Freyja Haraldsdóttir er þriðji fyrirlestari hádegisfyrirlestraraðar RIKK – Rannsóknastofnunar í jafnréttisfræðum á vormisseri 2024 en röðin er tileinkuð samtvinnun. Titill fyrirlestrarins er „„Ég sagði nei, ég ætla að eiga þetta barn!“ Óstýrilæti fatlaðra kvenna við ákvarðanir um barneignir“. Fyrirlesturinn verður haldinn kl. 12.00 fimmtudaginn 29. febrúar í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands.

Í erindinu verður varpað ljósi á reynslu fatlaðra kvenna af ákvörðunartöku um barneignir út frá hrifkenningum Söru Ahmed um hamingjuhandrit (e. happiness script) og óstýrilæti (e. willfulness). Um er að ræða fyrstu niðurstöður doktorsrannsóknar um fötlun og móðurhlutverkið á tímum nýfrjálshyggju. Fjallað verður um hvernig viðmót fatlaðar konur upplifa frá heilbrigðisstarfsfólki og öðrum í nærumhverfi við ákvarðanir um barneignir og hvaða áhrif þau viðbrögð hafa á velferð móður og aðgengi að stuðningi og þjónustu frá heilbrigðis- og félagsþjónustu. Einnig hvernig fatlaðar konur sýna andóf og taka stjórn við ákvörðunartöku um barneignir og frjósemisheilbrigði. Niðurstöður gefa til kynna að fatlaðar konur fara á mis við hefðbundið hamingjuhandrit og ákvarðanir um barneignir virðast séðar sem ábyrgðar- og dómgreindarleysi og áhættusemi af hálfu kvennana. Einnig að þær séu að valda sjálfri sér, börnum sínum, fjölskyldu og samfélaginu skaða og óhamingju. Fatlaðar konur fara þó fjölbreyttar leiðir til þess að standa með eigin ákvörðunum, ögra og endurskapa hamingjuhandritið.

Freyja Haraldsdóttir er doktorsnemi við menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hún lauk BA-prófi í þroskaþjálfafræði 2010 og meistaraprófi í kynjafræði 2018. Hún hefur sérhæft sig í rannsóknum á stöðu fatlaðra kvenna, sálrænum afleiðingum af misrétti og móðurhlutverkinu. Freyja er einnig virk í femínísku baráttustarfi fatlaðs fólks og annarra hópa og hefur sjálf verið sjálf fósturmóðir frá 2021.

Frekari upplýsingar um fyrirlestraröðina má finna á heimasíðu RIKK – rikk.hi.is – og Facebook-síðu stofnunarinnar auk þess sem hægt er að skrá sig á tölvupóstlista RIKK hér. Upptaka af fyrirlestrinum verður gerð aðgengileg á heimasíðu RIKK og Youtube. Fyrirlestraröðin er haldin í samstarfi við Þjóðminjasafn Íslands.