RIKK – Rannsóknastofnun í jafnréttisfræðum tekur þátt í evrópskum og norrænum rannsóknaverkefnum, stendur að og tekur þátt í fjölda rannsóknarverkefna á sviði kvenna- og kynjafræða. RIKK birtir niðurstöður rannsókna á fræðasviðinu með bókaútgáfu auk þess sem afrakstur fyrri rannsóknaverkefna má sjá í skýrslum sem stofnunin hefur staðið að.
Einelti og áreitni í starfsumhverfi sviðslista
Skýrslan er unnin af RIKK – Rannsóknastofnun í jafnréttisfræðum að frumkvæði Sviðslistasambands Íslands. Skýrslan sýnir að einelti og kynbundin og kynferðisleg áreitni eru rótgróin vandamál innan sviðslista. Í skýrslunni er leitast við að kortleggja umfang og eðli kynferðislegrar áreitni, kynbundinnar áreitni og eineltis í starfsumhverfi sviðslistafólks á Íslandi. Gagna var aflað vorið 2019 með rafrænni spurningakönnun meðal félagsmanna í fagfélögum sviðslistafólks á Íslandi. Kristín A. Hjálmarsdóttir kynjafræðingur er höfundur skýrslunnar og ritstjóri Elín Björk Jóhannsdóttir, verkefnisstjóri RIKK. Jafnréttissjóður Íslands styrkti rannsóknina.
Bjarkarhlíð – miðstöð fyrir þolendur ofbeldis
Frá Tilraun til framtíðarverkefnis
Úttektin á Bjarkarhlíð – miðstöð fyrir þolendur ofbeldis gerir grein fyrir helstu styrkleikum og veikleikum verkefnisins og gefur innsýn í hvernig til hefur tekist með samstarfsverkefnið ásamt því að skoða mögulegar leiðir til umbóta. Úttektin er unnin af RIKK – Rannsóknastofnun í jafnréttisfræðum sem hluti af samstarfssamningi RIKK og Reykjavíkurborgar.
Matið byggir á fyrirliggjandi gögnum frá Bjarkarhlíð, megindlegum og eigindlegum, um starfsemina almennt, þjónustuna, þjónustuþegahópinn og viðhorf þjónustuþega auk þess sem nýrra gagna var aflað með viðtölum, samráðshópum og tölvupóstum. Í matsteyminu voru Elín Björk Jóhannsdóttir, verkefnisstjóri hjá RIKK, sem hafði yfirumsjón með úttektinni og Kristín A. Hjálmarsdóttir, sjálfstætt starfandi fræðimaður, sem sá um framkvæmd úttektarinnar fyrir hönd RIKK.
Átak gegn heimilisofbeldi
Úttektin er unnin af RIKK – Rannsóknastofnun í jafnréttisfræðum fyrir Kópavog, Hafnarfjörð og Garðabæ.
Úttektin er unnin af RIKK – Rannsóknastofnun í jafnréttisfræðum fyrir Kópavog, Hafnarfjörð og Garðabæ. Matið byggir á innleggi þess starfsfólks sem að verkefninu kemur, sjónarmiðum þolenda og sérfræðinga á sviðinu ásamt tölulegum gögnum.
Saman gegn ofbeldi
Úttekt á samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar og Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu gegn heimilisofbeldi.
Úttektin er unnin af RIKK – Rannsóknastofnun í jafnréttisfræðum fyrir Reykjavíkurborg og Lögregluna á höfuðborgarsvæðinu. Matið byggir á innleggi þess starfsfólks sem að verkefninu kemur, sjónarmiðum þolenda og sérfræðinga á sviðinu ásamt tölulegum gögnum.
STAÐA KVENNA Í SAUÐFJÁRRÆKT
Landssamtök sauðfjárbænda hafa hafið vinnu við úttekt á stöðu kvenna í sauðfjárrækt og er fyrsta áfanga úttektarinnar nú lokið. Tilgangurinn er að skoða hvort halli á konur innan greinarinnar og ef svo er, skoða leiðir til úrbóta. Nokkur verkefni hafa verið sett á laggirnar til að bæta stöðu kvenna í landbúnaði undanfarin ár, s.s. jafnréttisnefnd Bændasamtaka Íslands og verkefnin Byggjum brýr, Fósturlandsins freyjur og lifandi landbúnaður. Þessi verkefni hafa náð ágætum árangri en ráðast þó ekki að rótum vandans.
