„Tíminn líður hratt á gervihnattaöld“

Þann 10. apríl kl. 12:00-13:00 flytur Sigríður Lillý Baldursdóttir fyrirlesturinn „Tíminn líður hratt á gervihnattaöld“ í stofu 101 í Lögbergi.

Fjallað verður um tímaskortinn og streituna í upplýsingasamfélagi nútímans. Birtingarháttur streitunnar verður skoðaður og ræddur í tengslum við tilfinningu fólks fyrir framvindu tímans. Tilkoma margvíslegrar tækni sem átti meðal annars að létta okkur vinnuna, skapa okkur meiri frítíma og aukin lífsgæðin verður metin í ljósi þess sem síðar varð. Viðfangsefnið verður skoðað frá siðferðilegu og kynjuðu sjónarhorni og vöngum velt yfir spurningum sem þeim – hvort streitan hefði verið minni ef konur hefðu verið virkari gerendur í þróun tækninnar – hvort launþegahreyfingin hafi brugðist og ekki gætt þess að tækniskapaður tími skilaði sér til launþeganna – hvort atvinnurekendur þekki sinn vitjunartíma – hvort konur hafi látið tæknina hafa sig að fíflum og látið kröfur kvennahreyfingarinnar etja sér á foraðið.

Sigríður Lillý Baldursdóttir er verkefnisstjóri rannsókna hjá Tryggingastofnun ríkisins, hún er menntaður eðlisfræðingur og vísindasagnfræðingur. Sigríður Lillý var virk í Kvennalistanum, formaður undirbúningsnefndar stjórnvalda vegna ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um málefni kvenna sem haldin var í Peking árið 1995, skrifstofustjóri í félagsmálaráðuneytinu um árabil og hafði þar m.a. með jafnréttismál að gera. Þá hefur Sigríður Lillý m.a. verið formaður UNIFEM og Kvenréttindafélags Íslands.