Category: Hádegisfyrirlestrar

Áföll og heilsufarslegar afleiðingar þeirra

Dr. Edda Björk Þórðardóttir
Dr. Edda Björk Þórðardóttir

Edda Björk Þórðardóttir er fyrsti fyrirlesari fyrirlestraraðar RIKK á vormisseri 2019 og nefnist fyrirlestur hennar „Áföll og heilsufarslegar afleiðingar þeirra.“ Fyrirlesturinn er fluttur á íslensku fimmtudaginn 10. janúar, kl. 12:00-13:00 í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands.

Í erindi sínu mun Edda Björk fjalla um áhrif áfalla á heilsufar, sér í lagi tengsl þungbærrar lífsreynslu í æsku og heilsufars á fullorðinsárum. Þá verður sérstaklega rætt um áfallastreitu og kenningar um kynjamun í birtingarmynd einkenna hennar. Edda mun greina frá rannsóknum sínum og kollega um afleiðingar áfalla á heilsu barna og fullorðina í íslenskum og erlendum þýðum. Fjallað verður um algengi ofbeldis og þjónustunýtingu í kjölfar þess á Íslandi og kynjamunur ræddur. Að lokum mun Edda Björk segja frá Áfallasögu kvenna, víðamiklu rannsóknarverkefni á vegum læknadeildar Háskóla Íslands.

Read more »

Hvar liggja mörkin? Kynhlutverk og grá svæði í sviðslistum

Ása Fanney Gestsdóttir

Ása Fanney Gestsdóttir er sjöundi og síðasti fyrirlesari fyrirlestraraðar RIKK á haustmisseri 2018 og nefnist fyrirlestur hennar „Hvar liggja mörkin? Kynhlutverk og grá svæði í sviðslistum“. Fyrirlesturinn er fluttur fimmtudaginn 29. nóvember, kl. 12-13 í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands.

Leikkonur hafa víða verið fremstar í fylkingu #MeToo hreyfingarinnar og frásagnir þeirra af kynferðislegri áreitni og ofbeldi í greininni verið áberandi í umræðunni í kjölfarið. Lengi vel virðist hafa ríkt þöggun um þetta kynbundna vandamál í sviðslistum og kvikmyndagerð sem þó hefur verið á margra vitorði. Í fyrirlestrinum verður fjallað um fyrirliggjandi erlendar rannsóknir og íslenskar #MeToo frásagnir. Leitast verður við að greina hvað einkennir starf og starfsvettvang leik- og sviðslistakvenna auk kynhlutverka og valdastöðu sem veldur því að kynferðisleg áreitni hefur viðgengist á vettvanginum. Read more »

„Kvenfyrirlitningin felur sig á bakvið fötlunarfyrirlitninguna“: Andóf fatlaðra kvenna gegn ofbeldi

Freyja Haraldsdóttir

Freyja Haraldsdóttir er sjötti fyrirlesari fyrirlestraraðar RIKK á haustmisseri 2018 og nefnist fyrirlestur hennar „„Kvenfyrirlitningin felur sig á bakvið fötlunarfyrirlitninguna“: Andóf fatlaðra kvenna gegn ofbeldi.“ Fyrirlesturinn er fluttur fimmtudaginn 15. nóvember, kl. 12:00-13:00 í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands.

Sálrænar afleiðingar margþættrar mismununar fyrir fatlaðar konur á Íslandi er viðfangsefni meistararannsóknar Freyju Haraldsdóttur. Í fyrirlestrinum kynnir hún niðurstöður rannsóknarinnar sem gefa til kynna að þáttakendur upplifi margþætta mismunun í ólíkum rýmum samfélagsins sem oft er bæði dulin og meiðandi. Read more »

Kona fer til læknis: Árekstrar í samskiptum lækna og kvensjúklinga

Guðrún Steinþórsdóttir, doktorsnemi

Guðrún Steinþorsdóttir er fimmti fyrirlesari fyrirlestraraðar RIKK á haustmisseri 2018 og nefnist fyrirlestur hennar „Kona fer til læknis: Árekstrar í samskiptum lækna og kvensjúklinga“. Fyrirlesturinn er fluttur fimmtudaginn 1. nóvember, kl. 12-13 í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands.
Reglulega koma fram sögur jafnt á internetinu, í greinum, viðtölum og í ævisögum sem greina frá neikvæðum samskiptum kvensjúklinga við lækna. Þó þessar sögur hafi ekki verið birtar formlega undir formerkjum MeToo-hreyfingarinnar kallast þær í mörgu á við frásagnir sem tengjast henni því að höfundarnir eiga það sameiginlegt að hafa upplifað misrétti vegna kyns síns. Í fyrirlestrinum verður fjallað um hvernig komið er á mismunandi hátt fram við konur og karla í heilbrigðiskerfinu, rætt um hugsanlegar ástæður þess og afleiðingar og hvernig bókmenntafræði getur kannski gagnast til að betrumbæta samskiptin í framtíðinni. Read more »

