Þroskaheftar/seinfærar mæður og börn þeirra

Rannsóknastofa í kvennafræðum gengst fyrir rabbi fimmtudaginn 16. nóvember í Odda, stofu 201, kl. 12-13. Hanna Björg Sigurjónsdóttir uppeldis- og menntunarfræðingur heldur fyrirlesturinn Þroskaheftar/seinfærar mæður og börn þeirra.

Fjölskyldur þar sem foreldrarnir eru þroskaheftir/seinfærir hafa fram á síðustu ár verið bæði fáar og lítt sýnilegar í samfélaginu. Enginn veit hversu margar þær eru og lítið er vitað um þær og börn þeirra. Fyrirlesturinn byggir á íslenskri rannsókn um 10 þroskaheftar/seinfærar mæður á aldrinum 26-83 ára og börn þeirra. Gagna var aflað með opnum viðtölum og þátttökuathugunum. Í fyrirlestrinum verður lögð áhersla á hvernig reynsla mæðranna endurspeglar hvernig breytt viðhorf, stefna og þjónusta á síðustu fimmtíu árum hefur haft áhrif á réttindi, aðstæður og möguleika þeirra til að ala upp börn sín.