Í niðurstöðum þessa fyrsta áfanga úttektar á stöðu kvenna í sauðfjárrækt er lagt til að skráning á kyngreindum upplýsingum um einstaklinga sem starfa í landbúnaði verði bætt og að kynjasamþætting verði innleidd á markvissan máta innan landbúnaðarkerfisins, til dæmis hjá Bændasamtökunum, Búnaðarfélögum og í málefnum landbúnaðarins innan atvinnuvega- og ráðuneytis. Markmiðið er að tryggja að jafnréttissjónarmið komi til skoðunar á öllum stigum stefnumótunar og framkvæmdar. Þá er bent á að mikilvægt skref í átt til aukins jafnréttis sé að aðildarfélög Landssamtaka sauðfjárbænda gæti að kynjasjónarmiðum við kosningu í stjórnir og önnur trúnaðarstörf. Enn fremur er lögð áhersla á að mikilvægt er að styrkja tengslanet kvenna í landbúnaði og loks er atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hvatt til að endurskoða reglur um skráningu búa og eigna í landbúnaði með það að markmiði að tryggja rétt kvenna.
Fyrsta áfanga úttektarinnar var skilað í febrúar 2016.
Kynferðisleg áreitni í þjónustustörfum
Rannsókn á upplifun starfsfólks á kynferðislegri áreitni á vinnustað
RIKK – Rannsóknarstofnun í jafnréttisfræðum við Háskóla Íslands stóð vorið 2015 fyrir rannsókn á kynferðislegri áreitni gagnvart starfsfólki sem unnið hefur á veitingastöðum og/eða í hótel- og ferðaþjónustu síðastliðin 10 ár. Rannsóknin var unnin að beiðni Starfsgreinasambands Íslands. Samkvæmt beiðni RIKK gerði Félagsvísindastofnun spurningakönnun í netpanel Þjóðmálakönnunar sinnar í febrúar 2015. Upphaf verkefnisins má rekja til norrænnar samvinnu verkalýðsfélaga á þessu sviði og ráðstefnu um staðalmyndir og kynferðislega áreitni innan hótel-, veitinga- og ferðaþjónustunnar sem Starfsgreinasambandið ásamt systursamtökum á Norðurlöndum stóð fyrir í byrjun júní 2015. Í aðdraganda ráðstefnunnar var ljóst að skortur væri á rannsóknum á þessu sviði hér á landi og því leitaði Starfsgreinasambandið til RIKK um að ráðast í þetta verkefni. Sambærileg verkefni hafa verið unnin á hinum Norðurlöndunum, þó með nokkuð misjöfnum hætti. Sjá nánar hér.
Rannsókn á kynbundnum launamun hjá Reykjavíkurborg
Rannsóknin var unnin í samvinnu mannauðsskrifstofu, mannréttindaskrifstofu og RIKK. Í stýrihópi verkefnisins sátu fyrir hönd RIKK Irma Erlingsdóttir, Ragna Benedikta Garðarsdóttir og Auður Magndís Leiknisdóttir. Fyrir hönd Reykjavíkurborgar sátu Anna Borgþórsdóttir Olsen á mannauðsskrifstofu og Halldóra Gunnarsdóttir á mannréttindaskrifstofu í stýrihópnum. Rannsóknin hófst haustið 2009 og úttektin var tilbúin sumarið 2010.
Kyn og völd á Norðurlöndum
samnorrænt rannsóknaverkefni
Verkefnið var unnið af norrænu kvenna- og kynjarannsóknastofnuninni NIKK að ósk Norrænu ráðherranefndarinnar, en umsjón með íslenskum hluta rannsóknarinnar hafði RIKK.
