Laugardaginn 4. desember 2010 efnir Rannsóknastofa í kvenna- og kynjafræðum í samstarfi við EDDU-öndvegissetur til málþings til heiðurs Helgu Kress, prófessors emeritus við Háskóla Íslands. Málþingið verður haldið í Hátíðarsal, Aðalbyggingu Háskóla Íslands, kl. 10.30-18.00.

Helga Kress er brautryðjandi á sviði norrænna miðaldabókmennta og íslenskrar bókmenntasögu. Helga hefur gefið út fjölda rita um rannsóknir sínar og haldið um þær fyrirlestra, bæði hér á landi og erlendis. Þá hefur hún verið virk jafnt í íslenskri sem norrænni útgáfustarfsemi um konur og kynferði í bókmenntum.

Helga er fræðimaður sem hefur frá upphafi staðið fyrir öflugri kynningu á nýstárlegri, kvennafræðilegri og róttækri bókmenntakenningu á  Íslandi. Með rannsóknum sínum, sem oft hafa mætt andstöðu innan karllægrar akademíu, hefur hún opnað nýja sýn inn í heim íslenskra bókmennta og bókmenntasögu og í raun umbylt viðteknum hugmyndum um íslenskan menningararf.

Dagskrá:

10.30 – 10.40  Setning: Irma Erlingsdóttir, fundarstjóri.

10.40 – 12.00
Már Jónsson: „Máttvana meyjar á öndverðri 19. öld.“
Sigrún Pálsdóttir: „Hreyfimynd með hljóði frá 19. öld eftir Þóru Pétursdóttur.“
Halldór Guðmundsson: „Viðtöl, bréf og velktar myndir. Um heimildir við ævisagnaritun.“
– Umræður

12.00 – 13.00  Hlé

13.00 – 14.40
Guðrún Nordal: „Svarið Steinvarar: Um systur og eiginkonur Sturlunga.“
Jón Karl Helgason: „Sögusagnir: Sjónarhorn á íslenskar miðaldabókmenntir.“
Sveinn Yngvi Egilsson: „Náttúra Huldu.“
Guðni Elísson: „Ofríki, illgirni og dómgreindarskortur. Þrjár kvenlegar dyggðir í ríki kreppunnar.“
– Umræður

14.40 – 15.00  Kaffi

15.00 – 16.20
Steinunn Sigurðardóttir: „Óttinn við áhrif. Frá Málfríði til Málfríðar.“
Dagný Kristjánsdóttir: „Hulda og Halldór.“
Sigríður Þorgeirsdóttir: „Er Moby Dick ‘máttug mær’? Um kreppu karlmennsku og kynjasamskipta í hvalveiðisögu Melville.“
– Umræður

16.20 – 18.00    Léttar veitingar

Málþingið er öllum opið meðan húsrúm leyfir.

—————————

Setning og fundarstjórn:
Irma Erlingsdóttir, lektor í frönskum fræðum og forstöðukona Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum.


ERINDI

Már Jónsson, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands.
„Máttvana meyjar á öndverðri 19. öld.“

Rætt verður um alþýðustúlkur sem ekkert er vitað um nema það sem fram kemur í opinberum gögnum sem varðveitt eru í Þjóðskjalasafni Íslands, svo sem manntölum, kirkjubókum, dánarbúum og dómabókum. Æviatriði nokkurs hóps þeirra verða rakin eftir því sem hægt er og þess freistað að nálgast skilning á lífskjörum, skilyrðum tilvistar og veraldarsýn ungra kvenna í stöðnuðu og þröngsýnu samfélagi.

