Hinsegin Ísland í alþjóðlegu samhengi er yfirskrift hádegisfyrirlestraraðar RIKK – Rannsóknastofnunar í jafnréttisfræðum við Háskóla Íslands árið 2022. Hinsegin fræði leitast við að varpa gagnrýnu ljósi á fjölbreytt valdatengsl og afbyggja — afhjúpa og skjöna — hið gagnkynhneigða forræði. Athyglinni er beint að þeim áhrifum sem hefðbundnar hugmyndir um kyn eða kynverund hafa á fólk, samfélag og menningu. Í fyrirlestraröðinni eru kynntar fjölbreyttar og þverfaglegar rannsóknir á hinsegin Íslandi fyrr og nú og gagnvirku sambandi þess við önnur samfélög og menningarsvæði.

Dagskrá haustmisseris 2022 hefst þann 8. september þegar Kristín Svava Tómasdóttir fjallar um lífsförunautana Guðlaugu Guðmundsdóttur og Þórunni Ástríði Björnsdóttur og heimilislíf þeirra en þær héldu heimili saman frá því um aldamótin 1900 til dauðadags um miðjan fjórða áratuginn. „Mamma, mamma, börn og bíll“ er titill fyrirlestursins sem Auður Magndís Auðardóttir og Íris Ellenberger flytja þann 15. september um birtingarmyndir hinsegin fjölskyldna í fjölmiðlum frá 2010 til 2021, samlögun hinsegin fjölskyldna inn í hið ríkjandi norm og mögulega andstöðu þeirra við þá samlögun. Þann 19. október flytur Eiríkur Rögnvaldsson fyrirlesturinn „Maður, manneskja, man eða menni?“ og fjallar um merkingu orðsins maður í sögulegu samhengi og vandkvæði á að nota það í kynhlutlausri merkingu. Fjórði fyrirlestur misserisins fer fram 27. október en þá kannar Linda Sólveigar- og Guðmundsdóttir þrjá aðskilda en samtengda hópa hinsegin fólksflutninga til Íslands, það er, frá hnattrænu suðri, hinu hnattræna norðri og Mið- og Austur-Evrópu með áherslu á hvernig þverþjóðleg hinsegin þjóðernishyggja og stigveldi framandgervingar birtist í íslensku samhengi. Sigrún Ólafsdóttir, Silja Bára Ómarsdóttir og Sunna Símonardóttir skoða svo breytta afstöðu til samkynhneigðar þar sem litið er til viðhorfa Íslendinga yfir tíma og í alþjóðlegum samanburði í fyrirlestri þann 3. nóvember. Þann 17. nóvember fjallar Rósa María Hjörvar um Gróður jarðar eftir Knut Hamsum, Sjálfstætt fólk eftir Halldór Laxnes og Höfundur Íslands eftir Hallgrím Helgason með tilliti til textatengsla á milli þessara þriggja skáldsagna og birtingarmynda eitraðrar karlmennsku. Lokafyrirlestur misserisins fer fram 1. desember þegar Sveinn Guðmundsson fjallar um íslenska hinsegin aðdáendur Star Trek í erindi sem nefnist „Star Trek og óendanlegur fjölbreytileiki í óendanlegum samsetningum“.

Fyrirlestraröðin fer fram í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands. Frekari upplýsingar má finna á heimasíðu og Facebook-síðu stofnunarinnar auk þess sem hægt er að skrá sig á tölvupóstlista RIKK til að fá sendar reglulegar upplýsingar um starfsemi stofnunarinnar. Fyrirlestraröð RIKK á haustmisseri 2022 er framhald af þeirri sem haldin var á vormisseri undir sömu yfirskrift en þá voru haldnir 6 fyrirlestrar. Upptökur af fyrirlestrum RIKK eru aðgengilegar á heimasíðu stofnunarinnar rikk.hi.is.