30. október kl. 12:00-13:00 flytur Helga Kress fyrirlesturinn „Sifjaspell á 15. öld. Hvassafellsmál í samtíð, sögu og bókmenntum“ í stofu 104 í Háskólatorgi.

Fjallað verður um svokölluð Hvassafellsmál (í Eyjafirði) á síðari hluta 15. aldar þar sem feðgin (faðir og ung dóttir) voru kærð fyrir sifjaspell og málaferlin sem út af þessu spunnust. Frumheimild eru skjöl í Íslensku fornbréfasafni og einnig er lítillega sagt frá málinu í samtímaannálum.Athyglisvert er að þau eru bæði kærð, þótt augljóst megi vera að það er faðirinn/karlinn sem misnotar stúlkuna (13 ára). Þá verður rakið hvernig um málið hefur verið fjallað í síðari tíma sagnfræði og einnig bókmenntum, Málið verður rakið gegnum söguna, t.d. skáldsögu Jónasar Jónassonar frá Hrafnagili, Randíður á Hvassafelli, frá 1892. Gerður verður greinarmunur á hugtökunum sifjaspellum (skyldleika aðila) og pedofílíu (barnagirnd) sem geta fallið saman en merkja ekki það sama. Bæði eru þessu minni algeng í íslenskum bókmenntum og má rekja þau allt til Íslendingasagna og gamalla lagatexta, svo sem skriftaboða. Það kemur einnig ótrúlega oft fyrir hjá Halldóri Laxness (t.d. í Sölku Völku, Sjálfstæðu fólki, Heimsljósi og Íslandsklukkunni) þar sem það gegnir miklu hlutverki í frásögninni. Áherslan verður á orðræðugreiningu (diskúrs), hvernig frá þessu er sagt (eða ekki sagt), með hvaða orðum, frá hvaða sjónarhorni og á hvaða myndmáli, en áberandi er að gerðir karlsins eru oftast réttlættar og/eða afsakaðar með einhverju móti, jafnvel rómantíseraðar.