Sigrún Pálsdóttir, sagnfræðingur og ritstjóri Sögu – Tímarits Sögufélags.
„Hreyfimynd með hljóði frá 19. öld eftir Þóru Pétursdóttur.“

Hér er fjallað um sviðsetningar og beinar ræður í bréfum og  dagbókum Þóru Pétursdóttur Thoroddsen (1847-1917). Þóra var dagbóka- og bréfritari sem endurskapaði aðstæður og reynslu sína með nákvæmum lýsingum á sjálfum sér og umhverfi sínu.  Stíll hennar er hraður og stundum óreiðukenndur en eitt megineinkenni þessara lýsinga er galsi og grín. Spaugað er með tungumál og mannslíkama en spaugið gegnir meðal annars því hlutverki að breiða yfir þá togstreitu sem fylgdi því að vera ólofuð biskupsdóttir í Reykjavík á síðari hluta 19. aldar. Þótt sjálfsöryggi Þóru sé líklega forsenda þess hversu frjálslega hún tjáði sig í texta er stíll hennar og framsetning líka merki um óöryggi eða öllu heldur skort á fyrirmyndum að sendibréfum kvenna og gæti að einhverju marki varpað ljósi á talmál við ákveðnar aðstæður, til dæmis í þröngum hópi. Slíkar heimildir gefa 19. öldinni í sögu Íslands nýja áferð og er gildi þeirra nokkuð því íslensk skáldsagnahefð var þá lítt þróuð.

Halldór Guðmundsson, bókmenntafræðingur og rithöfundur.
„Viðtöl, bréf og velktar myndir. Um heimildir við ævisagnaritun.“

Svissneski rithöfundurinn Max Frisch segir á einum stað að fyrr eða síðar búi sérhver maður til sögu sem hann heldur vera líf sitt. Þess vegna á „sannleikurinn“ oft erfitt uppdráttar í ævisögum, ólíkt því sem lesendur halda. Þær lúta sumpart lögmálum fagurbókmennta, að því leyti að hver sá sem skrifar ævisögu þarf að byrja á því að skapa tvær persónur, viðfangsefnið og sögumanninn. Og hvor um sig, sögumaður og fórnarlamb, lúta þeim lögmálum sem Frisch nefnir. Þetta er augljóst þegar viðfangsefnið er á lífi, og ævisagnaritunin verður eins konar glíma um sannleikann milli sögumanns og aðalpersónu, en því fer fjarri að einhver sannleikur sé borðleggjandi í verkum, þar sem höfundur styðst við bréf og aðrar ritaðar heimildir sem eru ekkert síður óáreiðanlegar en hin munnlega frásögn. Í erindinu ræðir höfundur þennan vanda út frá ýmiss konar ævisögulegum verkum sem hann hefur skrifað.

***

Guðrún Nordal, prófessor í íslenskum bókmenntum fyrri alda og forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum við Háskóla Íslands.
„Svarið Steinvarar: Um systur og eiginkonur Sturlunga.“

Sturlunga er fáorð um bókmenntaiðkun kvenna á þrettándu öld. Aðeins er vitnað í eina vísu eftir konu í safninu öllu, og er skáldið ónafngreint, en nokkuð er um að draumkonur kveði vísur eða að kveðið sé til kvenna. Í Sturlungu eru dregnar upp eftirminnilegar myndir af systrum og eiginkonum þeirra Sturlusona eða sona þeirra. Í erindinu verður gerð tilraun til að tengja þær konur við skáldskap, bókmenntaiðkun og sagnaskemmtun. Margar konur koma við sögu, Halldóra Tumadóttir, Solveig Jónsdóttir, Hallveig Ormsdóttir og Helga Sturludóttir, en sjónum verður einkum beint að Helgu Þórðardóttur, konu Sturlu Þórðarsonar, og Steinvöru Sighvatsdóttur, systur Sturlu Sighvatssonar.

Jón Karl Helgason, doktor í samanburðarbókmenntum og dósent við íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands.
„Sögusagnir: Sjónarhorn á íslenskar miðaldabókmenntir.“

Í fyrirlestrinum verður fjallað um að hve miklu marki íslenskar miðaldabókmenntir fjalla um tungumálið, sína eigin tilurð, skáldskaparfræði og viðtökur. Rætt verður um viðamiklar rannsóknir Helgu Kress á þessu efni en auk þess vísað í skrif bandaríska fræðimannsins Laurence de Looze og Eddu Snorra Sturlusonar.

