Fimmtudaginn 18. nóvember heldur Kolbeinn Stefánsson, doktorsnemi í félagsfræði við Oxford háskóla og verkefnisstjóri hjá EDDU – öndvegissetri, fyrirlestur er nefnist „Við lítinn vog, í litlum bæ. Kynbundin verkskipting fyrir og eftir bankahrun“. Fyrirlesturinn verður haldinn í Öskju, stofu 132, kl. 12.25-13.15.

Flestar rannsóknir á kreppum hafa verið unnar af hagfræðingum og sagnfræðingum. Fyrir vikið vitum við all nokkuð um efnahagslegar og pólitískar orsakir og afleiðingar slíkra viðburða – minna er hins vegar vitað um samfélagslegar afleiðingar þeirra. Í kjölfar þeirra efnahagsþrenginga sem nú ganga yfir heiminn hefur félagsvísindafólk aftur á móti beint sjónum sínum í auknum mæli að ýmsum félagslegum afleiðingum kreppna.

Í þessu erindi mun Kolbeinn fjalla um greiningu hans og Þóru Kristínar Þórsdóttur, doktorsnema í félagsfræði við háskólann í Manchester, á þeim breytingum sem hafa orðið á verkskiptingu kynjanna í kjölfar kreppunnar. Um er að ræða niðurstöður úr könnunum Þjóðmálastofnunar á samspili vinnu og heimilis, kynhlutverkum og kynbundinni verkskiptingu frá árunum 2005 og 2010. EDDA – öndvegissetur og Jafnréttisráð styrktu rannsóknina.