Hádegisfyrirlestur á vegum Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum verður haldinn fimmtudaginn 16. október kl. 12:05-13:00 í stofu 301 í Árnagarði (3. hæð). Kristín Ástgeirsdóttir sagnfræðingur flytur erindið: Velferð og mæðrahyggja í íslenskri kvennahreyfingu 1915-1930.

Eftir að íslenskar konur fengu takmarkaðan kosningarétt til Alþingis árið 1915 hófst umræða um það hvert ætti að verða hlutverk kvennahreyfingarinnar. Var baráttunni lokið eða biðu brýn verkefni krafta kvenna? Segja má að kvennahreyfingin hafi svarað spuningunni aðeins nokkrum dögum eftir að kosningarétturinn var fenginn, með ákvörðun um að safna fé til byggingar Landspítala. Að því verki komu nánast öll kvenfélög í Reykjavík auk þess sem málið naut mikils stuðnings kvenna og karla um allt land. Bríeti Bjarnhéðinsdóttur formanni Kvenréttindafélagsins fannst að konur ættu heldur að snúa sér að því að komast þar að sem peningum til verkefna væri úthlutað og skrifaði hún fjölda greina um hlutverk kvennahreyfingarinnar á árunum 1915-1919.
Öðrum konum var ofar í huga að beita kröftum sínum í þágu þeirra sem áttu um sárt að binda utan hefðbundinna valdastofnana (karla)samfélagsins.

Velferðarmál og barátta fyrir betra samfélagi einkenndi hugmyndir íslenskra kvenréttindakvenna allt frá því að fyrstu félög þeirra voru stofnuð á síðasta aldarfjórðungi 19. aldar. Framboðshreyfing kvenna 1908-1926 einkenndist af baráttumálum í þágu fátækra, sjúkra, ekkna, einstæðra mæðra og barna þeirra. Inn í velferðarfeminismann fléttuðust hugmyndir sem kenndar hafa verið við mæðrahyggju og eru m.a. raktar til sænsku kvenréttindakonunnar Ellen Key. Í mæðrahyggju fólst að flytja átti dýrmæta reynslu mæðranna út í samfélagið og nýta hana til þess að bæta það. Stundum var hamrað á mæðrahlutverkinu sem æðstu köllun hverrar konu. Þrátt fyrir þá köllun áttu einhverjar konur að taka að sér það hlutverk að halda inn fyrir veggi ríkjandi valdastofnana karlanna og beita sér þar fyrir bættum kjörum þeirra hópa sem konur báru fyrir brjósti. Einn slíkra fulltrúa var Ingibjörg H. Bjarnason sem sat á Alþingi 1922-1930. Hún var dæmigerður velferðarfeministi sem um leið beitti sér fyrir frelsi kvenna og að halda öllum leiðum opnum fyrir konum, meðan straumur tímans beindi þeim í þveröfuga átt, inn í húsmæðraskóla, inn á heimilin í faðm eiginmanns og barna. Í fyrirlestrinum verður þessi saga rakin og reynt að greina þær hugmyndir og aðgeðir sem einkenndu íslenska kvennahreyfingu á tímabilinu 1915-1930.

Kristín Ásgeirsdóttir lauk MA prófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands 2002. Lokaritgerð hennar fjallaði um þingkonuna Ingibjörgu H. Bjarnason og íslenska kvennahreyfingu 1915-1930. Kristín sat sjálf á þingi fyrir Kvennalistann 1991-1997 og utan flokka til 1999. Hún hefur starfað um árabil innana íslenskra kvennahreyfinga, nú síðast í Feministafélagi Íslands. Kristín er nú stundakennari í kynjafræðum við H.Í.