Category: Hádegisfyrirlestrar

Mannréttindi, kyn og trú. Álitamál í orðræðu um stjórn-, félags-, menningarmál

(English below)

Dr. Ulrike Auga

Dr. Ulrike E. Auga, prófessor við Centre for Transdisciplinary Gender Studies við Humboldt-háskóla í Berlín og gestaprófessor við Paris Lodron-háskólann í Salzburg, Austurríki, er annar fyrirlesari í fyrirlestraröð RIKK – Rannsóknastofnunar í jafnréttisfræðum – og UNU-GEST – Jafnréttisskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna – á vormisseri 2018. Fyrirlestur hennar nefnist: „Mannréttindi, kyn og trú. Álitamál í orðræðu um stjórn-, félags-, menningarmál“ og að venju eru fyrirlesturinn fluttur í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands, fimmtudaginn 25. janúar kl. 12.00-13.00.

Ulrike E. Auga er fædd í Austur-Berlín og starfar sem kynja-, menningar- og trúarbragðafræðingur við Centre for Transdisciplinary Gender Studies við Humboldt-háskóla í Berlín. Vorið 2018 er hún gestaprófessor í kynjafræðum við Paris Lodron-háskólann í Salzburg í Austurríki. Áður hefur hún starfað sem Käthe-Leichter gestaprófessor í kynjafræðum við Háskólann í Vín. Rannsóknaáherslur Dr. Auga eru á kyn, menningarlegt minni, þjóðernisstefnur, bókstafstrú á breytingaskeiðum (Suður-Afríka, Vestur-Afríka, Austur/Vestur-Þýskaland); kyn, gjörningsháttur og atbeini í sjónrænum skjalasöfnum, eftirlendur, síðveraldarvæðingu, þróun kynja-/hinseginkenninga og þekkingarfræði pósthúmanisma. Ulrike er varaforseti alþjóðlegs sambands trúar- og kynjafræða (International Association for the Study of Religion and Gender). Read more »

Veröld ný og betri: Mótun Mannréttindayfirlýsingingarinnar

Sólveig Anna Bóasdóttir

(English below)

Sólveig Anna Bóasdóttir, prófessor í guðfræðilegri siðfræði við Háskóla Íslands, er fyrsti fyrirlesari í fyrirlestraröð RIKK – Rannsóknastofnunar í jafnréttisfræðum – og UNU-GEST – Jafnréttisskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna – á vormisseri 2018. Fyrirlestur hennar nefnist: „Veröld ný og betri: Mótun Mannréttindayfirlýsingingarinnar“ og að venju eru fyrirlesturinn fluttur í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands, fimmtudaginn 11. janúar kl. 12.00-13.00.

Sólveig Anna er prófessor í guðfræðilegri siðfræði við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands. Hún hefur rannsakað og birt efni á sviði kynjafræði, kynfræði og femínískrar siðfræði.

Þegar Sameinuðu þjóðirnar voru stofnaðar í San Francisco árið 1945 var mikill þrýstingur á sendifulltrúana þar að sáttmáli hinna Sameinuðu þjóða fæli í sér alþjóðaréttarskrá. Þremur árum síðar var Mannréttayfirlýsingin samþykkt í ályktun 217A, á þriðja fundi allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna, í París hinn 10. desember 1948. Read more »

„Rennur blóð eftir slóð …“. Um sjálfsmeiðingar ungs fólks, meðal annars í bókmenntum

Dagný Kristjánsdóttir

Dagný Kristjánsdóttir, prófessor í íslenskum samtímabókmenntum, flytur erindið „Rennur blóð eftir slóð …“. Um sjálfsmeiðingar ungs fólks, meðal annars í bókmenntum, fimmtudaginn 7. desember, kl. 12-13 í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands.
Dagný er prófessor í íslenskum samtímabókmenntum í íslensku og menningardeild. Hún hefur skrifað mikið um kvennabókmenntir, ungmennabókmenntir og læknahugvísindi.
Í neyslusamfélagi okkar tíma eru gerðar yfirgengilegar útlitskröfur til ungmenna. Þau fá mótsagnakennd skilaboð um að þau geti og megi allt, séu sigurvegarar og frábær og eigi að „standa með sjálfum sér“. Það er oftast vel meint og ætlað til að styrkja sjálfsálit unga fólksins en er ekki alltaf skynjun þeirra á veruleika sínum og innri spenna hleðst upp. Hún getur meðal annars brotist út í sjálfsmeiðingum. Sjálfsmeiðingar eru alvarlegar og flóknar geðraskanir. Oftast grípur fólk til þess að blóðga sig, byrjar smátt en þetta er hættulegur leikur sem getur farið illa. Sjálfsmeiðingar hafa farið gríðarlega í vöxt meðal ungmenna á Vesturlöndum síðasta áratug og það vekur ugg margra. Um hinar ýmsu birtingarmyndir þeirra, meðal annars í bókmenntum og listum, verður fjallað í fyrirlestrinum.
Erindið er flutt á íslensku og aðgangur er öllum opinn og ókeypis.
Finndu viðburðinn á Facebook!

