Þann 8. apríl flutti Annadís G. Rudólfsdóttir, félagssálfræðingur, erindið Þungað sjálf: líkamsvitund og sjálfsmynd ungra mæðra.

Í fyrirlestrinum var byggt á gögnum sem safnað var fyrir rannsóknina „Sjálfsmynd ungra mæðra“, þ.m.t. fræðsluefni sem dreift er til verðandi mæðra, viðtöl við ungar konur meðan þær voru barnshafandi og eftir að þær áttu barn, og hópviðtöl við ungar mæður. Við greiningu á þessu efni var eftirfarandi spurningum velt upp: Hvaða máli skiptir líkaminn í því hvernig verðandi eða nýbakaðar mæður eru staðsettar í orðræðum samfélagsins? Er litið á verðandi og nýbakaðar mæður sem gerendur sem geta tekið ákvarðanir fyrir sig sjálfar? Hvers konar hugmyndir koma fram um eðli líkamans í þessum orðræðum? Í fyrirlestrinum var rakið hvernig ungar mæður skilgreina sig bæði í samræmi og í andstöðu við ríkjandi hugmyndir. Því var haldið fram sjálfsveruna verði að skoða í líkamleik sínum en einnig í ljósi þess hvernig við erum skilgreind sem sjálfsverur á grundvelli líkama okkar.