Rannsóknir

RIKK – Rannsóknastofnun í jafnréttisfræðum tekur þátt í evrópskum og norrænum rannsóknaverkefnum, stendur að og tekur þátt í fjölda rannsóknarverkefna á sviði kvenna- og kynjafræða. RIKK birtir niðurstöður rannsókna á fræðasviðinu með bókaútgáfu auk þess sem afrakstur fyrri rannsóknaverkefna má sjá í skýrslum sem stofnunin hefur staðið að.

MARISSA

Evrópskt samstarfsverkefni um heimilisofbeldi og áfengis- og vímuefnavanda

RIKK er þátttakandi í MARISSA-verkefninu þar sem sjónum er beint að hinum tvíþætta vanda að verða fyrir ofbeldi í nánu sambandi og glíma einnig við áfengis- og vímuefnavanda. Í hverju landi taka tvær stofnanir þátt, ein háskólastofnun og ein grasrótarsamtök. RIKK og Rótin eru íslensku þátttakendurnir í verkefninu en auk Íslands eru Eistland og Grikkland aðilar að verkefninu. Áhersla verkefnisins er að auka samstarf milli þjónustuaðila sem vinna með konum sem verða fyrir heimilisofbeldi annarsvegar og þjónusutaðila sem vinna konum með áfengis- og vímuefnavanda hinsvegar. Markmið verkefnisins er bæði að efla færni starfsfólk og stuðla að auknu og bættu samstarfi milli þjónustuaðila. 

HEIMASÍÐA MARISSA

FASA

Evrópskt samstarfsverkefni um áfengis- og vímuefnavanda og ofbeldi í nánum samböndum

RIKK er aðili að evrópska samstarfsverkefninu FASA (Free from Addiction, Safe from Abuse) ásamt stofnunum í Grikklandi, Eistlandi, Norður-Írlandi og Spáni. Verkefnið beinir sjónum sínum að hinum samþætta vanda að verða fyrir ofbeldi í nánu sambandi og glíma við áfengis- og vímuefnavanda. Áhersla verkefnisins er á þjónustuaðila fyrir konur sem verða fyrir ofbeldi í nánum samböndum, að efla færni og þekkingu þeirra og gera þá þannig betur í stakk búna til að takast á við þennan tvíþætta vanda.

HEIMASÍÐA FASA

Reynsla kvenna af fíknimeðferð

með tilliti til líðanar og öryggis í meðferð, árangurs meðferðarinnar og úrræða í boði

Markmið rannsóknarinnar er að skoða reynslu kvenna af vímuefnameðferð hér á landi með tilliti til líðanar og öryggis í meðferð, árangurs meðferðarinnar og úrræða í boði. Undirmarkmið er að skoða sögu kvennanna með sérstöku tilliti til erfiðra upplifana í æsku og hvort að þær eigi sögu um ofbeldi í nánum samböndum.
Meðferð við vímuefnafíkn á Íslandi hefur að miklu leyti byggst á hugmyndafræði 12 spora samtaka hingað til, ef meðferð á Landspítala er undanskilin. Þar er hugræn athyglismeðferð grundvöllur meðferðarinnar. Þó að nokkrar breytingar hafi verið á áherslum meðferðarinnar á undangengnum árum og kynjasjónarmið séu nú tekin til skoðunar í meðferðinni er engin meðferð í boði fyrir konur eingöngu þar sem byggt er á nýjustu þekkingu um kynjamiðaða meðferð og lengst af hefur skort á þekkingu á sértækum vanda kvenna með fíknivanda og aðferðum við að taka á þeim vanda. Þetta er ekki séríslenskt vandamál en eins og kemur fram hjá Salter og Beckenridge (2014) virðist sem sú þekking sem til er á kynjamiðaðri meðferð ekki vera nýtt í meðferðarstarfi og því einkennist mikið af meðferðarframboði af kynjablindu. Rannsóknin horfir því til þeirrar þekkingar sem til er um kynjamiðaða og áfallameðvitaða meðferð og upplifun þjónustuþega í meðferð.