Heimilisofbeldi á Íslandi

Heimilisofbeldi á Íslandi. Gerendur — reynsluheimur, stuðningur og þjónusta

Um rannsóknina

Rannsóknarhópurinn hefur unnið að úttekt á samstarfsverkefni LHR og Reykjavíkurborgar sem nefnist „Saman gegn ofbeldi“ og stendur yfir frá janúar 2015 til janúar 2016 en þess má geta að sambærileg samstarfsverkefni erlendis frá hafa skilað verulegum árangri í baráttunni gegn heimilisofbeldi. Ein af niðurstöðum úttektarinnar var sú að mál gerenda koma ekki í miklum mæli til umfjöllunar hjá félagsþjónustu. Hins vegar hefur Barnavernd nýtt það úrræði, þar sem börn eru á heimilum þar sem heimilisofbeldismál koma upp, að vísa gerendum í meðferð til Karla til ábyrgðar, sem er meðferðarúrræði fyrir gerendur. Þrátt fyrir mikla fjölgun einstaklinga sem leita til Karla til ábyrgðar er ljóst að meginþorri gerenda leitar sér ekki hjálpar og nýtir ekki þau meðferðarúrræði sem í boði eru á Íslandi.

Markmið rannsóknarinnar er að beina sjónum að gerendum en þeir eru hópur sem lítið hefur verið í kastljósinu þegar kemur að heimilisofbeldi. Heimilisofbeldi verður skoðað frá ólíkum sjónarhornum, en gerendur eru ætíð í brennidepli rannsóknarinnar. Eftirfarandi eru megin rannsóknarspurningar verkefnisins:

1)      Hvernig er reynsluheimur gerenda og upplifun þeirra af málsmeðferð og þeim stuðningi sem þeim býðst?

2)      Hver er munurinn á reynsluheimi gerenda og þolenda og er upplifun þeirra af málsmeðferð og stuðningi ólík?

3)      Hvernig er regluverki og þjónustu við gerendur háttað á Íslandi:

  1. Hvar er skimað fyrir gerendum heimilisofbeldis?
  2. Hvernig er inngripum háttað?
  3. Eru meðferðarúrræði samþætt og árangursrík?
  4. Hvaða leiðir eru færar til að ná á markvissan og skilvirkan hátt til gerenda?

4)      Er hægt að draga lærdóm af þeirri nálgun sem beitt er í nágrannalöndum okkar hvað varðar skimun, inngrip, úrræði og regluverk sem til staðar er þegar heimilisofbeldi er skoðað með sérstaka áherslu á gerendur?

Rannsókning byggir á djúpviðtölum við gerendur þar sem leitast verður við að kanna sögu, reynsluheim og upplifun þeirra einstaklinga sem hægt er að skilgreina sem gerendur í heimilisofbeldi. Ekki hefur verið gerð rannsókn sem byggir á djúpviðtölum við gerendur á Íslandi fram að þessu og því er framlag þess hluta rannsóknarinnar mikið til fræðasviðsins. Jafnframt er hún mikilvægt innlegg til að auka skilning á því hvernig leitast skuli við að aðstoða þennan hóp í því flókna ferli sem ráðstafanir gegn heimilisofbeldi er. Með því að setja gerendur í brennidepil er ætlunin að ráðast að rótum þess alvarlega vanda sem heimilisofbeldi er. Einnig er áhersla á gerendur mikilvæg til að leitast við að stemma stigu við frekara ofbeldi með því að skilja orsakir þess og félagslegt samhengi.

Rannsóknarhópurinn hefur þegar safnað gögnum varðandi þolendur verður framkvæmd samanburðargreining á reynsluheimi gerenda og þolenda og skoðað á hvaða hátt upplifun þeirra af málsmeðferð og stuðningi er ólík.

Þá verður kastljósinu beint á regluverk og þá þjónustu sem til staðar er fyrir gerendur á Íslandi. Inngrip og skimanir í ólíkum hlutum kerfisins verða skoðuð, hvaða meðferðarúrræði eru til staðar og hvaða leiðir væru færar til að ná til þessa hóps. Jafnframt verður leitast við að skoða þær leiðir sem farnar hafa verið erlendis frá, sem nýst geta í íslensku samhengi.

Með því að nýta þessa nálgun vonast rannsóknarhópurinn til að hægt verði að nýta rannsóknaraðferðir og –áherslur ólíkra fræðasviða til að bæta við hagnýta og fræðilega þekkingu á málefnum heimilisofbeldis á Íslandi.

Aðferðafræði

Beitt verður blandaðri aðferðafræði félagsvísindanna þar sem megindlegum aðferðum er beitt jafnhliða eigindlegum aðferðum í svokölluðu samsíða rannsóknarsniði (e. convergent parallel design) skv. flokkun Cresswell (2011). Meginkostur blandaðra rannsóknaraðferða er að mögulegt er að nýta kosti beggja þeirra sjónarhorna sem kenndar eru við hugsmíðahyggju og vísindahyggju og greitt er fyrir aðferðafræðilegum þríprófunum. Helstu aðferðir við gagnasöfnun eru eftirfarandi:

  • Djúpviðtöl meðal gerenda
  • Hálfstöðluð viðtöl við sérfræðinga (starfsfólk félagsþjónustu, lögreglunnar, fangelsismálayfirvalda, Barnaverndar, heilbrigðisþjónustu, meðferðaraðila og áhættuhópa)
  • Verkferlagreiningar
  • Söfnun og greining tölfræðilegra gagna sem varða gerendur
  • Söfnun og greining gagna erlendis frá, m.a. hvað varðar stofnanafyrirkomulag, meðferðarúrræði og skimanir
  • Skoðun fyrirliggjandi ganga og rannsókna á viðkomandi fræðasviðum, hérlendis sem erlendis

Rannsóknin byggir á ólíkum fræðilegum nálgunum, m.a. femínískum, samfélagslegri sálfræði og stjórnsýslufræði. Femínismi er víðtæk félagsleg hreyfing sem að miðar að því að auka jafnræði milli kvenna, karla og jaðarhópa yfirleitt. Femínísk nálgun getur t.d. einblínt á reynsluheim kvenna eða skoðað félagslegar aðstæður sem hafa ólík áhrif á hópa innan samfélagsins (Riger, óútg.). Samfélagsleg sálfræði á uppruna sinn í Bandaríkjunum á sjöunda áratug síðustu aldar og spratt upp sem mótsvar við hefðbundinni sálfræði og leggur áherslu á samfélagslegt samhengi til að útskýra hegðun og stuðla að félagslegu réttlæti og fjölbreytileika (Riger, óútg.).

Bæði samfélagsleg sálfræði og femínismi gagnrýna nálganir þar einblínt er á einstaklinga og hegðun þeirra (Healey, 1999). Rík áhersla er lögð á samhengi ofbeldis og félagslegra breyta og skoðað hvernig hægt er að beita margvíslegri inngripum. Skoðun á björgum málsaðila, hvernig þolendur og gerendur leita sér hjálpar og upplifun þeirra af ofbeldismynstri hjálpar okkur að skilja líf þeirra og ávarðanatöku. Að auki er stuðst við normatífar bjargakenningar (e. normative resource theory) sem byggja á þeirri hugsun að einstaklingar sem að hafa ríkari aðgang að björgum séu í minni áhættu á að lenda í vítahring ofbeldis (Crosbie-Burnett & Giles-Sims, 1991; Riger & Krieglstein, 2000). Framtíðaröryggi mótast þar með af þeim björgum sem þolendur og gerendur hafa aðgang að, sem gefur greiningum á umhverfi mikið vægi (Goodman, Dutton, Vankos & Weinfurt, 2005).

Aðstæðubundnar kenningar (e. contingency theory) eru notaðar til grundvallar þegar samhæfing, stofnanir og vinnuferlar eru skoðaðir. Kenningarnar ganga út frá því að stofnanir og skipulagsheildir mótist af umhverfi sínu og verði jafnframt að aðlaga skipulag og vinnuferla sína að því. Ef litið er á stofnanir í samhengi heimilisofbeldis, falla aðstæðubundnar kenningar undir víðtækari kenningarlega nálgun sem kennd er við vistfræðilegar kenningar (e. ecological theory) en kenningarskólinn setur ofbeldi innan heimila í samhengi við hið stærra félagslega umhverfi okkar. Við greiningar á stærra samhengi heimilisofbeldis er nauðsynlegt að taka tillit til menningar sem og formlegs og óformlegs félagskerfis heimilisins.

Rannsóknarhópurinn

Kristín Pálsdóttir er verkefnisstjóri Rannsóknarstofnunar í jafnréttisfræðum – RIKK – við Háskóla Íslands. Kristín er með BA próf í spænsku og ferðamálafræði, MA-próf í ritstjórn og útgáfufræði og vinnur að lokaritgerð til MA-prófs í almennri bókmenntafræði.

Rannveig Sigurvinsdóttir er doktorsnemi í sálfræði við University of Illinois at Chicago. Rannsóknir hennar beinast að heimilisofbeldi, kynferðisofbeldi og inngripum gegn þeim. Rannveig er með BA gráðu í sálfræði frá Háskóla Íslands og MA gráðu í félagslegri sálfræði frá Illinois háskóla.

Erla Hlín Hjálmarsdóttir er doktorsnemi og verkefnisstjóri við Jafnréttisskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna. Hún er með BA gráðu í stjórnmála- og fjölmiðlafræði frá Háskóla Íslands, MPA gráðu í stjórnsýslufræðum frá Dalhousie háskóla og diplómagráðu í alþjóðasamskiptum frá Háskóla Íslands.

Jón Ingvar Kjaran er nýdoktor og aðjúnkt við menntavísindasvið Háskóla Íslands og kennari við Verslunarskóla Íslands. Jón Ingvar er með doktorsgráðu í Menntavísindum frá Háskóla Ísland.

Einar Gylfi Jónsson og Andrés Ragnarsson starfa sem sálfræðingar hjá Karlar til ábyrgðar og hafa aflað sér hvað mestrar sérþekkingar á gerendum hér á landi. Karlar til ábyrgðar (KTÁ) er eina sérhæfða meðferðaúrræðið fyrir karla sem beita ofbeldi á heimilum á Íslandi. Um er að ræða einstaklings-meðferð og hópmeðferð.

Að auki verður rannsakandi ráðinn til verkefnisins. RIKK hefur auglýst tímabundna stöðu rannsakanda sem hefur reynslu af fræðasviðinu.

Framkvæmd rannsóknar

Rannsóknarhópurinn hlaut styrk frá Jafnréttissjóði til að framkvæma rannsóknina, sem stendur til loka árs 2016. Kristín Pálsdóttir er verkefnisstjóri rannsóknarinnar.