Miðvikudaginn 5. maí flutti Susan Tucker, bókasafnsfræðingur og Fulbright fræðimaður frá Tulane-háskóla í New Orleans, opinberan fyrirlestur í boði Rannsóknastofu í kvennafræðum við Háskóla Íslands. Umræða nítjándu og tuttugustu aldar – jafnt hin almenna sem hin fræðilega – hefur skilgreint konur sem kynið sem varðveitir og miðlar fjölskylduminningum til framtíðar. Konur hafa í gegnum tíðina haldið til haga og varðveitt persónulegar heimildir og fjölskyldualbúm. Í upphafi 20. aldar var algengt að bandarískar unglingsstúlkur og konur notuðu drjúgan tíma í að safna saman skjölum og bókum sem innihéldu minningar af ýmsu tagi, s.s. úrklippubókum, dagbókum, minnisbókum, myndaalbúmum, o.fl. Í fyrirlestri sínum mun Susan Tucker sýna skyggnur með texta og myndum úr slíkum bókum og fjalla um þessi gögn í ljósi kenninga um tengsl sjálfsmynda og minninga og með hliðsjón af rannsóknum hennar hér á landi og í Bandaríkjunum.