Frá drengjakollum til #MeToo: Líkamsbyltingar í eina öld

Dr. Þorgerður H. Þorvaldsdóttir

Dr. Þorgerður H. Þorvaldsdóttir er fjórði fyrirlestraraðar RIKK á haustmisseri 2018 og nefnist fyrirlestur hennar „Frá drengjakollum til #MeToo: Líkamsbyltingar í eina öld“. Fyrirlesturinn er fluttur fimmtudaginn 18. október, kl. 12-13 í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands.

Í fyrirlestrinum, sem er tvískiptur, verður byrjað á því að setja #MeToo-byltinguna í sögulegt samhengi, þar sem hún er skoðuð sem hlekkur í langri keðju átaka og umróts þar sem kvenlíkaminn er í forgrunni. Þær líkamsbyltingar, sem horft verður til eru innreið drengjakollsins á þriðja áratugnum þegar snoðkollurinn varð táknmynd aukins sjálfræðis kvenna. Á áttunda áratugnum settu harðvítug átök um fóstureyðingar, gagnrýni á þröngt skilgreind fegurðarviðmið og (meintar) brjóstahaldarabrennur kvenlíkamann aftur í fókus. Loks verður sjónum beint að keðju líkamsbyltinga á síðustu árum sem allar hafa, með einum eða öðrum hætti, snúist um kynfrelsi kvenna og lausn undan áþján kynferðisofbeldis. Síðasti hlekkurinn í þeirri keðju er #MeToo-byltingin. Skoðað verður hvernig hún birtist hér á landi með því að rýna í þær rúmlega 800 frásagnir kvenna sem birst hafa en þær spanna allt frá óviðeigandi bröndurum, niðurlægjandi athugasemdum, um útlit eða getu, og þöggun yfir í kynferðislega áreitni, ofbeldi og nauðgun. Við lesturinn birtust ákveðin þemu eða þrástef sem ítrekað komu upp, þvert á hópa og stéttir. Í erindinu verða þessi þrástef nefnd á nafn og þeim lýst með völdum dæmum. Read more »

„Ást er líkt við …“: Reynsla erlendra kvenna af ástarsamböndum í íslensku samfélagi í ljósi #MeToo

Dr. Brynja E. Halldórsdóttir

Dr. Brynja E. Halldórsdóttir er þriðji fyrirlesari fyrirlestraraðar RIKK á haustmisseri 2018 og nefnist fyrirlestur hennar „„Ást er líkt við …“: Reynsla erlendra kvenna af ástarsamböndum í íslensku samfélagi í ljósi #MeToo“. Fyrirlesturinn er fluttur fimmtudaginn 4. október, frá kl. 12.00-13.00, í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands.

MeToo-frásagnir erlendra kvenna sem birtust í Kjarnanum síðastliðinn vetur sýna að ástin er ekki alltaf dans á rósum, sérstaklega hvað varðar reynslu þeirra í nýju landi. Erfitt reyndist að nálgast frásagnir þessara kvenna en hafa ber í huga að þær hafa oft á tíðum ekki sama stuðningsnet og íslenskar konur og eru því mun berskjaldaðri fyrir hvers kyns kynbundnu ofbeldi. Í ljósi þessa er þýðingarmikið að draga fram reynslu þeirra og frásagnir sem er einmitt markmið þessa fyrirlesturs. Í þeim kemur fram að þær hafa mátt sæta grófu ofbeldi, frelsissviftingum, mansali og vinnutengdu ofbeldi. Mikilvægt er þegar frásagnirnar eru greindar og túlkaðar að setja þær í ákveðið samhengi og skoða þá m.a. margbreytilegar menningarhefðir, skyldur og væntingar. Í þessu erindi verða frásagnir erlendra kvenna í kjölfar #MeToo-byltingarinnar greindar út frá hugmyndum og skrifum bell hooks um ástina sem undirstöðu félagslegs jafnréttis í vestrænum samfélögum. Read more »