Rannsóknir

Rannsóknastofnun í jafnréttisfræðum tekur þátt í evrópskum og norrænum rannsóknaverkefnum, stendur að og tekur þátt í fjölda rannsóknarverkefna á sviði kvenna- og kynjafræða og birtir niðurstöður rannsókna á fræðasviðinu með bókaútgáfu.

Reynsla kvenna af fíknimeðferð

með tilliti til líðanar og öryggis í meðferð, árangurs meðferðarinnar og úrræða í boði

Markmið rannsóknarinnar er að skoða reynslu kvenna af vímuefnameðferð hér á landi með tilliti til líðanar og öryggis í meðferð, árangurs meðferðarinnar og úrræða í boði. Undirmarkmið er að skoða sögu kvennanna með sérstöku tilliti til erfiðra upplifana í æsku og hvort að þær eigi sögu um ofbeldi í nánum samböndum.
Meðferð við vímuefnafíkn á Íslandi hefur að miklu leyti byggst á hugmyndafræði 12 spora samtaka hingað til, ef meðferð á Landspítala er undanskilin. Þar er hugræn athyglismeðferð grundvöllur meðferðarinnar. Þó að nokkrar breytingar hafi verið á áherslum meðferðarinnar á undangengnum árum og kynjasjónarmið séu nú tekin til skoðunar í meðferðinni er engin meðferð í boði fyrir konur eingöngu þar sem byggt er á nýjustu þekkingu um kynjamiðaða meðferð og lengst af hefur skort á þekkingu á sértækum vanda kvenna með fíknivanda og aðferðum við að taka á þeim vanda. Þetta er ekki séríslenskt vandamál en eins og kemur fram hjá Salter og Beckenridge (2014) virðist sem sú þekking sem til er á kynjamiðaðri meðferð ekki vera nýtt í meðferðarstarfi og því einkennist mikið af meðferðarframboði af kynjablindu. Rannsóknin horfir því til þeirrar þekkingar sem til er um kynjamiðaða og áfallameðvitaða meðferð og upplifun þjónustuþega í meðferð.

Úttekt á stöðu kvenna í sauðfjárrækt

  

Um er að ræða svokallaða gloppugreiningu þar sem leitast er við að kortleggja hvaða upplýsingar vantar til að fá fyllri mynd af stöðu kvenna í greininni, skoðað hvort halli á konur og ef svo er, skoða leiðir til úrbóta. Þær rannsóknir sem gerðar hafa verið á stöðu kynjanna í landbúnaði ber allar að sama brunni. Karlar eru skráðir fyrir eignum, réttindum, fá beingreiðslur í meira mæli og afla sér meiri lífeyrirsréttar. Þá koma fram vísbendingar um að vinna kvenna í sveitum sé, óskráð, ólaunuð og ósýnileg í opinberum gögnum. Þá er aðgengi kvenna að styrkjum og lánsfé innan greinarinnar verra en karla. Þá er lítill hluti kvenna virkur í félagsstörfum tengdum landbúnaði, bæði vegna mikils vinnuálags og að þær telja ekki á sig hlustað innan félagasamtakanna. Almennt kvarta konur yfir mjög karllægum viðhorfum innan félagasamtaka bænda.

HLAÐA NIÐUR PDF

netverkið Gendering Asia

Rannsóknastofnun í jafnréttisfræðumfræðum er, ásamt EDDU – öndvegissetri, aðili að norræna netverkinu Gendering Asia. Markmið netverksins er að efla rannsóknir á mótum asískra fræða og kynjafræða innan félags- og hugvísinda á Norðurlöndunum, með ráðstefnuhaldi, útgáfu og fundum fræðimanna á sviðinu. 

 

Netverkið hlaut styrk frá NordForsk-sjóðnum sem gerir því kleift að halda þrjá fundi eða vinnustofur þar sem rannsakendur fá tækifæri til að hittast, skiptast á hugmyndum og þróa rannsóknarsamvinnu. Einkum er hugað að þróun kynjafræðikenninga innan asískra fræða, að framlagi rannsókna á asískum samfélögum til kynjafræða og að stöðu og birtingarmyndum Asíu á Norðurlöndunum. Fyrsta vinnustofa netverksins var haldin í Kaupmannahöfn í nóvember 2010. Önnur vinnustofan var haldin hér í Reykjavík í október 2011 og sú þriðja í Noregi árið 2012.

Hér eru upplýsingar um netverkið á heimasíðu NordForsk.