Þekkingarsamfélag án raunverulegs jafnréttis?

Þann 11. apríl hélt Lilja Mósesdóttir hagfræðingur fyrirlesturinn Þekkingarsamfélag án raunverulegs jafnréttis?

Á tímabilinu 1997-2002 náðist betri árangur hvað varðar framþróun þekkingarsamfélagsins en jöfnuð karla og kvenna í aðildarlöndum ESB auk Íslands og Ungverjalands. Með jöfnuði er hér átt við raunverulegt jafnrétti eða jöfnun efnahagslegra, félagslegra og menntunarlegra aðstæðna karla og kvenna. Flest löndin stefna að framþróun þekkingarsamfélagsins og auknum jöfnuði kynjanna. Konur eru í mörgum þessara landa betur menntaðar en karlar og ættu þær því að vera sigurvegarar þekkingarsamfélagsins. Í erindinu sem byggir á niðurstöðum ESB-rannsóknarverkefnisins WELLKNOW leitaði dr. Lilja Mósesdóttir, verkefnisstjóri verkefnisins, skýringa á þessari mótsögn.

Í ljósi þessarar þversagnar var sjónum beint að hlutverki og áhrifum stjórnvalda í samfélagsþróuninni. Sérstaklega var skoðað hvaða breytingar á vinnumarkaði hafa komið í veg fyrir aukið jafnrétti og hvers vegna samþættingarstefna (gender mainstreaming) stjórnvalda í jafnréttismálum hefur ekki virkað sem skyldi. Flest löndin hafa innleitt samþættingarstefnuna en markmið hennar er að samþætta kynjasjónarhornið inn í alla stefnumótun og tryggja þannig jöfnuð karla og kvenna. Misgóður árangur landanna hvað varðar þróun í átt til þekkingarsamfélags þar sem ríkir kynjajöfnuður bendir til þess að aðstæður (t.d. stofnanaumgjörð og stjórnvöld) í viðkomandi landi hafi enn nokkur áhrif á efnahags- og félagsþróun, þrátt fyrir alþjóðavæðingu. Það er því spurning hvort lönd geti valið á milli ólíkra þróunarleiða að þekkingarsamfélaginu og hvort hægt sé að tryggja að saman fari þekkingarsamfélag og jöfnuður karla og kvenna.