Á rauðum sokkum í hálfa öld

Þann 24. apríl 1970 hittust konur fyrst á rauðum sokkum og tóku þátt í undirbúningi fyrir kröfugöngu 1. maí þar sem þær kröfðust jafnréttis kynjanna. Á baráttuspjöldum þeirra stóð meðal annars „vaknaðu kona“ og „konur nýtum mannréttindin“. Þá báru þær á herðum sér Venusarstyttu með borða sem á stóð „manneskja en ekki markaðsvara“, eins og frægt er orðið. Með þessari aðgerð var tónninn sleginn og við tók rúmlega áratuga barátta Rauðsokkahreyfingarinnar fyrir bættum kjörum kvenna í íslensku samfélagi. Þann 7. september sama ár fundaði 20 kvenna framkvæmdanefnd hreyfingarinnar í fyrsta sinn og ákváðu skipulag og stefnu hennar.

Fimmtudaginn 7. september á þessu ári, rúmlega hálfri öld frá þessum fyrstu skipulögðu skrefum kvenna á rauðum sokkum, verður haldið málþing sem beinir sjónum að arfleifð Rauðsokkahreyfingarinnar. Málþingið er haldið í samstarfi Kvennasögusafns á Landsbókasafni og RIKK – Rannsóknastofnunar í jafnréttisfræðum við Háskóla Íslands.

Í undirbúningi fyrir 50 ára afmæli Rauðsokkahreyfingarinnar komu fulltrúar hennar á fund Kvennasögusafns og Landsbókasafns með það í huga að gera skjala- og upplýsingavef um störf hennar. Úr varð rúmlega 30.000 orða vefur með 1.000 stafrænum skjölum sem var opnaður formlega þann 24. október 2022, á sjálfan kvennafrídaginn en hreyfingin átti kveikjuna að honum á sínum tíma. Vefurinn var settur fram með áherslum og í orðum fulltrúa Rauðsokkahreyfingarinnar undir leiðsögn fagstjóra Kvennasögusafns. Vefnum er ætlað að auka söguvitund almennings um þetta umbrotatímabil, nýtast í kennslu á nokkrum skólastigum sem og að vera hvatning fyrir fræðilegar rannsóknir. Á málþinginu eru slíkar rannsóknir í forgrunni og fræðafólk hvatt til að nýta vefinn til að varpa nýju ljósi á baráttu hreyfingarinnar.

Meðal umfjöllunarefna á málþinginu eru áhrif Rauðsokkahreyfingarinnar á íslenskt jafnréttissamfélag, jafnréttisbaráttu kynjanna, menningarlegt landslag og framsetning sögulegs efnis sem snýr að jafnréttisbaráttunni. Flutt verða sex fræðileg erindi um hreyfinguna og svo fer fram pallborð með fulltrúum hennar sem einnig sátu í ritnefnd skjala- og upplýsingavefsins.

 

Á rauðum sokkum í hálfa öld

Fimmtudaginn 7. september

13:00–16:30 

Þjóðminjasafn Íslands

 

Dagskrá:

Málþingsstjórn: Elín Björk Jóhannsdóttir

Rakel Adolphsdóttir: Að rannsaka og miðla eigin sögu
Unnur Birna Karlsdóttir: Rödd sem skipti máli. Rauðsokkahreyfingin og lagasetning um þungunarrof 1975
Annadís Greta Rúdólfsdóttir: Frá Rauðsokkum til nýfrjálshyggju. Femínismi og móðurhlutverkið í prentmiðlum 1970-1979 og 2010-2019
Silja Bára R. Ómarsdóttir: Að breyta samfélagi. Baráttumál Rauðsokka

–Kaffihlé–
Dagný Kristjánsdóttir: Reynsla annarra. Hlutverk bókmennta í vitundarvakningu Rauðsokkahreyfingarinnar
Karólína Rós Ólafsdóttir: Teikningar Rauðsokka. Nýtt og lánað

Pallborð með fulltrúum Rauðsokkahreyfingarinnar: Elísabet Gunnarsdóttir, Gerður G. Óskarsdóttir, Guðrún Ágústsdóttir, Guðrún Hallgrímsdóttir og Kristín Ástgeirsdóttir. Pallborðsstjórn: Rósa Magnúsdóttir