Staða kvenna innan skógræktarnefnda í Nepal

Fimmtudaginn 26. september verður rabbfundur á vegum Rannsóknastofu í kvennafræðum. Herdís Friðriksdóttir skógræktarráðunautur flytur erindið Staða kvenna innan skógræktarnefnda í Nepal. Rabbið fer fram í stofu 101 í Lögbergi kl. 12-13 og er öllum opið.

Herdís segir frá rannsókn sinni á hlut kvenna í landnýtingu í Nepal. Þar í landi eru svokallaðar skógræktarnefndir ráðandi um nýtingu skóga en í þeim sitja nær eingöngu karlar. Erfitt hefur verið að fá konur til starfa innan nefndanna, m.a. vegna menningarhefða. Herdís hefur skoðað hvort svokallaðir kvennahópar geti hjálpað konum til áhrifa innan þessara nefnda þannig að þær hafi eitthvað að segja um nýtingu þess lands sem þær og fjölskyldur þeirra lifa af.