„Kvenfyrirlitningin felur sig á bakvið fötlunarfyrirlitninguna“: Andóf fatlaðra kvenna gegn ofbeldi

Freyja Haraldsdóttir

Freyja Haraldsdóttir er sjötti fyrirlesari fyrirlestraraðar RIKK á haustmisseri 2018 og nefnist fyrirlestur hennar „„Kvenfyrirlitningin felur sig á bakvið fötlunarfyrirlitninguna“: Andóf fatlaðra kvenna gegn ofbeldi.“ Fyrirlesturinn er fluttur fimmtudaginn 15. nóvember, kl. 12:00-13:00 í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands.

Sálrænar afleiðingar margþættrar mismununar fyrir fatlaðar konur á Íslandi er viðfangsefni meistararannsóknar Freyju Haraldsdóttur. Í fyrirlestrinum kynnir hún niðurstöður rannsóknarinnar sem gefa til kynna að þáttakendur upplifi margþætta mismunun í ólíkum rýmum samfélagsins sem oft er bæði dulin og meiðandi. Read more »

Kona fer til læknis: Árekstrar í samskiptum lækna og kvensjúklinga

Guðrún Steinþórsdóttir, doktorsnemi

Guðrún Steinþorsdóttir er fimmti fyrirlesari fyrirlestraraðar RIKK á haustmisseri 2018 og nefnist fyrirlestur hennar „Kona fer til læknis: Árekstrar í samskiptum lækna og kvensjúklinga“. Fyrirlesturinn er fluttur fimmtudaginn 1. nóvember, kl. 12-13 í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands.
Reglulega koma fram sögur jafnt á internetinu, í greinum, viðtölum og í ævisögum sem greina frá neikvæðum samskiptum kvensjúklinga við lækna. Þó þessar sögur hafi ekki verið birtar formlega undir formerkjum MeToo-hreyfingarinnar kallast þær í mörgu á við frásagnir sem tengjast henni því að höfundarnir eiga það sameiginlegt að hafa upplifað misrétti vegna kyns síns. Í fyrirlestrinum verður fjallað um hvernig komið er á mismunandi hátt fram við konur og karla í heilbrigðiskerfinu, rætt um hugsanlegar ástæður þess og afleiðingar og hvernig bókmenntafræði getur kannski gagnast til að betrumbæta samskiptin í framtíðinni. Read more »

Frá drengjakollum til #MeToo: Líkamsbyltingar í eina öld

Dr. Þorgerður H. Þorvaldsdóttir

Dr. Þorgerður H. Þorvaldsdóttir er fjórði fyrirlestraraðar RIKK á haustmisseri 2018 og nefnist fyrirlestur hennar „Frá drengjakollum til #MeToo: Líkamsbyltingar í eina öld“. Fyrirlesturinn er fluttur fimmtudaginn 18. október, kl. 12-13 í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands.

Í fyrirlestrinum, sem er tvískiptur, verður byrjað á því að setja #MeToo-byltinguna í sögulegt samhengi, þar sem hún er skoðuð sem hlekkur í langri keðju átaka og umróts þar sem kvenlíkaminn er í forgrunni. Þær líkamsbyltingar, sem horft verður til eru innreið drengjakollsins á þriðja áratugnum þegar snoðkollurinn varð táknmynd aukins sjálfræðis kvenna. Á áttunda áratugnum settu harðvítug átök um fóstureyðingar, gagnrýni á þröngt skilgreind fegurðarviðmið og (meintar) brjóstahaldarabrennur kvenlíkamann aftur í fókus. Loks verður sjónum beint að keðju líkamsbyltinga á síðustu árum sem allar hafa, með einum eða öðrum hætti, snúist um kynfrelsi kvenna og lausn undan áþján kynferðisofbeldis. Síðasti hlekkurinn í þeirri keðju er #MeToo-byltingin. Skoðað verður hvernig hún birtist hér á landi með því að rýna í þær rúmlega 800 frásagnir kvenna sem birst hafa en þær spanna allt frá óviðeigandi bröndurum, niðurlægjandi athugasemdum, um útlit eða getu, og þöggun yfir í kynferðislega áreitni, ofbeldi og nauðgun. Við lesturinn birtust ákveðin þemu eða þrástef sem ítrekað komu upp, þvert á hópa og stéttir. Í erindinu verða þessi þrástef nefnd á nafn og þeim lýst með völdum dæmum. Read more »

„Ást er líkt við …“: Reynsla erlendra kvenna af ástarsamböndum í íslensku samfélagi í ljósi #MeToo

Dr. Brynja E. Halldórsdóttir

Dr. Brynja E. Halldórsdóttir er þriðji fyrirlesari fyrirlestraraðar RIKK á haustmisseri 2018 og nefnist fyrirlestur hennar „„Ást er líkt við …“: Reynsla erlendra kvenna af ástarsamböndum í íslensku samfélagi í ljósi #MeToo“. Fyrirlesturinn er fluttur fimmtudaginn 4. október, frá kl. 12.00-13.00, í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands.

