Arnfríður Guðmundsdóttir er fyrsti fyrirlesari fyrirlestraraðar RIKK á haustmisseri 2020 og nefnist fyrirlestur hennar „Spurning um réttlæti og von. Viðbrögð femíniskrar guðfræði við yfirvofandi hamfarahlýnun.“

Fyrirlesturinn verður rafrænn og stofnaður hefur verið viðburður á Facebook þar sem hann verður birtur fimmtudaginn 1. október.

Að fyrirlestri loknum verður upptakan gerð aðgengileg á heimasíðu RIKK og youtube-rás Hugvísindasviðs.

Í fyrirlestrinum mun Arnfríður annars vegar tala um viðbrögð femíniskra guðfræðinga við ógninni sem fylgir breyttu loftslag og hins vegar áhrif af hlýnun jarðar á líf kvenna sem búa við bágar aðstæður, hvort sem er á suðurhveli jarðar eða á norðurslóðum. Rannsóknir benda til þess að hlýnandi loftslag hafi önnur og alvarlegri áhrif á líf kvenna en karla. Þá hefur það einnig verið gagnrýnt hvernig kynjaslagsíða eða kynjablinda hafi áhrif á rannsóknir og túlkun á niðurstöðum rannsókna um loftlagsmálin, eins og t.d. má greina í umburðarbréfi Frans páfa, Laudato Si‘ (2015). Engin fræðigrein er stikkfrí þegar kemur að þeim risavaxna vanda og verkefni sem við sem mannkyn stöndum nú frammi fyrir. Guðfræðin er þar ekki undanskilin. Hið sístæða hlutverk guðfræðinnar er að túlka boðskap kristinnar trúarhefðar inn í nýjar aðstæður, síbreytilegt sögulegt samhengi. Eitt af kjarnaatriðum kristinnar trúar er trúin á Guð, sem er „skapari himins og jarðar, alls hins sýnilega og ósýnilega.“ Þannig er áréttað að það er ekkert á himni og jörðu sem er Guði óviðkomandi. Guðfræðingar sem vinna við túlkun hefðarinnar á fyrri hluta 21. aldar hljóta að taka mið af þessu og þess vegna láta sig varða um þá miklu hættu sem gjörvallt sköpunarverkið stendur frammi fyrir í dag og þá framtíð sem bíður komandi kynslóða.

Arnfríður Guðmundsdóttir er prófessor í samstæðilegri guðfræði með áherslu á kvennaguðfræði við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Hugvísindasviðs Háskóla Íslands. Hún lauk embættisprófi í guðfræði frá HÍ 1986 og doktorsprófi frá Lutheran School of Theology í Bandaríkjunum 1996. Hefur skrifað fjölda greina og bókakafla, á ensku og íslensku, um guðfræðileg málefni, þar á meðal um umhverfisguðfræði, hlutverk kvenna í kirkjunni fyrr og nú, trúarleg stef í kvikmyndum og lútherska guðfræði. Arnfríður er höfundur Meeting God on the Cross. Christ, the Cross, and the Feminist Critique, sem var gefin út af Oxford University Press, árið 2010.

Hádegisfyrirlestraröð RIKK á vormisseri 2020 er tileinkuð femínískri sýn á loftslagsvandann.

Fyrirlestraröðin er haldin í samvinnu við Þjóðminjasafn Íslands.