Sigríður Guðmarsdóttir er þriðji fyrirlesari hádegisfyrirlestraraðar RIKK – Rannsóknastofnunar í jafnréttisfræðum á haustmisseri 2023 en röðin er tileinkuð afnýlenduvæðingu líkt og á vormisseri. Fyrirlestur Sigríðar nefnist „Afnýlendusiðir, árþjóðir og guðfræði á norðurslóðum Norðurlanda“ og verður haldinn kl. 12.00 fimmtudaginn 12. október í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands.

Yfirlýsing Sameinuðu þjóðanna um réttindi frumbyggja (UNDRIP 31:1) hefur í för með sér siðferðilegar áskoranir í rannsóknum. Spurt er hvort rannsóknirnar gagnist þeim hópum sem rannsaka á, eða hvort háskólasamfélagið sé einungis að gera eignarnám í reynslu þeirra að gömlum heimsvaldasið. K. E. Absolon (Minogiizhigokwe) heldur því fram að til þess að hún geti sinnt rannsóknum sem komi samfélagi hennar til góða verði hún að draga dám af staðnum þaðan sem unnið er. Mikilvægt sé að nýta sér kenningar um afnýlenduvæðingu og árþjóðavæðingu, þ.e. að unnið sé út frá því að hættir og gildi árþjóða séu ekki furður og fyrirbrigði, heldur hluti af mikilsverðri þekkingarfræði. Guðfræðilegar hugmyndir eru hluti þeirra menningarhugmynda og orðræða sem hafa haft áhrif á að gera menningu árþjóða ósýnilega, skrumskælda og djöfullega. Þess vegna er það mikilvægt að hugleiða eigin stöðu til að ögra nýlenduslagsíðu innan guðfræðinnar. Í erindinu er fjallað um kenningar norsk-samíska guðfræðingsins Tore Johnsen, sem leggur til endurskoðun kristinnar heimsmyndar út frá því hvernig árþjóðum hefur verið undirskipað í kristnum mannskilningi. Í erindinu er því haldið fram að til þess að geta fjallað um staði á norðurslóðum sem hafa verið nýlenduvæddir, þá þurfi fyrst að fletta ofan af orðræðu landnámsnýlenduhyggjunnar (e. settler colonialism) sem er inngróin í norræna menningu.

Sigríður Guðmarsdóttir er dósent í hagnýtri guðfræði við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands. Hún gegnir einnig stöðu gestaprófessors við VID Specialized University í Stafangri. Sigríður gaf út bókina Tillich and the Abyss. Foundations, Feminism and Theology of Praxis hjá Palgrave Macmillan árið 2016 og hefur ritað fjölmargar greinar á sviði guðfræði í ritrýndum tímaritum og bókum.

 Frekari upplýsingar um fyrirlestraröðina má finna á heimasíðu RIKK – rikk.hi.is – og Facebook-síðu stofnunarinnar auk þess sem hægt er að skrá sig á tölvupóstlista RIKK hér. Upptaka af fyrirlestrinum verður gerð aðgengileg á heimasíðu RIKK og Youtube. Fyrirlestraröðin er haldin í samstarfi við Þjóðminjasafn Íslands.