Hildur Fjóla Antonsdóttir

Hildur Fjóla Antonsdóttir, doktorsnemi í réttarfélagsfræði við Háskólann í Lundi, flytur fyrsta erindið í hádegisfyrirlestraröð RIKK. Nefnist það „Vitni í eigin máli: Upplifun þolenda kynferðisbrota af lagalegri stöðu sinni og réttindum“, fimmtudaginn 7. september, kl. 12-13 í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands.

Erlendar rannsóknir sýna að brotaþolar, þá sérstaklega þolendur kynferðisbrota, hafa oft neikvæða reynslu af réttarkerfinu og hefur enska hugtakið „secondary victimization“ verið notað til að lýsa hvernig upplifun þeirra einkennast oft af kvíða, efa, sjálfsásökunum og jöðrun í réttarferlinu. Í þessu erindi er sjónum hins vegar beint að réttarkerfinu sjálfu og hvernig brotaþolar upplifa stöðu sína og réttindi innan þess. Spurt er: Er staða brotaþola innan réttarkerfisins réttlát? Til þess að svara þeirri spurningu er byggt á viðtölum við þolendur kynferðisbrota á Íslandi og þau greind út frá réttlætiskenningu stjórnmálafræðingsins Nancy Fraser. Í þessu samhengi verður einnig fjallað um stöðu og réttindi brotaþola á hinum Norðurlöndunum og túlkun norska lagaprófessorsins Anne Robberstad á reglu sakamálaréttarfars um jafnræði málsaðila í vestnorrænum rétti.

Markmið doktorsrannsóknar Hildar Fjólu miðar í fyrsta lagi að því að skilja hvernig fólk sem hefur verið beitt kynferðisofbeldi lýsir, skynjar og upplifir (ó)réttlæti; og í öðru lagi að kanna hvort, og þá hvernig, sú þekking getur nýst til að þróa leiðir sem geta mætt réttlætisþörfum og –hagsmunum fólks sem hefur verið beitt kynferðisofbeldi, bæði innan og utan réttarkerfisins.

Erindið er flutt á íslensku og aðgangur er öllum opinn og ókeypis.

Finndu viðburðinn á Facebook!