„Vonir ömmu, veruleiki pabba. Munur kyns og kynslóða“

Guðni Th. Jóhannesson

Guðni Th. Jóhannesson

Föstudaginn 27. febrúar flytur Guðni Th. Jóhannesson, dósent í sagnfræði, fyrirlesturinn „Vonir ömmu, veruleiki pabba. Munur kyns og kynslóða“, kl. 12 í stofu 132 í Öskju, Sturlugötu 7.

Athugið að vegna mikillar aðsóknar á fyrirlestrana í röðinni „Margar myndir ömmu“ hefur staðsetningu fyrirlestrarins verið breytt!

„Ég veit mamma að þú vilt að ég verði langskólagenginn en ég held að það verði ég ekki.“ Amma Guðna, Sigurveig Guðmundsdóttir, var hámenntuð í besta skilningi þess orðs, víðlesin og ætíð í leit að svörum við lífsins gátum. Í háskóla gat hún hins vegar ekki farið, barn síns tíma þegar slíkt taldist til forréttinda fárra karla. En að því kom að draumurinn gæti ræst í gegnum frumburðinn.

Hjónin Sigurveig og Sæmundur Jóhannesson studdu son sinn og föður Guðna, Jóhannes Sæmundsson, til háskólanáms í útlöndum. Úr bréfskiptum ömmu hans og pabba frá þeim árum má lesa metnað hennar og gleði yfir því að hann feti hina öfundsverðu braut. Um leið lýsa skrifin efasemdum Jóhannesar um sjálfan sig. Mun hann standast væntingar móður sinnar sem vill að hann njóti þess sem var konu af hennar kynslóð ókleift?

Sigurveig Guðmundsdóttir með syni sínum Jóhannesi Sæmundssyni.

Sigurveig Guðmundsdóttir, 1909-2010, með syni sínum Jóhannesi Sæmundssyni, 1940-1983.

Í erindinu rekur Guðni þessi bréfaskipti og setur þau í samhengi við samfélagsþróun þeirra tíma. Einnig nefnir hann hversu vonlaust það er að hlýða viðmiðum um fræðilega fjarlægð og hlutlægni þegar ástkær amma og faðir eiga í hlut.

Fyrirlesturinn er hluti af fyrirlestraröðinni „Margar myndir ömmu“ sem RIKK heldur í samstarfi við Þjóðminjasafnið og styrkt er af framkvæmdanefnd um 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna.

Viðburðurinn er öllum opinn og er á Facebook.