Sveinn Yngvi Egilsson, prófessor í íslenskum bókmenntum við Háskóla Íslands.
„Náttúra Huldu.“

Náttúran er nálæg í mörgum ljóðum Huldu og hún verður tekin til athugunar í erindinu. Fjallað verður um ljóðin í ljósi vistrýni (ecocritism) og leitast við að sýna margbreytileika náttúrunnar eins og hún birtist í skáldskapnum. Náttúra Huldu getur verið nálæg og allt að því áþreifanleg í ljóðunum, enda var skáldkonan nákomin náttúrunni og kunni að lýsa henni með einstaklega glöggum hætti. Náttúra Huldu getur falið í sér sterka samsömun og staðið fyrir mannlega – ekki síst kvenlega – eiginleika og tengst tilfinningum og minningum. Náttúran getur líka verið táknræn og allt að því annarsheimsleg í ljóðum Huldu. Að því leyti má segja að hún sé dæmi um það sem kallast innra landslag (interior landscape) og hefur verið talið eitt helsta einkenni á náttúruljóðum nútímans.

Guðni Elísson, prófessor í almennri bókmenntafræði við íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands.
„Ofríki, illgirni og dómgreindarskortur. Þrjár kvenlegar dyggðir í ríki kreppunnar.“

„Ég vil […] halda því fram að heimspekileg hugsun, gagnrýnin og teoretísk umfjöllun um íslenskar bókmenntir og frásagnarhefð vegi að opinberri sjálfsmynd þjóðarinnar og þeirri karlmennskuímynd sem heldur henni uppi“, sagði Helga Kress á miðjum tíunda áratug síðustu aldar. Í yfirlýsingunni mátti greina viðmið sem mótað höfðu greiningu Helgu á íslenskri menningu í hartnær tvo áratugi og gert æ síðan.

***

Steinunn Sigurðardóttir, rithöfundur og ljóðskáld.
„Óttinn við áhrif. Frá Málfríði til Málfríðar.“

Í fyrirlestrinum spyr Steinunn: Hvar væri hægt að finna fyrirmyndir Málfríðar Einarsdóttur í ritmennskunni?  Og hvers vegna dró einn kvenrithöfundur það í áratugi að viðurkenna Málfríði sem fyrirmynd og áhrifavald?

Dagný Kristjánsdóttir, prófessor í íslenskum nútímabókmenntum við Háskóla Íslands.
„Hulda og Halldór.“

Í þessum fyrirlestri er sjónum beint að kvenlýsingum í verkum Halldórs Laxness, einkum Huldu í Barni náttúrunnar og öðrum ósiðfáguðum kvenpersónum.  Í þeirra hópi eru ungar tröllkonur eins og Jasína Gottfreðlína og Magnína á Fæti og eldri tröllkonur eins og Sigurlína í Sölku Völku og  Kolbrún í Gerplu. Hvernig eigum við að skilja þessar kvenmyndir, eru þær kvenmyndir eilífðarinnar?

Sigríður Þorgeirsdóttir, prófessor í heimspeki við Háskóla Íslands.
„Er Moby Dick ‘máttug mær’? Um kreppu karlmennsku og kynjasamskipta í hvalveiðisögu Melville.“

Löngum hefur verið litið á sögu Melville um hvalveiðar og hvalveiðimenn sem karlaskáldsögu, en Lewis Mumford skrifaði á sínum tíma að það vantaði kvenkynið í þessa sögu. Síðari túlkanir hafa ekki andmælt því viðhorfi að konur séu að mestu fjarverandi á sögusviðinu, en þær hafa varpað ljósi á atburðarásina sem glímu afla sem hafa verið tengd karl- og kvenleika í sögu vestrænnar menningar. Sigríður mun greina þessi átök sögunnar m.a. með hliðsjón af skrifum Helgu Kress, Camillu Paglia, Luce Irigaray og fleiri túlkunum á kynjavíddum Moby Dick. Felur sagan hugsanlega í sér hugleiðingu um kreppu tiltekinnar gerðar karlmennsku og kreppu kynjasamskipta?