Kyn og völd er fyrsta verkefnið þar sem valdastöður í stjórnmálum og efnahagslífi á Norðurlöndum og norrænum sjálfstjórnarsvæðum eru rannsakaðar og bornar saman. 20 fræðimenn rannsökuðu þróunina á síðustu 15 árum og lögðu mat á norrænar aðgerðir og lagasetningar í jafnréttismálum. Framkvæmd íslenska hluta rannsóknarinnar var í höndum Auðar Styrkársdóttur, Ph.D. í stjórnmálafræði, Guðbjörgu Lindu Rafnsdóttur, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands, og Rósu Erlingsdóttur, M.A. í stjórnmálafræði.
Á meðan konur á Norðurlöndunum hafa styrkt stöðu sína í stjórnmálum hefur konum lítið sem ekkert fjölgað í stjórn atvinnulífsins en þar ráða karlmenn enn lögum og lofum. Undantekning frá þeirri reglu er Noregur þar sem gripið var til lagasetningar til að fjölga konum í stjórnun atvinnulífsins. Stjórnarfrumvarp um kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja bíður nú afgreiðslu á Alþingi.
Líka á Íslandi
Rannsókn á eðli og umfangi mansals
Skýrslan var unnin við Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum fyrir Rauða kross Íslands árið 2009. Höfundur skýrslunnar er Fríða Rós Valdimarsdóttir. Ritstjóri er Irma Erlingsdóttir, forstöðumaður RIKK.
Á alþjóðaráðstefnu Rauða krossins í Genf, í nóvembermánuði 2007, tilkynnti Íslandsdeild hreyfingarinnar þá ætlun sína að rannsaka og meta aðstæður hugsanlegra fórnarlamba mansals á Íslandi. Rannsókninni lauk nú snemmsumars en í framhaldi af henni er gert ráð fyrir því að Rauði krossinn á Íslandi þrói aðgerðaráætlun byggða á niðurstöðunum, svo unnt verði að veita meintum fórnarlömbum mansals viðeigandi þjónustu, vernd og stuðning. Rauði kross Íslands leitaði til Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum við Háskóla Íslands (RIKK) og óskaði eftir samstarfi um verkefnið.
Eftir að helstu áherslur verkefnisins höfðu verið skilgreindar, var Fríðu Rós Valdimarsdóttur manfræðingi, falin verkefnisstjórn og sá hún um framkvæmd rannsóknarinnar og ritun þessarar skýrslu. Henni til ráðgjafar og stuðnings var bakhópur valinn í sameiningu af RIKK og Rauða krossi Íslands. Í honum sátu þau Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands, Helga G. Halldórsdóttir, sviðsstjóri innanlandssviðs Rauða kross Íslands, Hildigunnur Ólafsdóttir, afbrotafræðingur, Irma Erlingsdóttir, forstöðumaður Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum, Kristján Sturluson, framkvæmdastjóri Rauða kross Íslands, og Margrét Steinarsdóttir, lögfræðingur og framkvæmdastjóri Alþjóðahúss.
Rannsóknin felst í því að kanna eðli og umfang mansals á Íslandi. Í ljósi þess að upplýsingar eru af skornum skammti hér á landi er um grunnrannsókn að ræða. Rannsóknin byggist á viðtölum við fulltrúa opinberra stofnana, ráðgjafa, lögfræðinga og starfsfólk ýmissa félaga.
Vændi á Norðurlöndunum
samnorrænt rannsóknaverkefni
Verkefnið var unnið af norrænu kvenna- og kynjarannsóknastofnuninni NIKK að ósk Norrænu ráðherranefndarinnar. Markmið rannsóknarinnar var að skoða stöðu vændis og mansals á Norðurlöndunum út frá fyrirliggjandi þekkingu.
Umsjón með íslenskum hluta rannsóknarinnar hafði RIKK en Gísli Hrafn Atlason og Katrín Anna Guðmundsdóttir unnu rannsóknina og niðurstöður hennar má finna hér í skýrslunni Vændi og mansal á Íslandi (2008).