Saltstólpar eða …? – Viðhorf kvenna á sjöunda áratug 20. aldar

Gerður Róbertsdóttir

Gerður Róbertsdóttir, sagnfræðingur og verkefnastjóri á Borgarsögusafni Reykjavíkur, flytur erindið Saltstólpar eða …? – Viðhorf kvenna á sjöunda áratug 20. aldar, fimmtudaginn 30. nóvember, kl. 12-13 í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands.
Erindið byggir hún á nýlegri MA ritgerð sinni þar sem skoðuð voru viðhorf kvenna til jafnréttismála á árunum 1960 til 1969. Einkum var stuðst við blaðagreinar skrifaðar af konum á þessum árum. Fyrir 1970 var kynjakerfið hér á landi staðnað. Ríkjandi hugmyndir gengu út frá því að karlar væru fyrirvinnur en konur húsmæður. Markmið ritgerðarinnar var einkum að varpa ljósi á hugmyndir kvenna um hlutverk kvenna og kvenleikann. Með því að rýna í og greina blaðaskrif kvenna á þessum árum var skoðað hvort hrikt hafi í stöðnuðu kynjakerfi, hvort nýjar hugmyndir um hlutverk kvenna hefðu verið farnar að skjóta rótum á þessum tíma, á árunum áður en rauðsokkurnar komu fram, og hvort nýr kvenleiki hafi þá þegar verið í burðarliðnum. Voru konur á þessum árum eins og saltstólpar, voru þær enn að gangast undir íhaldssöm viðhorf og samsama sig hefðbundnum hlutverkum eða voru þær farnar að andæfa og gagnrýna staðnað kynjakerfi? Read more »

Vegferð til betra lífs?

Hólmfríður Garðarsdóttir

Hólmfríður Garðarsdóttir, prófessor í spænsku, flytur erindið „Vegferð til betra lífs? — Kyn skiptir (öllu) máli á tímum fólksflutninga“, fimmtudaginn 23. nóvember, kl. 12-13 í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands.

Hólmfríður er prófessor í spænsku við Háskóla Íslands en hún lauk doktorsnámi í bókmenntafræði og spænsku, með áherslu á bókmenntir Rómönsku Ameríku, frá Texasháskóla í Austin árið 2001. Hún hefur starfað sem aðjunkt, lektor, dósent og prófessor við Háskóla Íslands frá 1998. Hólmfríður starfar við Deild erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda á Hugvísindasviði skólans.

Ástæður, aðstæður og afleiðingar straums flóttamanna til Evrópu hafa verið mjög til umræðu síðustu misseri. En fólk er á faraldsfæti víða um heim og af ýmsum og ólíkum sökum. Þar má nefna flóttamenn frá Afríku og Mið-Austurlöndum á flótta undan stríði, þurrkum og öðrum breytingum af völdum loftslagsbreytinga, farandverkamenn frá fátækari löndum Evrópu til hinna efnameiri, Rómafólk sem ferðast um í leit að lífsviðurværi að ógleymdum fórnarlömbum mansals sem glæpahringir stunda og er mikið vandamál m.a. í Evrópu. Read more »

„og legge mig frem til noget sem i fremtiden kunne blive nyttig for Island“

Guðný Hallgrímsdóttir

Guðný Hallgrímsdóttir

Guðný Hallgrímsdóttir, doktorsnemi í sagnfræði, flytur erindið „og legge mig frem til noget sem i fremtiden kunne blive nyttig for Island“, fimmtudaginn 2. nóvember, kl. 12-13 í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands.

Guðný er sjálfstætt starfandi sagnfræðingur og doktorsnemi í sagnfræði við Háskóla Íslands. Leiðbeinandi hennar í náminu er Már Jónsson, prófessor í sagnfræði.

Erindið byggist að hluta til á doktorsverkefni Guðnýjar um iðnmenntun íslenskra kvenna í Danmörku á 18. öld. Meginefni þeirrar rannsóknar er umfjöllun um fimm konur sem allar voru á sama tíma í Danmörku við nám í vefnaði og spuna. Í skjalasafni rentukammers hafa varðveist sendibréf frá þeim öllum sem veita ágæta innsýn í líf þeirra, bæði meðan á námstímanum stóð ytra, en líka eftir að þær komu heim til Íslands. Ætlunin er meðal annars að kanna hvort þessum konum hafi tekist að skapa eigin örlög innan þess þrönga ramma sem athöfnum þeirra voru settar á 18. öld? Read more »