Tvær afasystur. Hulda Jakobsdóttir og Katrín Thoroddsen

Ármann Jakobsson

Föstudaginn 30. janúar flytur Ármann Jakobsson, prófessor í íslenskum bókmenntum fyrri alda, erindið „Tvær afasystur. Hulda Jakobsdóttir og Katrín Thoroddsen“ í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins, kl. 12-13.

Í fyrirlestri sínum mun Ármann meðal annars ræða tvær langömmur sínar, Theodóru Thoroddsen og Guðrúnu Ármannsdóttur, sem báðar bjuggu í Reykjavík árið 1915 en voru fæddar á Snæfellsnesi og í Dölum.

Þessar tvær konur áttu margt sameiginlegt, meðal annars að meðal barna þeirra voru dætur sem ekki létu fanga sig innan ramma kvenhlutverksins eins og það var þá skilgreint, annars vegar Katrín Thoroddsen sem var þriðja konan sem var kjörin á Alþingi, og sat þar ein 1946–1949, en hins vegar Hulda Jakobsdóttir sem var bæjarstjóri í Kópavogi 1957–1962. Það var margt ólíkt en sumt líkt við leið þessara tveggja kvenna „gegnum glerþak“ þess tíma enda voru mæður þeirra bæði andstæður og hliðstæður.

Guðrún Ámannsdóttir 1884 og Theodóra Thoroddsen 1863-1954

Guðrún Ármannsdóttir 1884-1959 og Theodóra Thoroddsen 1863-1954.

Fyrirlesturinn er hluti af fyrirlestraröðinni „Margar myndir ömmu“ sem RIKK heldur í samstarfi við Þjóðminjasafnið og styrkt er af framkvæmdanefnd um 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna.