Katrín Ólafsdóttir er fjórði fyrirlesari fyrirlestraraðar RIKK – Rannsóknastofnunar í jafnréttisfræðum á haustmisseri 2021. Fyrirlestur Katrínar nefnist „Um menn og skrímsli. Sköpun sjálfsmyndar, karlmennska og ofbeldi í garð kvenna í íslenskum samtíma” og verður haldinn kl. 12.00–13.00 þann 25. nóvember í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands.

Í fyrirlestri sínum mun Katrín fjalla um doktorsverkefni sitt sem fjallar um gerendur ofbeldis í nánum samböndum. Í verkefninu beitir Katrín femínískum kenningum til þess að skýra hvernig ofbeldi þrífst og er viðhaldið í nútíma samfélagi. Sjónum er m.a. beint að því hvernig einstaklingar sem sjálfir skilgreina sig sem gerendur ofbeldis í nánum kynnum sjá ofbeldisverk sín og hvernig þeim finnst þau endurspegla hverjir þeir eru og hvað þeir standa fyrir. Verkefnið byggir á aðferðum hrif- og orðræðugreiningar sem gerir það kleift að skoða hvernig fyrirframgefnar ályktanir um t.d. karlmennsku og ofbeldi vekja með okkur ólíkar tilfinningar sem ýmist hreyfa við eða hamla getu okkar til þess að bregðast við. Niðurstöðurnar setur Katrín m.a. í samhengi við samfélagslega umræðu um ofbeldi í íslenskum samtíma og býður áhorfendum til samtals um stöðu mála.

Katrín Ólafsdóttir er aðjunkt og doktorsnemi við menntavísindasvið. Markmið áðurnefndrar doktorsrannsóknar hennar er að rannsaka ofbeldi í nánum samböndum út frá sjónarhóli þeirra sem ofbeldinu beita. Rannsóknin er viðtalsrannsókn þar sem leitast er eftir því að skilja einstaklinginn út frá hans eigin sjónarhorni. Í rannsókninni er sjónum m.a. beint að samþykkinu og hvernig ungt fólk vinnur með það í nánum kynnum, sjálfsmynd gerenda ofbeldis og sýn til eigin verka og ólíkri upplifun gerenda og þolenda af alvarleika og umfangi brota.

Grímuskylda er á viðburðinum.

Að fyrirlestri loknum verður upptaka gerð aðgengileg á heimasíðu RIKK og Youtube-rás Hugvísindasviðs. 

25. ágúst á þessu ári voru liðin 30 ár frá stofnun RIKK, eða Rannsóknastofu í kvennafræðum eins og stofnunin hét á fyrstu starfsárum sínum. Að því tilefni tekur hádegisfyrirlestraröð stofnunarinnar á haustmisseri 2021 stöðuna á jafnréttisrannsóknum þar sem litið er til þess hvert kvenna-, kynja- og jafnréttisrannsóknir stefna með áherslu á nýja rannsakendur á þessu sviði. Umfjöllunarefni fyrirlestrana eru fjölbreytt og endurspegla breiddina í jafnréttisrannsóknum.

Frekari upplýsingar um fyrirlestraröðina má finna á heimasíðu RIKK – rikk.hi.is – og Facebook-síðu stofnunarinnar auk þess sem hægt er að skrá sig á póstlista RIKK hér og fá tilkynningar um viðburði senda í tölvupósti.