Dr. Þorgerður Einarsdóttir dósent í kynjafræðum við HÍ flutti hádegisfyrirlestur á vegum RIKK fimmtudaginn 22. febrúar kl. 12.15 í stofu 132 í Öskju. Fyrirlesturinn nefndi hún: Usli í vísindasamfélaginu. Kynjafræðinám í Háskóla Íslands í 10 ár.

Skipulagt kynjafræðinám við Háskóla Íslands á 10 ára afmæli um þessar mundir þótt námið eigi sér lengri forsögu. Kynjafræðinám hefur nánast alls staðar byrjað sem grasrótarstarf fræðikvenna með það fyrir augum að gera fræðin að viðurkenndum hluta háskólastarfs. Svo er einnig reyndin hér á landi. Í fyrirlestrinum er farið yfir þróun kynjafræðinnar á Íslandi, tengsl hennar við vísindasamfélagið, innviði fræðanna og jafnréttisstarf innan og utan háskóla. Vikið er að stofnanavæðingu fræðasviðsins frá grasrótarstarfi til námsbrautar með stöður, fjármagn, rannsóknir og útskriftir. Stofnanavæðing er forsenda þess að fræðasvið geti dafnað. Margir hafa þó bent á að stofnanavæðing kynjafræðinnar sé tvíbent á sama hátt og stofnanavæðing jafnréttisstarfs. Hún bjóði heim þeirri hættu að gangast kerfinu á hönd og verða bitlaus um og leið og hún er viðurkennd.