Föstudaginn 28. september flytur Steinunn Rögnvaldsdóttir, M.A. í kynjafræði, erindi sem ber heitið „Varla heill né hálfur maður? Kynbundinn launamunur, ólaunuð heimilisstörf og lífeyrir kvenna“. Fyrirlesturinn verður haldinn í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins, kl. 12.00-13.00.

Í erindinu fjallar Steinunn Rögnvaldsdóttir um rannsókn sína á íslenska lífeyriskerfinu frá kynjafræðilegu sjónarhorni. Staða kvenna á ellilífeyri ber mark áratuga kynjamismununar í íslensku samfélagi. Rætt verður um hvernig ólaunuð vinna kvenna inná heimilum og kynbundinn launamunur, auk fleiri þátta, hafa skapað gjá milli lífeyrisgreiðslna karla og kvenna. Hvernig er hægt að brúa þá gjá? Er fátækt eldri kvenna einungis fortíðarvandi eða líka framtíðarógn? Hvernig er kvenvænt lífeyriskerfi? Er það feminískt eða ekki að greiða konum fyrir heimilisstörf?

Fyrirlesturinn er haldinn í samstarfi við Þjóðminjasafn Íslands.

Öll velkomin!