Um RIKK

RIKK hefur starfað síðan 1991 og er leiðandi afl í kvenna-, kynja- og jafnréttisrannsóknum á Íslandi.

Rannsóknastofnun í jafnréttisfræðum (RIKK) er þverfagleg stofnun.  Aðalmarkmið hennar er að efla og samhæfa jafnréttisrannsóknir og rannsóknir í kvenna- og kynjafræðum jafnframt því að vinna að og kynna niðurstöður rannsókna. RIKK miðlar þekkingu á sviði kvenna, kynja- og jafnréttisfræða með því að gangast fyrir námskeiðum, fyrirlestrum, ráðstefnum og útgáfu. Rannsóknastofnun í jafnréttisfræðum er ætlað að veita upplýsingar og ráðgjöf um kvenna- og kynjarannsóknir, hafa samstarf við innlenda og erlenda rannsóknaraðila og styðja og styrkja nám í kynjafræðum innan og utan Háskóla Íslands. Samkvæmt nýrri tilhögun stofnana sem áður heyrðu undir háskólaráð, var RIKK flutt yfir á Hugvísindasvið árið 2010, en hún er eftir sem áður sjálfstæð og þverfagleg stofnun og helst hlutverk hennar óbreytt. Stofnunin leggur metnað sinn í að starfa með fræðimönnum af öllum fræðasviðum Háskóla Íslands. RIKK hefur margvísleg tengsl út fyrir skólann, jafnt innanlands sem á alþjóðavettvangi, og starfar í því samhengi sem fulltrúi Háskólans í heild.

Saga Rannsóknastofnunar í jafnréttisfræðum

Rannsóknastofan á rætur sínar að rekja til áttunda áratugarins þegar fræðikonur víða um heim hófu markvissar rannsóknir í kvennafræðum. Íslenskar fræðikonur létu ekki sitt eftir liggja og þegar upp úr 1980 var farið að bjóða upp á námskeið í t.d. kvennabókmenntum og kvennasögu við Háskóla Íslands. Sumarið 1985 var haldin fyrsta ráðstefnan um íslenskar kvennarannsóknir. Að henni stóð hópur kvenna sem hafði um árabil sinnt rannsóknum á þessu sviði. Í kjölfar ráðstefnunnar var stofnaður Áhugahópur um íslenskar kvennarannsóknir en í honum voru konur innan og utan háskólasamfélagins. Áhugahópurinn stóð fyrir reglulegum fyrirlestrum um kvennarannsóknir, beitti sér fyrir stofnun rannsóknastofu í kvennafræðum og að komið yrði á fót skipulegu námi í kvennafræðum við Háskóla Íslands. Sem fyrr segir varð stofnun rannsóknastofunnar að veruleika árið 1991 en námsbraut í kynjafræðum var sett á laggirnar fimm árum síðar, haustið 1996. Sjá upplýsingar um nám, námsbrautir og námskeið á sviði kvenna- og kynjafræða hér.

Rannsóknastofa í kvenna- og kynjafræðum hafði um árabil takmarkaða fjárveitingu og gat af þeim sökum aðeins haft starfsmann í hlutastarfi. Engu að síður tókst stofunni að halda úti þéttri dagskrá á hverjum vetri sem samanstóð af hádegisfyrirlestrum, opinberum fyrirlestrum og málstofum, auk útgáfu rita á sviði kvenna- og kynjafræða.

Samstarfssamningur Háskóla Íslands og Reykjavíkurborgar

Með samstarfssamningi RIKK og Reykjavíkurborgar árið 2000 varð gjörbreyting á starfsaðstæðum stofunnar því þá fyrst var hægt að ráða forstöðumann í fullt starf. Þann 26. júní 2000 undirrituðu Páll Skúlason, rektor Háskóla Íslands, og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir þáverandi borgarstjóri samstarfssamning Háskólans og Reykjavíkurborgar, sem fól í sér að koma á fót stöðu forstöðumanns Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum. Markmið samningsins er að efla rannsóknir á sviði kvenna,  kynja- og jafnréttisfræða innan Háskólans. Jafnréttisnefnd Reykjavíkurborgar er ábyrg fyrir framkvæmd samningsins af hálfu Reykjavíkurborgar og RIKK er ábyrg fyrir framkvæmd samningsins fyrir hönd Háskólans. Samstarfssamningur Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands hefur verið endurnýjaður fjórum sinnum, nú síðast árið 2014 til þriggja ára.

Öflug miðstöð nýsköpunar

RIKK hefur frá upphafi verið öflug miðstöð nýsköpunar. Stofnunin hafði á sínum tíma forgöngu um að námsbraut í kynjafræðum var komið á laggirnar og hvatti til stofnunar jafnréttisnefndar Háskólans. Einnig hefur hún átt samstarf við ýmis réttindasamtök kvenna. Þá átti hún mikinn þátt í þróun og uppbyggingu Alþjóðlegs jafnréttisskóla (GEST) og EDDU – öndvegisseturs sem eru ný og framsækin verkefni á sviði jafnréttismála.  Þessi verkefni starfa sem sjálfstæðar einingar, með aðskilið regluverk og stjórnir, en í nánu samstarfi við RIKK.  Þessar þrjár einingar deila sama húsnæði og er stýrt af sama starfsfólki. Þær styðja hver aðra við að ná sameiginlegu markmiði sem er að efla jafnréttisrannsóknir og jafnréttisnám á Íslandi.

Alþjóðlegi jafnrétttiskólinn (GEST) tók til starfa í janúar 2009 og varð árið 2013 einn af skólum Sameinuðu þjóðanna á Íslandi (ásamt Jarðhitaskólanum, Sjávarútvegsskólanum og Landgræðsluskólanum). Nemendur GEST hafa komið frá Afganistan, Palestínu, Úganda og Mósambík. Kennarar við skólann eru bæði háskólakennarar og sérfræðingar frá stofnunum og grasrótarsamtökum. Einnig koma á hverju ári erlendir sérfræðingar víðsvegar að til að kenna við skólann. Verndari skólans er Vigdís Finnbogadóttir. Sjá nánar um GEST á heimsíðu skólans.

EDDA er þverfaglegt öndvegissetur í gagnrýnum samtímarannsóknum, með sérstaka áherslu á jafnrétti og margbreytileika. Setrið hóf starfsemi sína árið 2009. Rannsóknir setursins eru m.a. á sviði stjórnmála, þverþjóðlegra fræða, samfélags, menningar, öryggismála, sjálfbærni og þróunar. Í rannsóknaráætlun setursins fyrir árið 2009-2010 var lögð áhersla á að rannsaka áhrif alþjóðlegu fjármálakreppunnar og íslenska bankahrunsins sem sigldi í kjölfarið. Í framhaldinu hefur verið lögð rækt við rannsóknir á pólitísku, samfélagslegu og hugarfarslegu endurmati og uppbyggingu innan lands og utan. Sjá nánari upplýsingar um EDDU á heimasíðu setursins.