Fimmtudaginn 19. janúar heldur Helga Gottfreðsdóttir, dósent við Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, fyrsta hádegisfyrirlesturinn RIKK á vorönn 2012 sem ber heitið „Tvennt er kyn að manni hverjum: Reynsla verðandi feðra á meðgöngu”. Fyrirlesturinn fer fram í Öskju, stofu 132, kl. 12:00-13:00.

Í flestöllum vestrænum samfélögum hefur mikil breyting átt sér stað síðustu áratugi  á hlutverki og aðkomu feðra að umönnun barna sinna, allt frá fæðingu. Breytingarnar eru tengdar samspili félagslegra, efnahagslegra og pólitískra þátta og byggja á rétti feðra til að annast börn sín og rétti barna til að njóta samvista við feður sína.

Nokkrar rannsóknir seinni ára benda til að aðkoma feðra á meðgöngu sé vanmetin í tengslum við vellíðan móður og framvindu meðgöngunnar. Jafnframt eru vísbendingar um að breytingar verði á tilfinningalegri og sálrænni líðan verðandi feðra sem tengist framvindu meðgöngunnar en í flestum rannsóknum hefur athyglin þó beinst að síðasta þriðjungi meðgöngunnar og tímabilinu fyrst eftir fæðingu.

Í reglugerðum og klínískum leiðbeiningum sem tengjast meðgönguvernd er í auknu mæli áhersla á báða verðandi foreldra. Rannsóknir gefa þó til kynna að verðandi feðrum þyki þjónustan aðeins taka tillit til þeirra að takmörkuðu leyti. Í erindinu er sagt frá niðurstöðum íslenskra rannsókna sem gerðar hafa verið meðal verðandi feðra t.d.  varðandi aðkomu þeirra að ákvarðanatöku um fósturskimun í upphafi meðgöngu og viðhorfum þeirra til skipulagðar fræðslu sem stendur verðandi foreldrum til boða á meðgöngu.

Í lokin er því velt upp hvort sú nálgun sem notuð er í heilbrigðisþjónustunni fyrir verðandi foreldra geti tekið tillit til þess að meðgangan sé ekki eingöngu tími líkamlegra og andlegra breytinga konunnar heldur einnig tímabil aðlögunar og undirbúnings fyrir nýtt hlutverk beggja verðandi foreldra.

 

Öll velkomin!

Hér má sjá dagskrá RIKK á vorönn