Súsanna Margrét GestsdóttirFöstudaginn 13. febrúar flytur Súsanna Margrét Gestsdóttir, sagnfræðingur og aðjúnkt við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, fyrirlestur um ömmu sína og nöfnu, Súsönnu Margréti Gunnarsdóttur frá Norðurfirði á Ströndum, 1926-2002, í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins, kl. 12-13.

Nafn Súsönnu Margrétar Gunnarsdóttur er hvorki að finna í skrám yfir brautskráða stúdenta né í félagatali róttækra kvennahreyfinga en engu að síður hefur tvennt runnið upp fyrir fyrirlesara á síðustu árum: Annað er það hversu skýrt breytingar á aðstæðum kvenna á tuttugustu öld kristallast í lífshlaupi hennar og hitt er hversu sterkur þráður er frá henni og til eigin viðfangsefna fyrirlesara sem er kennari, sagnfræðingur og doktorsnemi við Háskólann í Amsterdam. Mikil stoð er í því að þessi amma hefur verið haldin ákafri tilhneigingu til heimildasöfnunar og ríkri skrásetningarþörf og því fá hennar eigin orð oft að hljóma í fyrirlestrinum, auk þess sem margar myndir úr ljósmyndasafni hennar prýða hann.

Spáð verður í ömmuna góðu inni á heimilinu en ekki síður í ömmu sem brautryðjanda í atvinnulífi kvenna – þáttur hennar í stofnun Handprjónasambands Íslands er nokkuð sem fyrirlesari vissi sannarlega af en áttaði sig ekki á umfangi þess hlutverks hennar fyrr en við undirbúning fyrirlestursins.

Súsanna Margét Gunnarsdóttir með börnum sínum

Súsanna Margrét Gunnarsdóttir með börnum sínum.

Fyrirlesturinn er hluti af fyrirlestraröðinni „Margar myndir ömmu“ sem RIKK heldur í samstarfi við Þjóðminjasafnið og styrkt er af framkvæmdanefnd um 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna.

Viðburðurinn er öllum opinn og er á Facebook.