Hólmfríður Garðarsdóttir er annar fyrirlesari fyrirlestraraðar RIKK og Alþjóðlegs jafnréttisskóla (GEST) á vormisseri 2020 og nefnist fyrirlestur hennar „Þær leggja líf sitt að veði: Kvenleg ásýnd náttúruverndar í Rómönsku Ameríku.“ Fyrirlesturinn er fluttur fimmtudaginn 13. febrúar, kl. 12:00-13:00, í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands.

Umræða um umhverfismál fer ekki sérlega hátt í fjölmiðlum landa Rómönsku Ameríku. Að brauðfæða þá sem þar búa er mest áberandi baráttumál vinstrimanna en leitin að leiðum til að auka arð af nýtingu náttúruauðlynda hjá hægrimönnum. Málsvörum móður jarðar eða „pachamama,“ sem eru einna helst baráttusamtök frumbyggja, kvennahreyfingar ýmiskonar auk fræðimanna, er vísað á bug. Rök og líf baráttufólks úr þeirra röðum mega sín lítils gagnvart elítu landeigenda og herja þeirra.

Í erindinu verður leitað svara við því hvers vegna umræða um umhverfis- og loftlagsmál fer ekki hátt í fjölmiðlum álfunnar og spurt hvaða skilning íbúar hennar leggja í merkingu hugtakanna og hvaða áhrif hefur það á aðstæður ólíkra þjóðfélagshópa. Hverju ræður að ríkjandi hugmyndir um iðnaðaruppbyggingu sem karllæga og umhyggju fyrir framtíð dýra og manna sem kvenlæga ráða enn ríkjum? Réttindabarátta frumbyggja og ásælni auðkýfinga og alþjóðafyrirtækja koma þar meðal annars við sögu.

Dr. Hólmfríður Garðarsdóttir er prófessor í spænsku og sérfræðingur í málefnum Rómönsku Ameríku – ekki hvað síst bókmenntum og kvikmyndum.

Fyrirlesturinn er fluttur á íslensku, er öllum opinn og aðgangur ókeypis.

Viðburðurinn á Facebook!

Hádegisfyrirlestraröð RIKK og GEST á haustmisseri 2019 er tileinkuð loftslagsbreytingum út frá kynjafræðilegu og jafnréttissjónarhorni.

Fyrirlestraröðin er haldin í samvinnu við Þjóðminjasafn Íslands.

Gunnþórunn Guðmundsdóttir er fundarstjóri. Hér má sjá upptöku af fyrirlestrinum: