Bókaútgáfa

RIKK – Rannsóknastofnun í jafnréttisfræðum tekur þátt í evrópskum og norrænum rannsóknaverkefnum, stendur að og tekur þátt í fjölda rannsóknarverkefna á sviði jafnréttisfræða. RIKK birtir niðurstöður rannsókna á fræðasviðinu með bókaútgáfu auk þess sem afrakstur fyrri rannsóknaverkefna má sjá í skýrslum sem stofnunin hefur staðið að.

 

Fléttur er ritröð RIKK. Fléttum er ætlað að kynna niðurstöður jafnréttisrannsókna og koma á framfæri fræðilegum greinum um kvenna- og kynjafræði, femínisma og jafnréttismál í víðum skilningi.

fléttur VI: Loftslagsvá og Jafnrétti

 

Fléttur VI. Loftslagsvá og jafnrétti er sjötta ritið í ritröð RIKK – Rannsóknastofnunar í jafnréttisfræðum. Í bókinni er fjallað um loftslagsvá út frá kynja- og jafnréttissjónarmiðum. Rýnt er í margþætt tengsl loftslagsbreytinga, kynjajafnréttis og samfélagslegs réttlætis með það að markmiði að stuðla að víðtækari skilningi á þessu stærsta viðfangsefni samtímans. Efnið er kannað bæði frá íslensku sjónarhorni og alþjóðlegu. Fjallað er um femíníska vistrýni og henni beitt í bókmenntagreiningu, dregnar eru fram raddir og sögur kvenna á ólíkum tímum og sjónum beint að loftslagskvíða. Enn fremur er femínískum greiningartækjum beitt til að greina tengsl loftslagsbreytinga við feðraveldi, nýlendustefnu, kapítalisma, stéttaskiptingu og kynþáttahyggju með sérstakri áherslu á samtvinnun. 

 

Ritstjórar bókarinnar eru Elín Björk Jóhannsdóttir, Auður Aðalsteinsdóttir og Hafdís Hanna Ægisdóttir. Auk formála eru 9 greinar í Fléttum VI. Höfundar greina eru Angela Rawlings, Auður Aðalsteinsdóttir, Hólmfríður Garðarsdóttir, Katarina Leppänen, Margrét Gunnarsdóttir, Ole Martin Sandberg, Sigrún Ólafsdóttir, Soffía Auður Birgisdóttir, Sóllilja Bjarnadóttir og Unnur Birna Karlsdóttir. Bókin hlaut styrk úr Jafnréttissjóði Íslands og kom út árið 2024 en útgáfan tilheyrir 2023.

NÁNAR UM BÓKINA

 

fléttur V: #MeToo

 

Fimmta hefti ritraðar RIKK er tileinkað #MeToo og baráttu kvenna gegn áreitni og ofbeldi. Í bókinni nálgast höfundar efnið frá fjölbreytilegu sjónarhorni. #MeToo er sett í sögulegt samhengi innan kvennahreyfingarinnar. Fjallað er um hvernig ótti kvenna við kynferðisofbeldi birtist í íslenskum bókmenntum. Frásagnir kvenna sem störfuðu sem ráðskonur á síðari hluta 20. aldar af kynbundnu ofbeldi eru teknar til skoðunar. Sjónum er beint að því viðhorfi sem konur mæta í heilbrigðiskerfinu og fjallað um áhrif kynferðisofbeldis á heilsu þeirra. Jafnframt er vikið að hugmyndum ungra karlmanna um kynheilbrigði og #MeToo. Rýnt er í sálrænar afleiðingar margþættrar mismununar í garð fatlaðra kvenna og það kerfislæga misrétti sem #MeToo-sögur kvenna af erlendum uppruna á Íslandi afhjúpa. Spurt er hvort #MeToo-hreyfingin sé þáttur í breyttum mannskilningi sem bjóði hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar byrginn og rýnt er í mótstöðuna gegn #MeToo.

 

Ritstjórar bókarinnar eru Elín Björk Jóhannsdóttir, Kristín I. Pálsdóttir og Þorgerður H. Þorvaldsdóttir. Auk formála eru 11 greinar í Fléttum V. Höfundar greina eru Irma Erlingsdóttir, Soffía Auður Birgisdóttir, Þorgerður H. Þorvaldsdóttir, Guðbjörg Lilja Hjartardóttir, Dalrún J. Eygerðardóttir, Guðrún Steinþórsdóttir, Sigrún Sigurðardóttir, Sigríður Halldórsdóttir, Lóa Guðrún Gísladóttir, Ragný Þóra Guðjohnsen, Sóley S. Bender, Freyja Haraldsdóttir, Nanna Hlín Halldórsdóttir, Eyja Margrét Brynjarsdóttir og Nichole Leigh Mosty. Bókin hlaut styrk úr Jafnréttissjóði Íslands og kom út árið 2021. Útgáfan tilheyrir 2020.

NÁNAR UM BÓKINA

 

The Routledge Handbook of the Politics of the #MeToo Movement

 

The Routledge Handbook of the Politics of the #MeToo Movement er í ritstjórn Irmu Erlingsdóttur, forstöðumanns RIKK, og Giti Chandra, rannsakanda hjá Jafnréttisskólanum (GEST) og gefin út af Routledge-bókaforlaginu. Bókin hefur að geyma 31 kafla eftir 38 höfunda. Í hópi þeirra eru heimsþekktir kenningasmiðir en einnig ungir aðgerðasinnar og fræðimenn víðs vegar að úr heiminum. Meðal kaflahöfunda eru Angela Davis, Catharine MacKinnon, Cynthia Enloe, Jack Halberstam, Jeff Hearn og Marai Larasi.

 

Túlka má #MeToo-hreyfinguna sem viðbrögð við kerfi sem er byggt upp með þeim hætti að það getur ekki annað en brugðist þeim sem hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi og áreitni.  #MeToo-hreyfingin hefur þegar markað þáttaskil. Nýnæmi hennar felst í breiðari þátttöku og samstöðu í baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi, kynferðislegri áreitni og hatursorðræðu en áður hefur þekkst. Hún hefur einnig leitt til alþjóðlegrar viðurkenninngar á útbreiðslu vandans og pólitískrar viðhorfsbreytingar, þar sem áhersla er lögð á kerfislægt misrétti.

 

Í bókinni er fjallað um #MeToo-hreyfinguna í alþjóðlegu samhengi frá því að myllumerkið tók samfélagsmiðla yfir í lok árs 2017. Varpað er ljósi á staðbundna og hnattræna þróun hreyfingarinnar og áhrifamátt, en einnig takmörk hennar og þær hindranir sem hún hefur mætt. Fjallað er um #MeToo-hreyfinguna út frá ólíkum sjónarhornum, bæði í ljósi femínísks aktivisma og fræðanna, m.a. stjórnmálafræði, sagnfræði, félagsfræði, lögfræði, bókmenntafræði og heimspeki. Bókin á jafnt erindi við fræðasamfélagið, grasrótina og almenning.

 

Kaflahöfundar eru í íslenskri stafrófsröð: Angela Davis, Anne-Emmanuelle Berger, Anna Sedysheva, Audrey Roofeh, Bibia Pavard, Catharine MacKinnon, Cass R. Sunstein, Cynthia Enloe, Eyja Margrét Brynjarsdóttir, Edmé Domínguez, Esther Waweru,  Florence Rochefort, Freyja Haraldsdóttir, Giti Chandra, Irma Erlingsdóttir, Jack Halberstam, Jeff Hearn, Judy Gitau, Karen Boyle, K. Kanyali Mwikya, Li Jun, Lisa Salmonsson,  Magdalena Grabowska, Marai Larasi, Marifran Carlson, Marta Rawłuszko, Michelle Zancarini-Fournel, Mirela Violeta David, Nanna Hlín Halldórsdóttir, Nkiru Balonwu, Pamela L. Runestad, Purna Sen, Robert O’Mochain, Rochelle McFee, Rym Tina Ghazal, Tamara Shefer, Tigist Shewarega Hussen og Vinita Chandra.

 

Bókin var unnin í samstarfi RIKK við Jafnréttisskólann (GEST) og rannsóknasetrið EDDU og hlaut styrk úr Jafnréttissjóði Íslands.

Fléttur IV: Margar myndir ömmu

Konur og mótun íslensks samfélags á 20. öld

Fjórða hefti ritraðar RIKK er tileinkað ömmum og langömmum. Í greinunum eru sagðar sögur kvenna sem lifðu þann tíma þegar nútíminn hóf innreið sína á Íslandi. Fræðimenn af ólíkum sviðum, s.s. sagnfræði, guðfræði, félagsfræði, stjórnmálafræði og bókmenntafræði, setja lífshlaup formæðra sinna í samhengi við samfélagsgerðina sem, hvað sem borgaralegum réttindum leið, takmarkaði möguleika þeirra til þátttöku í opinberu lífi og um leið til sjálfstæðis og frelsis. Jafnframt er þáttur þeirra í að endurmóta ríkjandi hugmyndir um kvenleikann og samfélagslegt hlutverk sitt metinn og spurt hvaða tækifæri konur höfðu til þess að hafa áhrif í samfélaginu, bæði með starfi sínu inn á við, í þágu heimilis, en ekki síður út á við, til dæmis í gegnum félagasamtök og kvenfélög sem voru í hverri sveit. Greinarnar draga upp fjölbreyttar myndir af lífi kvenna á Íslandi um aldamótin 1900 og fram á miðja 20. öld með því að tefla saman kenningarlegri nálgun og persónulegri frásögn.

 

Árið 2015 markaði 100 ára árstíð kosningaréttar kvenna og af því tilefni stóð RIKK að hádegisfyrirlestraröð á vormisseri sem helguð var ömmum. Markmiðið með fyrirlestraröðinni var að segja sögur kvenna sem lifðu þann tíma þegar nútíminn hóf innreið sína á Íslandi. Tuttugasta öldin var öld baráttu fyrir borgaralegum réttindum, þar á meðal kvenréttindum en fyrsta bylgja femínisma skilaði atkvæðarétti til kvenna víða um heim á fyrstu áratugum 20. aldar.

 

Höfundar greina eru Irma Erlingsdóttir, Guðmundur Hálfdánarson, Dagný Kristjánsdóttir, Berglind Rós Magnúsdóttir, Sólveig Anna Bóasdóttir, Ármann Jakobsson, Erla Hulda Halldórsdóttir, Ingibjörg Sigurðardóttir, Sigrún Alba Sigurðardóttir, Annadís Gréta Rúdólfsdóttir, Silja Bára Ómarsdóttir og Súsanna Margrét Gestsdóttir og Guðni Th. Jóhannesson ritar formála. Ritstjórar eru Irma Erlingsdóttir, Ragnheiður Kristjánsdóttir, Sigrún Alba Sigurðardóttir og Sólveig Anna Bóasdóttir. Íris Ellenberger sá um fræðilega ritstjórn. Útgefendur eru RIKK og Háskólaútgáfan og útgáfa bókarinnar er styrkt af Miðstöð íslenskra bókmennta, Framkvæmdanefnd um aldarafmæli kosningaréttar kvenna, Hugvísindastofnun og EDDU – öndvegissetri. Bókin kom út árið 2016.

Fléttur III: Jafnrétti, menning, samfélag

Þriðja greinasafnið í ritröð RIKK, Fléttur III, kom út í ársbyrjun 2014. Viðfangsefni bókarinnar eru birtingarmyndir misréttis í samfélagi og menningu og áhrif þess á aðstæður karla og kvenna. Má þar nefna átök femínista af ólíkum skólum á Íslandi, misnotkun valds og andóf í kristinni trúarhefð og stöðu kvenna í bókmenntum og kvikmyndum. Í bókinni er sjónum jafnframt beint að samtvinnun ólíkra þátta mismununar, skörun fötlunar og kyngervis, og íslenskri friðargæslu í ljósi femínískra öryggisfræða. Einnig er rætt um þær afleiðingar sem ofríki karllægrar hugmyndafræði hafði í fjármálakreppunni árið 2008 og í umræðunni um loftslagsbreytingar.

Fléttur III – Jafnrétti, menning, samfélag er þriðja greinasafnið í Fléttum ritröð RIKK, Rannsóknastofnun í jafnréttisfræðum við Háskóla Íslands, en þetta er 20 ára afmælisrit stofnunarinnar. Fléttum er ætlað að kynna niðurstöður jafnréttisrannsókna og koma á framfæri fræðilegum greinum um kvenna- og kynjafræði, femínisma og jafnréttismál í víðum skilningi, og spegla þá miklu breidd sem er í jafnréttisfræðum bæði hér heima og erlendis. Í þessu þriðja greinasafni Flétta má finna 12 greinar eftir íslenska og erlenda höfunda og lúta sum umfjöllunarefnin að séríslenskum kringumstæðum en önnur hafa alþjóðlega skírskotun.

 

Höfundar greina eru Alda Björk Valdimarsdóttir, Arnfríður Guðmundsdóttir, Benedikt Hjartarson, Björn Ægir Norðfjörð, Björn Þór Vilhjálmsson, Cynthia Enloe, Dagný Kristjánsdóttir og Katrín María Víðisdóttir, Daisy L. Neijmann, Joni Seager, Kristín Björnsdóttir, Silja Bára Ómarsdóttir og Þorgerður H. Þorvaldsdóttir. Ritstjórar eru Annadís G. Rúdólfsdóttir, Guðni Elísson, Ingólfur Ásgeir Jóhannesson og Irma Erlingsdóttir. Útgefendur eru RIKK og Háskólaútgáfan. Menningarsjóður Hlaðvarpans, Reykjavíkurborg, Rannsóknasjóður Hugvísindastofnunar og EDDA – öndvegissetur styrktu útgáfuna.

BÓKIN Á RAFRÆNU FORMI

Á rauðum sokkum

Baráttukonur segja frá

Í bókinni segja tólf konur frá starfi sínu með Rauðsokkahreyfingunni fyrstu ár hennar, en haustið 2010 voru liðin 40 ár frá eiginlegum stofnfundi hennar árið 1970. Hver kona ritar sinn kafla og jafnframt leggur einn af frumkvöðlum hreyfingarinnar, skáldið Vilborg Dagbjartsdóttir, bókinni til tólf ljóð sem flest voru ort á áttunda áratugnum og eiga ríkan samhljóm með umfjöllunarefni frásagnanna.

 

Stofnun Rauðsokkahreyfingarinnar markaði tímamót í sögu íslenskra kvennahreyfinga og hún á skilið heiðurssess í íslenskri sögu og samfélagsvitund. Rauðsokkar börðust fyrir fjölmörgum málum sem þykja sjálfsögð réttindi í dag, svo sem dagvistun barna giftra foreldra og frjálsum fóstureyðingum, oft með nýstárlegum baráttuaðferðum. Auk þess gaf hreyfingin hefðbundnu félagsformi langt nef og starfaði samkvæmt sínum eigin, athyglisverðu formerkjum. Höfundar bókarinnar Á rauðum sokkum segja frá þátttöku sinni í jafnréttisbaráttunni en einnig frá persónulegum uppruna sínum og því hvernig þær vöknuðu til vitundar um óréttlætið sem konur voru beittar. Bókin er því einnig merkileg heimild um andrúmsloftið í þjóðfélaginu og stöðu og sjálfsvitund kvenna fyrir tíma rauðsokka.