MeToo-frásagnir erlendra kvenna sem birtust í Kjarnanum síðastliðinn vetur sýna að ástin er ekki alltaf dans á rósum, sérstaklega hvað varðar reynslu þeirra í nýju landi. Erfitt reyndist að nálgast frásagnir þessara kvenna en hafa ber í huga að þær hafa oft á tíðum ekki sama stuðningsnet og íslenskar konur og eru því mun berskjaldaðri fyrir hvers kyns kynbundnu ofbeldi. Í ljósi þessa er þýðingarmikið að draga fram reynslu þeirra og frásagnir sem er einmitt markmið þessa fyrirlesturs. Í þeim kemur fram að þær hafa mátt sæta grófu ofbeldi, frelsissviftingum, mansali og vinnutengdu ofbeldi. Mikilvægt er þegar frásagnirnar eru greindar og túlkaðar að setja þær í ákveðið samhengi og skoða þá m.a. margbreytilegar menningarhefðir, skyldur og væntingar. Í þessu erindi verða frásagnir erlendra kvenna í kjölfar #MeToo-byltingarinnar greindar út frá hugmyndum og skrifum bell hooks um ástina sem undirstöðu félagslegs jafnréttis í vestrænum samfélögum. Read more »

„Aumingja Al Franken“: Hugleiðingar um bakslagsviðbrögð við #MeToo

Eyja Margrét Brynjarsdóttir

Dr. Eyja Margrét Brynjarsdóttir

Dr. Eyja Margrét Brynjarsdóttir er annar fyrirlesari fyrirlestraraðar RIKK á haustmisseri 2018 og nefnist fyrirlestur hennar „Aumingja Al Franken“: Hugleiðingar um bakslagsviðbrögð við #MeToo. Fyrirlesturinn er fluttur fimmtudaginn 20. september, frá kl. 12.00-13.00, í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands.

Fljótlega eftir að #MeToo-hreyfingin fór af stað fóru að koma fram merki um andstöðu við henni og bakslag. Raddir heyrðust sem spurðu hvort það væri ekki komið nóg af þessu #MeToo, hvort það væri ekki farið að ganga of langt og margir lýstu áhyggjum af afdrifum manna sem yrðu fyrir ásökunum og því að það „mætti bara ekkert lengur“. Núna, innan við ári síðar, virðast margir ganga út frá því að #MeToo hafi runnið sitt skeið og samfélagið sé búið að gera upp öll þau mál sem þar hafi komið upp. Karlar sem voru þar afhjúpaðir snúa aftur eins og ekkert sé og þeim til varnar er spurt „Hvað átti maðurinn eiginlega að þurfa að bíða lengi?“ Read more »

Nafnlausi femínistinn: Atbeini, áföll og mennska í #MeToo-hreyfingunni

Dr. Giti Chandra

(English below)

Dr. Giti Chandra er fyrsti fyrirlesari fyrirlestraraðar RIKK á haustmisseri 2018 og nefnist fyrirlestur hennar „Nafnlausi femínistinn: Atbeini, áföll og mennska í #MeToo-hreyfingunni“. Fyrirlesturinn er fluttur fimmtudaginn 6. september, frá kl. 12.00-13.00, í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands.

Einn umdeildasti þáttur MeToo-hreyfingarinnar er birting á nafnalistum gerenda. Það fólk sem bætt hefur nöfnum á listana hefur oft kosið að koma ekki fram undir nafni. Ýmist er litið á að þessir nafnlausu aðilar séu veikgeðja og illgjarnir sem skýli sér á bak við nafnleysi í þeim tilgangi að hefna sín á þeim gerendunum sem nefndir eru eða að um sé að ræða veikgeðja, andlitslausa einstaklinga sem fastir eru í fórnarlambshlutverkinu.

Fyrirlesturinn setur þessa umræðu í samhengi við áfallafræði og skoðar hvaða áhrif hún hefur á hugmyndina um atbeina og fórnarlamb og býður upp á aðra, femíníska leið án aðgreiningar, til að hugsa um nafnleysi og mennsku. Read more »