Dr. Sigríður Guðmarsdóttir, prestur og lektor í guðfræði, hélt þann 21. febrúar kl. 12:30-14:30 fyrirlesturinn Undirlíf og undirdjúp hjá Paul Tillich, Grace Jantzen og Catherine Keller í sal 3 í Háskólabíói.

Í þessum fyrirlestri kynnti Sigríður Guðmarsdóttir doktorsritgerð sína í guðfræði, „Abyss of God: Flesh, Love and Language in Paul Tillich“ sem hún varði við Drew háskóla, NJ í Bandaríkjunum síðastliðið vor. Undirdjúp guðdómsins, „abyss“ er þekkt hugtak í sögu vestrænnar guðfræði og heimspeki, einkum miðaldadulhyggju. Má rekja þær hugmyndir allt aftur til Platóns og fyrstu Mósebókar. Undirdjúpið er eitt af meginhugtökum Paul Tillich (1886-1965) sem var einn af áhrifamestu guðfræðingum 20. aldarinnar. Tillich notar hugtakið til að koma hreyfingu á táknmál trúarinnar og stemma stigu við því að guðdómurinn sé alltaf auðkenndur með sama myndmálinu. Fyrir Tillich vakti m.a. að efla táknmál um hinar kvenlegu víddir Guðs, móðurþel, íveru og nánd, sem honum þótti ábótavant í hefðbundinni guðfræði.

Sigríður skoðar undirdjúp Tillich með gleraugum undirlífsins, en hún skilgreinir undirlíf á þann hátt að það hafi almennt með líkamsdýpt að gera en sértækt að gera með fylgsni kvenmannsins. Hún veltir fyrir sér á hvern hátt undirlífshugmyndir hafi áhrif á guðsmynd Tillich og hvernig slíkar undirdjúpshugmyndir séu kynjaðar. Aðferðafræði sína sækir Sigríður í smiðju kvennaguðfræðinga og póststrúktúralskra heimspekinga s.s. Irigaray, Kristeva og Derrida. Í fyrirlestrinum um undirlífseinkenni undirdjúpanna leitar Sigríður aðstoðar hjá tveimur femínískum fræðimönnum, trúarheimspekingnum Grace Jantzen (1948-2006) og trúfræðingnum Catherine Keller (1953-) en sú síðarnefnda er Doktormutter Sigríðar.

Sigríður Guðmarsdóttir lauk M.Phil.gráðu í guðfræði frá Drew University, Madison, NJ í október 2003 og Ph.D. prófi í nútímatrúfræði (constructive theology) frá sama skóla í maí 2007. Doktorsverkefni hennar ber nafnið Abyss of God: Flesh, Love and Language in Paul Tillich og rýnir í kenningar Tillichs (1886-1965) um afgrunn eða abyssu guðdómsins í ljósi póststrúktúralískrar heimspeki, kynjafræði og kvennaguðfræði. Sigríður starfar sem sóknarprestur í Grafarholti í Reykjavík, er lektor við guðfræðideild University of Winchester í Bretlandi og sinnir stundakennslu við guðfræðideild Háskóla Íslands.