 

Höfundar bókarinnar eru Auður Hildur Hákonardóttir, Björg Einarsdóttir, Edda Óskarsdóttir, Elísabet Gunnarsdóttir, Gerður G. Óskarsdóttir, Guðrún Ágústsdóttir, Guðrún Friðgeirsdóttir, Guðrún Hallgrímsdóttir, Helga Ólafsdóttir, Lilja Ólafsdóttir, Rannveig Jónsdóttir, Vilborg Dagbjartsdóttir og Vilborg Sigurðardóttir. Vilborg Sigurðardóttir ritar jafnframt inngang bókarinnar, Dagný Kristjánsdóttir skrifar eftirmála og ritstjóri er Olga Guðrún Árnadóttir.

BÓKIN Á RAFRÆNU FORMI

Nútímans Konur

Menntun Kvenna og mótun kyngervis á Íslandi 1850-1903

Í bókinni fjallar Erla Hulda Halldórsdóttir sagnfræðingur um mótun kyngervis kvenna á Íslandi á síðari hluta 19. aldar. Til grundvallar liggur umræða sem hófst í landsmálablöðunum árið 1870 um hvaða menntun hæfði konum og hinu svokallaða kvenlega eðli. Þótt umræðan hafi á yfirborðinu snúist um viðeigandi menntun kvenna þá snérist hún í raun um samfélagslegt hlutverk þeirra. Auk hinnar opinberu umræðu er byggt á upplifun kvenna eins og hún birtist í sendibréfum þar sem fram kemur togstreita milli ríkjandi hugmynda um hlutverk kvenna og löngunar þeirra til þess að stíga út fyrir „sitt gólf”.

 

Bókin er doktorsverkefni Erlu Huldu Halldórsdóttur við Sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands. Hún er gefin út í samstarfi Sagnfræðistofnunar, RIKK og Háskólaútgáfunnar.

FlÉTTUR II: Kynjafræði

kortlagningar

Bókin Kynjafræði – kortlagningar er annað greinasafnið í ritröðinni Fléttum. Greinarnar í heftinu byggja m.a. á erindum sem flutt voru á ráðstefnu Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum haustið 2002. Greinarnar, 24 að tölu, endurspegla þá miklu breidd sem er í kynjarannsóknum hér á landi, í öllum greinum og á öllum fræðasviðum. Sjónum er m.a. beint að konum í sjávarútvegi, drengjum í skólum, launamuni kynjanna og heilsufari kvenna. Ennfremur er fjallað um kynjamyndir í bókmenntum og myndlist, stuðning íslenskra karla við kvenréttindi á síðari hluta 19. aldar og samanburður gerður á þvinguðum umskurði kvenna í þróunarlöndum og þeim (fegrunar)aðgerðum sem vestrænar konur gangast undir „sjálfviljugar” til að uppfylla staðlaðar kynjaímyndir. Inngangsgrein ritar heimspekingurinn Rosi Braidotti sem er einn helsti fræðimaður á sviði kynjarannsókna í heiminum um þessar mundir. Ritstjóri er Irma Erlingsdóttir.

BÓKIN Á RAFRÆNU FORMI

 

Karlmennska og jafnréttisuppeldi

Höfundur bókarinnar er Ingólfur Ásgeir Jóhannesson prófessor við Háskólann á Akureyri. Í bókinni skoðar Ingólfur stöðu drengja í skólum en undanfarin misseri hefur þeirri skoðun vaxið fiskur um hrygg að drengir eigi þar undir högg að sækja. Ingólfur ræðir um goðsagnir og veruleika sem endurspeglast sitt á hvað í þessum umræðum. Ingólfur nýtir fræðilegar kenningar og fjölmargar rannsóknir, innlendar og erlendar, m.a. eigin viðtalsrannsókn við íslenskar grunnskólakennslukonur, til þess að leggja fram raunhæfar tillögur um jafnréttisuppeldi drengja. Bók Ingólfs er tímabært innlegg í íslenska skólamálaumræðu, ekki síst með tilliti til niðurstöðu Pisa-rannsóknarinnar sem nýlega var kynnt í fjölmiðlum. Ingólfur telur að slakan námsárangur drengja megi ekki síst rekja til áhrifa hefðbundinna og skaðlegra karlmennskuímynda á drengi. Útgefandi er Rannsóknastofa í kvenna- og kynjafræðum við Háskóla Íslands en dreifingu annast Háskólaútgáfan.

BÓKIN Á RAFRÆNU FORMI

Kosningaréttur Kvenna 90 ára

Bókin Kosningaréttur kvenna 90 ára geymir ávörp þau og erindi sem flutt voru á málþingi vorið 2005 í tilefni af 90 ára afmæli kosningaréttar kvenna. Að málþinginu stóðu Alþingi, Háskóli Íslands, Kvennasögusafn Íslands og Rannsóknastofa í kvenna- og kynjafræðum. Ritið er gefið út með styrk frá Alþingi og hefur að geyma auk erindanna upplýsingar um þær konur sem tekið hafa sæti á Alþingi, kvenráðherra, þróun kosningaréttar til þings og þróun kosningaþátttöku kvenna og karlmanna. Það er von útgefenda að ritið fylli í skarð heimilda um sögu og þróun kosningaréttar og verði öðrum hvatning til frekari lesturs og rannsókna. Háskólaútgáfan annaðist dreifinguna.

Speglanir

Greinasafn eftir Helgu Kress prófessor í bókmenntafræði. Speglanir eru safn fjórtán greina um konur í íslenskum bókmenntum nítjándu og tuttugustu aldar andspænis bókmenntastofnun og bókmenntahefð. Útgefandi er Rannsóknastofa í kvennafræðum.

Simone de Beauvoir.

Heimspekingur, rithöfundur, femínisti

 

Ráðstefnurit. Ritstjórar eru Irma Erlingsdóttir forstöðumaður Rannsóknastofu í kvennafræðum og Sigríður Þorgeirsdóttir dósent í heimspeki.

Fléttur I

Rit Rannsóknastofu í kvennafræðum

Í bókinni eru greinar um siðfræði, bókmenntir, mannfræði, sálfræði, hjúkrunarfræði, félagsráðgjöf og félagsfræði. Þær eru allar skrifaðar frá kvennafræðilegu sjónarhorni og bera vott um þá grósku og fjölbreytni sem er í kvennarannsóknum hér á landi. Flestar greinarnar eru að stofni til fyrirlestrar sem haldnir hafa verið á vegum Rannsóknastofu í kvennafræðum við Háskóla Íslands.

 

Höfundar greinanna eru Guðný Guðbjörnsdóttir, Guðrún Jónsdóttir, Helga Kress, Inga Dóra Björnsdóttir, Kristín Björnsdóttir, Ragnhildur Richter, Rannveig Traustadóttir, Sigríður Dúna Kristmundsdóttir og Sigríður Þorgeirsdóttir. Ritstjórar eru Ragnhildur Richter og Þórunn Sigurðardóttir. Útgefendur eru Rannsóknastofa í kvennafræðum og Háskólaútgáfan.

Fyrir dyrum fóstru

Greinar um konur og kynferði í íslenskum fornbókmenntum eftir Helgu Kress. Útgefandi er Rannsóknastofa í kvennafræðum, 1996. Bókin hefur að geyma sjö greinar um íslenskar fornbókmenntir frá árunum 1977-1996 og fjalla þær allar á einhvern hátt um samband kynferðis, karlveldis og karnivals í þessum bókmenntum.

Íslenskar kvennarannsóknir 1970-1997. Gagnagrunnur I

Skrá yfir um 200 rit og greinar sem skrifaðar hafa verið í sagnfræði frá kvennafræðilegu sjónarhorni, ásamt útdráttum á íslensku og ensku. Ritstjóri er Helga Kress. Útgefandi er Rannsóknastofa í kvennafræðum, 1997.

Íslenskar kvennarannsóknir

Erindi flutt á ráðstefnu í október 1995. Ritstjórar eru Helga Kress og Rannveig Traustadóttir. Útgefandi er Rannsóknastofa í kvennafræðum, 1997. Þetta er safn rúmlega 30 erinda sem haldin voru á ráðstefnu um íslenskar kvennarannsóknir í október 1995 á vegum Rannsóknastofu í kvennafræðum.