, reminds us that the movement is nothing if not intersectional, bringing the specificity of race and class, caste and sexualities, into the universality of gender harassment. The movement, as we know, rapidly became worldwide, bringing, in its wake, all manner of support, as well as dissent, from men and women around the world. Read more »

Kallað eftir greinum í Fléttur V

#metoo

Efni: Kall eftir greinum í Fléttur V

Frestur til að tilkynna um þátttöku og skil ágripa: 1. desember 2018

Skil greina: 20. janúar 2019

Lengd greina: 5.000-7.000 orð með neðanmálsgreinum

Útgáfa: September 2019

Rannsóknarstig: 10

RIKK hefur ákveðið að standa að útgáfu nýs fræðirits sem verður hluti af ritröð RIKK, Fléttur V. Um er að ræða safn ritrýndra greina sem valdar eru í gegnum opið kall. Gert er ráð fyrir að ritið komi út í september 2019. Ritsjórar greinasafnsins eru: Þorgerður H. Þorvaldsdóttir og Kristín I. Pálsdóttir.

Heftið er tileinkað byltingu kvenna gegn áreitni og ofbeldi og þeim viðbrögðum, rannsóknum og aðgerðum sem af henni hafa hlotist og verður leitast við að rýna í ástæður, eðli og afleiðingar #metoo-byltingarinnar frá margvíslegu sjónarhorni og í kenningalegu samhengi.

Fyrirlestraröð RIKK á haustmisseri 2018 er tileinkuð sama þema og er fyrirlesurum sérstaklega boðið að svara kallinu. Áætlað er að birta um 16 greinar. Þá verður einnig gefið út greinahefti á ensku um þemað og verður sérstakt kall sent út vegna þess. Möguleiki er á að sömu greinar birtist í báðum heftum. Read more »