Minningar úr kvennabaráttunni 1965-1980
Rannsóknarhugmyndin var hönnuð hjá RIKK en verkefnið var framkvæmt af Miðstöð munnlegrar sögu (sem er samstarfsstofnun RIKK, forstöðumaður situr í stjórn MMS) í samvinnu við Kvennasögusafnið. Fríða Rós Valdimarsdóttir og Halla Kristín Einarsdóttir unnu að þessu verkefni og tóku viðtöl við á þriðja tug kvenna. Halla Kristín nýtti viðtölin til að búa til heimildamyndina Konur á rauðum sokkum, sem var lokaverkefni hennar í hagnýtri menningarmiðlun. Verkefnið fékk styrki úr Rannsóknasjóði HÍ og frá Hlaðvarpanum. Vinnu við verkefnið lauk árið 2009 en 35 myndbandsspólur með viðtölum Fríðu Rósar og Höllu Kristínar eru geymdar í Miðstöð munnlegrar sögu, ásamt uppskrift viðtalanna, spóluskrá og plakati bíómyndarinnar. Myndefnið er þó óklippt og ekki tilbúið til notkunar.
Rannsóknaverkefni um áhrif atvinnumissis á líðan og heilsu
Afleiðingar bankahruns
Í byrjun júní 2008 stóðu Samtök starfsmanna fjármálafyrirtækja, í samvinnu við RIKK og Rannsóknarstofu í vinnuvernd fyrir umfangsmikilli rannsókn meðal starfsmanna fjármálafyrirtækja sem höfðu misst vinnuna í hópuppsögnum í tengslum við fjármálahrunið. Meginmarkmið rannsóknarinnar var að kanna heilsu og líðan þeirra sem misstu vinnuna. Einnig var spurt um núverandi atvinnustöðu, virkni í atvinnuleit, líkur á atvinnu í nánustu framtíð, auk þess sem spurt var um viðhorf til uppsagna, sanngirni í uppsögnum og stuðning frá stéttarfélagi. Verkefnið var fjármagnað af RIKK að stórum hluta. Umsjón með rannsókninni hafði Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, prófessor í félagsfræði og Helena Jónsdóttur, MA í sálfræði. Spurningalistar voru sendir til þátttakenda vorið 2009. Úrvinnslan fór fram í maí og júní sama ár.
Í kjölfar falls íslenskra bankakerfisins í október 2008 var ríflega 600 starfsmönnum fjármálastofnana sagt upp í hópuppsögnum og nýjar tölur benda til þess að frá því í mars 2008 hafi allt að 1600 bankamenn misst vinnuna. Í þeirri rannsókn var markmiðið að kanna tengsl atvinnumissis við heilsu og líðan þessara 1600 starfsmanna, viðhorf þeirra til tiltekinna þátta bankahrunsins, einkum þeirra sem viðkoma þeim stuðningi sem hópurinn hefur fengið. Sérstaklega var horft til mismunandi áhrifa atvinnumissis á konur og karla. Þar sem ástand vinnumarkaðar á Íslandi var mjög gott fyrir bankahrunið hafa ítarlegar rannsóknir á sértækum hópum þeirra er missa vinnu ekki verið mögulegar. Að auki var markmiðið að greina hvernig einstaklingsbundnir þættir eins og kyn og aldur geti hugsanlega spáð fyrir um andlega líðan og líkamlega heilsu fólks í kjölfar atvinnumissis. Fyrstu niðurstöður voru kynntar á hádegisfyrirlestri RIKK, föstudaginn 20. nóvember 2009.
Könnun á Viðhorfum æðstu stjórnenda Reykjavíkurborgar til kynjajafnréttis
Rannsóknin var unnin í samstarfi Reykjavíkurborgar og Rannsóknastofu í kvenna-og kynjafræðum við Háskóla Íslands (RIKK). Katrín Anna Guðmundsdóttir vann könnunina sem starfsmaður RIKK. Umsjónaraðilar voru Kristín Ástgeirsdóttir forstöðumaður RIKK og dr. Þorgerður Einarsdóttir prófessor í kynjafræði við Háskóla Íslands. Irma Erlingsdóttir tók við umsjón af Kristínu Ástgeirsdóttur þegar hún tók aftur við starfi forstöðumanns RIKK í ágúst 2007. Í skýrslunni eru kynntar niðurstöður könnunar á viðhorfum æðstu stjórnenda Reykjavíkurborgar til jafnréttis kynjanna. Markmiðið var að skoða áherslur þeirra í jafnréttismálum, hvernig gerð jafnréttisáætlana hefur verið háttað og eftirfylgni við þær. Jafnframt var skoðað hvort stjórnendur teldu þörf á fræðslu um jafnréttismál. Sérstökáhersla var lögð á að kanna staðalmyndir um getu og hæfni kynjanna.
