Dagný Kristjánsdóttir, prófessor

Dagný Kristjánsdóttir, prófessor í íslenskum nútímabókmenntum, er sjötti fyrirlesari í fyrirlestraröð RIKK – Rannsóknastofnunar í jafnréttisfræðum – og UNU-GEST – Jafnréttisskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna – á vormisseri 2019. Fyrirlestur hennar nefnist: „„Það var barn í dalnum …“. Um hrjáð börn og fleira í verkum Steinunnar Sigurðardóttur“ og að venju er fyrirlesturinn fluttur í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands, fimmtudaginn 21. mars kl. 12:00-13:00. Mjög margar af bókum Steinunnar Sigurðardóttur fjalla um dramatísk tilfinningasambönd, vináttu, stuðning og samstöðu. Eða þrá einmana fólks eftir slíkum tengslum sem geta ekki orðið. Það reynist einhver „ómögulegleiki“ í stöðunni. Oft eru fortíðardraugar á ferð. Það eru börn á sveimi; draugabörn, villibörn og börn sem hafa verið beitt ofbeldi eða verið vanrækt. Þau hafa iðulega verið svikin af fólki sem áttu að vernda þau. Hvernig er hægt að segja sögurnar af þeim og þarf að gera það?. Dagný er prófessor í íslenskum samtímabókmenntum í Íslensku og menningardeild. Sérsvið hennar er íslensk bókmenntasaga, kvennabókmenntir, barnabókmenntir, kynjafræði, sálgreining og læknahugvísindi.

Fyrirlesturinn er á íslensku og er öllum opinn. Finndu viðburðinn á Facebook! Hádegisfyrirlestraröð RIKK og Jafnréttisskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna á vormisseri 2019 er tileinkuð sambandi kyns, áfalla og heilsufars. Rannsóknir á áhrifum skaðlegrar reynslu á bernskuárum hefur á undanförnum árum veitt hugmyndum um áhrif uppvaxtarskilyrða á heilsufar og velferð á fullorðinsárum nýtt líf. Fyrirlesarar úr mismunandi greinum munu í fyrirlestraröðinni fjalla um viðfangsefnið út frá ólíkum sjónarhornum. Fyrirlestraröðin er haldin í samvinnu við Þjóðminjasafn Íslands.