Þann 16. september kl. 12:00-13:00 flytur Arndís Guðmundsdóttir fyrirlesturinn Um orðræður og völd. Tvær konur og kvennabarátta í kringum aldamótin 1900 í stofu 101 í Odda.

Fjallað verður um baráttu Ingibjargar H. Bjarnason (1868-1941) og Bríetar Bjarnhéðinsdóttur (1856-1940) fyrir bættri stöðu kvenna í íslensku samfélagi um og eftir aldamótin 1900 og hvernig þær rufu þá þögn sem umlukið hafði konur fram að þeim tíma. Ríkjandi orðræða feðraveldisins hefur markað konum ákveðinn bás í samfélaginu og hinir þöglu hópar halda áfram að vera þögulir vegna þess að þeir eru útilokaðir frá orðræðu þeirra sem fara með völdin. Bríet og Ingibjörg sköpuðu andóf sem leiddi til nýrrar orðræðu og endurskilgreiningar á stöðu kvenna sem virkra þátttakenda í samfélaginu. Þær fengu því áorkað að ríkjandi valdahlutföll í samfélaginu tóku að breytast og áttu þær jafnframt stóran þátt í því að smám saman heyrðist rödd kvenna betur.

Lífshlaup Bríetar og Ingibjargar er sett í samhengi við ríkjandi hugmyndafræði, íslenskt samfélag og kvennabaráttu á þessum tíma, og síðan greint út frá femínísku sjónarhorni. Líkamlegur og félagslegur munur kynjanna kemur glöggt fram í öllu því sem Bríet og Ingibjörg tóku sér fyrir hendur; þær voru báðar gildar persónur í samfélaginu, en náðu aldrei því markmiði að verða „fullkomnar“ persónur í sama skilningi og karlar. Bríet og Ingibjörg stuðluðu að því að konur fóru smám saman að gera sér grein fyrir því að þær höfðu mikilvægu hlutverki að gegna á fleiri sviðum en innan veggja heimilisins og við barnauppeldi; að konur gátu og áttu rétt á því að þroska sig sem einstaklinga á hinum ýmsu sviðum samfélagsins, alveg eins og karlar