Femínískar kenningar um samtvinnun (e. intersectionality) nýtast til að skoða hvernig ólíkir þættir skarast í tengslum við valdamismunun. Samtvinnun hefur til dæmis verið skoðuð út frá kyni, kynhneigð, þjóðerni, kynþætti, uppruna, fötlun, stétt, aldri, trúarbrögðum og búsetu. Samtvinnun býður upp á skoðun á því hvernig ólíkir þættir skarast, samtvinnast og mótast hver af öðrum. Myndmál íslensku þýðingarinnar samtvinnun vísar í þráðinn sem heild og ólíka þætti hans sem ekki verða sundurgreindir. Lögfræðingurinn Kimberlé Crenshaw, upphafskona hugtaksins, lagði í rannsóknum sínum áherslu á að svört kona getur orðið fyrir mismunun sem hvorki er hægt að skýra einungis út frá kyni hennar né kynþætti því þrátt fyrir að bæði rasismi og kynjamismunun komi þar fram einkennast birtingarmyndir mismununarinnar af samtvinnun þessara þátta.

Hádegisfyrirlestraröð RIKK á vormisseri 2024 er tileinkuð samtvinnun. Tamara Shefer hóf röðina þann 25. janúar með fyrirlestri um vatnsfemínisma. „Það besta fyrir börnin“ nefnist erindi Sunnu Símonardóttur sem hún vann í samstarfi við Ingólf Ásgeir Jóhannesson sem fer fram 15. febrúar en þar verður rýnt í fjölmiðlaumfjöllun um leikskólamál. Freyja Haraldsdóttir beinir sjónum að samtvinnun út frá reynslu fatlaðra mæðra og áhrifum nýfrjálshyggju í erindi sínu þann 29. febrúar. Þann 14. mars mun Sólveig Ólafsdóttir greina sjálfsmynd Bíbíar í Berlín út frá sjálfsævisögu hennar með hliðsjón af kenningum samtvinnunar og kerfisgreiningu yfirráða. Agnes Jónasdóttir er einnig í sögulegu samhengi í fyrirlestri sínum þann 4. apríl þar sem hún rýnir í hvernig kyn, aldur, stétt og fleira skaraðist í ástandinu. Lokafyrirlestur raðarinnar flytur svo Cynthia Trililani þann 18. apríl þar sem hún fjallar um reynslu innflytjendamæðra af háskólanámi í erindi sem nefnist: „Empowerment and Agency at the Margins: An Intersectional Exploration of Immigrant Women’s Educational Trajectories in Iceland“.

Frekari upplýsingar um fyrirlestraröðina má finna á heimasíðu RIKK – rikk.hi.is – og Facebook-síðu stofnunarinnar auk þess sem hægt er að skrá sig á tölvupóstlista RIKK hér. Upptökur af fyrirlestrunum verða gerðar aðgengilegar á heimasíðu RIKK og Youtube. Fyrirlestrarnir í röðinni eru ýmist á íslensku eða ensku. Fyrirlestraröðin er haldin í samstarfi við Þjóðminjasafn Íslands.