Andrea J. Ólafsdóttir nemi í uppeldis-og menntunarfræði og Hjálmar G. Sigmarsson M.A. í mannfræði fluttu fyrirlesturinn „Þetta er út um allt! – Upplifun og viðhorf unglinga til kláms á vegum RIKK í stofu 132 í Öskju, fimmtudaginn 29. mars kl. 12.15.

Andea og Hjálmar kynntu niðurstöður úr nýsköpunarsjóðsverkefni sem þau unnu sumarið 2006. Með aukinni og almennri tölvu- og netvæðingu hefur klámefni orðið mun aðgengilegra og þá einnig fyrir börn og unglinga. Ætla má að sú kynslóð sem nú vex úr grasi hafi séð mun meira og grófara klám heldur en nokkur kynslóð sem á undan hefur farið. Markmið rannsóknarinnar var að öðlast dýpri og margþættari skilning á því hvort og hvernig unglingar upplifa og túlka klám í sínu umhverfi; hvaða skoðanir þau hafa á því; og hvernig þau tjá sig um klám. Einnig var skoðað hvort og hvernig stelpur og strákar upplifi og tjái sig um klám með ólíkum hætti. Að auki var það markmið þessarar rannsóknar að efla umræðu og fræðslu um áhrif kláms á ungt fólk.