Fyrirvinnur, hálfdrættingar og heildarhyggja
um vinnumenningu, fjölskylduábyrgð og kynjatengsl innan vinnustaða Reykjavíkurborgar
Þetta rannsóknarverkefni var hluti af umfangsmikilli rannsókn Gyðu Margrétar Pétursdóttur og Þorgerðar Einarsdóttur á vinnumenningu, kynjatengslum og fjölskylduábyrgð á Íslandi. Heildarnálgun rannsóknarinnar voru breytingar á vinnumenningu og félagslegri merkingu vinnunnar í kjölfar alþjóðavæðingar og harðnandi samkeppni á vinnumarkaði. Í verkefninu var sjónum sérstaklega beint að fjölskyldu- og jafnréttisstefnu fyrirtækja og stofnana í ljósi ytri breytinga á vinnumarkaði.
Skýrslan var unnin fyrir Jafnréttisnefnd Reykjavíkurborgar á vegum Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum við Háskóla Íslands og kom út árið 2007. Verkefnið var styrkt af Rannsóknasjóði Háskóla Íslands og Rannís.
Þátttaka kvenna í ákvarðanatöku í fiskeldi
Skýrsla um ákvarðanatöku kvenna í fiskeldi á Íslandi eftir Önnu Karlsdóttur. Verkefnið tengist alþjóðlegu norðurslóðaverkefni um konur og ákvarðanatöku í sjávarútvegi. Á Íslandi var sjónum beint að konum og fiskeldi en gögn um mannauð greinarinnar lágu ekki fyrir, hvorki í kynjavídd né í faglegu uppgjöri, og varpa niðurstöður greiningarinnar nýju ljósi á þátttöku kvenna í atvinnugreininni.
íslenska friðargæslan
Jafnréttis- og kynjasjónarmið í stefnu og starfsemi 1994-2004
Rannsóknin var sameiginlegt verkefni Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum (RIKK) við Háskóla Íslands og UNIFEM á Íslandi, unnið fyrir tilstyrk utanríkisráðuneytisins af Birnu Þórarinsdóttur undir umsjón Irmu Erlingsdóttur og Vals Ingimundarsonar. Markmið rannsóknarinnar var að greina starfsemi og þátttöku Íslands í alþjóðlegri friðargæslu með hliðsjón af samþættingu jafnréttis- og kynjasjónarmiða.
Jafnréttismál
Viðhorfsrannsókn
Gallup vann rannsóknina fyrir RIKK á tímabilinu 19. september – 12. okóber 2003. Markmið hennar var að kanna stöðu jafnréttismála á Íslandi.
„Þetta er út um allt!“
Upplifun og viðhorf unglinga til kláms
Skýrsla Andreu J. Ólafsdóttur og Hjálmars G. Sigmarssonar sem þau unnu sumarið 2006 og var styrkt af nýsköpunarsjóðsverkefni. Með aukinni og almennri tölvu- og netvæðingu hefur klámefni orðið mun aðgengilegra og þá einnig fyrir börn og unglinga. Markmið rannsóknarinnar var að öðlast dýpri og margþættari skilning á því hvort og hvernig unglingar upplifa og túlka klám í sínu umhverfi; hvaða skoðanir þau hafa á því; og hvernig þau tjá sig um klám. Einnig var skoðað hvort og hvernig stelpur og strákar upplifi og tjái sig um klám með ólíkum hætti. Að auki var það markmið þessarar rannsóknar að efla umræðu og fræðslu um áhrif kláms á ungt fólk.
[Þessi listi er ekki tæmandi.]