Jón Ingvar Kjaran

Jón Ingvar Kjaran

Jón Ingvar Kjaran, lektor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, heldur þriðja fyrirlestur haustmisseris í fyrirlestraröð RIKK fimmtudaginn 13. október, í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands, kl. 12-13. Fyrirlestur Jón Ingvars nefnist „Ég er ofbeldismaður.“ Hvaða mynd draga gerendur ofbeldis upp af sjálfum sér?

Fyrirlestraröðin fæst að þessu sinni við kynbundið ofbeldi og áhrif kynjakerfisins á heilsufar en RIKK er með nokkur verkefni í gangi þar sem sjónum er beint að kynbundnu ofbeldi. Jón Ingvar er í rannsóknarhópi sem stendur að rannsókn á gerendum í heimilisofbeldismálum og er fyrirlesturinn afrakstur þemagreiningar á viðtölum rannsóknarinnar.

Jón Ingvar lauk doktorsprófi árið 2014 og er lektor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hann vinnur að rannsóknum í hinsegin- og kynjafræðum, félagsfræði menntunar, menntunarfræðum og skóla án aðgreiningar..

Ofbeldi á heimilum tekur á sig ýmsar myndir, s. s. líkamlegt, andlegt, fjárhagslegt og kynferðislegt ofbeldi og er í nær flestum tilvikum kynbundið. Talið er að á heimsvísu verði þriðja hver kona fyrir ofbeldi af hálfu maka eða þess sem hún býr með einhvern tímann á ævinni. Miðað við þetta er heimilið hættulegasti staður kvenna. Ísland er hér engin undantekning. Í þessum fyrirlestri verður sjónarhorninu beitt að þeim sem beita ofbeldi, oftast karlmenn. Nálgunin er feminísk og verður áhersla lögð á að skoða hvernig karlmen töluðu um ofbeldið og hvernig þeir útskýrðu það.

Fyrirlesturinn er fluttur á íslensku, er öllum opinn og aðgangur er ókeypis.

Viðburðurinn er á Facebook!

Hádegisfyrirlestraröð RIKK á haustmisseri 2016 er haldin í samvinnu við Þjóðminjasafn Íslands. Fyrirlestur Jóns Ingvars er framlag RIKK til Jafnréttisdaga Háskóla Íslands.

 

Hægt er að horfa á upptöku fyrirlestursins hér: