Guðrún Björk Guðsteinsdóttir flytur sjöunda og síðasta erindið í hádegisfyrirlestraröð RIKK – Rannsóknastofnunar í jafnréttisfræðum á haustmisseri 2023 en röðin er tileinkuð afnýlenduvæðingu líkt og á vormisseri. Fyrirlesturinn nefnist „Afnýlenduvæðing lesandans í The Prowler eftir Kristjönu Gunnars“ og verður haldinn kl. 12.00 fimmtudaginn 30. nóvember í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands.
Örsagnasveigurinn The Prowler (1989) er skáldævisöguleg frásögn Kristjönu Gunnars sem rambar á mörkum ólíkra textagerða og fjallar um afnýlenduvæðingu Íslands: eftirköst nýlenduástands og leiðir til að brjótast út úr tvenndarhyggju sem einfaldar skilin á milli valdhafa og undirsáta, níðings og fórnarlambs, þróaðra og vanþróaðra samfélaga, karla og kvenna. Kristjana fæddist danskri móður og íslenskum föður laust eftir að Íslendingar fengu sjálfstæði frá Dönum, og meðal minninga hennar úr uppvextinum var að vera uppnefnd á báða bóga: „Í landi föður míns var ég þekkt sem hundadagastelpa, konungssinni og Dani. Önnur börn kölluðu á eftir mér: konungsdrusla! Bauni! Í landi móður minnar hjóluðu önnur börn háðslega í kringum mig. Þau pískruðu um það sín á milli á götuhornum að ég væri hvítur Inúíti, hákarlaæta. Íslendingurinn“. Í erindinu er rýnt í hvernig Kristjana leitast við að endurskoða nýlenduorðræðuna frá kynjafræðilegum sjónarhóli og valdefla lesendur með því að afbyggja og flækja frásögn sína margvíslega.
Guðrún Björk Guðsteinsdóttir er prófessor í enskum bókmenntum við Mála- og menningardeild Háskóla Íslands. Hún var aðalritstjóri fræðiritraðarinnar NACS Text Series um árabil og ritstýrði nokkrum bókum um kanadísk fræði. Hún hefur birt greinar og erindi um bókmenntaarfleifð Vestur-Íslendinga og afkomenda þeirra á íslensku og ensku. Á árinu 2022 kom út greinin „Enskuglettur Káins“ í tímaritinu Milli mála, bókarkaflinn „Tvítyngd glettni Káins“ í bókinni Tungumál í víðu samhengi, og bókin Að vestan, með þýðingum á smásögum eftir W. D. Valgardson, David Arnason og Kristjönu Gunnars, ásamt fræðilegum inngangi um kanadíska smásagnahefð. Kaflinn „Icelandic Immigrants, Modernity, and Winnipeg in Einar Hjörleifsson Kvaran’s „Hopes““ birtist í bókinni Icelandic Heritage in North America sem er væntanleg hjá University of Manitoba Press á árinu 2023.

Frekari upplýsingar um fyrirlestraröðina má finna á heimasíðu RIKK – rikk.hi.is – og Facebook-síðu stofnunarinnar auk þess sem hægt er að skrá sig á tölvupóstlista RIKK hér. Upptaka af fyrirlestrinum verður gerð aðgengileg á heimasíðu RIKK og Youtube. Fyrirlestraröðin er haldin í samstarfi við Þjóðminjasafn Íslands.