Þorbjörg Daphne Hall og Nína Hjálmarsdóttir flytja fimmta erindið í hádegisfyrirlestraröð RIKK – Rannsóknastofnunar í jafnréttisfræðum á haustmisseri 2023 en röðin er tileinkuð afnýlenduvæðingu líkt og á vormisseri. Fyrirlestur þeirra nefnist „Ímyndir Íslands og birtingarmyndir þeirra í íslenskum samtímalistum“ og verður haldinn kl. 12.00 fimmtudaginn 9. nóvember í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands.

Í erindinu verður fjallað um þær ímyndir sem listafólk sem kemur frá Íslandi þarf að takast á við og hvaða leiðir þau nota til þess að staðfesta eða grafa undan ímyndunum. Í verkum íslensks listafólks má sjá framandgervingu á borð við barnslegar sviðsetningar, órofa tengsl við náttúru og hið yfirnáttúrulega. Rannsóknir á nýlenduvæðingu í íslensku samhengi eru að stíga sín fyrstu skref og lítið hefur verið fjallað um listir. List speglar ekki aðeins raunveruleikann heldur er virkt afl í mótun hans, og því geta birtingarmyndir á einsleitri ímynd Íslands í listum verið útilokandi fyrir stóran hóp Íslendinga og ýtt undir hamlandi staðalímyndir. Því er jafn aðkallandi að greina áhrif nýlenduvæðingar innan þess sviðs sem og innan annarra sviða. Byggt verður á kenningum um borealisma, framandgervingu og hvítleika norðursins, og mótun þjóðernislegra sjálfsmynda. Greind verða dæmi um listamenn sem annars vegar staðfesta ímyndina um „hið íslenska“ og hins vegar streitast á móti og afnýlenduvæða þá ímynd. Meðal listafólks sem fjallað verður um eru Björk, Sigur Rós, Erna Ómarsdóttir og Melanie Ubaldo.

Þorbjörg Daphne Hall er dósent í tónlistarfræðum við tónlistardeild Listaháskóla Íslands. Hún lauk doktorsnámi við Háskólann í Liverpool 2019 þar sem hún fjallaði um fjallaði um togstreitu milli hinna ólíku frásagna um „hið íslenska“ í dægurtónlist á Íslandi nútímans. Hún vinnur nú að bók um íslensku tónlistarsenuna og rannsóknarverkefnum samfélagsáhrif tónlistar í skapandi vinnusmiðjum og viðtökusögu jazz á Íslandi.

Nína Hjálmarsdóttir er sviðshöfundur, framleiðandi og gagnrýnandi. Hún er lektor í sviðslistafræðum og fagstjóri fræða við sviðslistadeild Listaháskóla Íslands. Hún er stofnandi sviðslistahópsins Sálufélagar og viðburðakollektívunnar Sleikur. Hún er með B.A. gráðu í sviðslistum frá Listaháskóla Íslands og M.A. gráðu í Performance Studies frá New York University – Tisch School of the Arts. Rannsóknir hennar í listsköpun og fræðum eru á vettvangi afnýlenduvæðingar og hinsegin fræða, hvítleika og ímynd Norðursins,- og hvernig narratívur þeirra birtast í performans og listsköpun.

Frekari upplýsingar um fyrirlestraröðina má finna á heimasíðu RIKK – rikk.hi.is – og Facebook-síðu stofnunarinnar auk þess sem hægt er að skrá sig á tölvupóstlista RIKK hér. Upptaka af fyrirlestrinum verður gerð aðgengileg á heimasíðu RIKK og Youtube. Fyrirlestraröðin er haldin í samstarfi við Þjóðminjasafn Íslands.