Samtvinnun kyngervis og kynhneigðar og hinsegin rannsóknir

jon_ingvar_kjaran_1Föstudaginn 15. nóvember flytur Jón Ingvar Kjaran, doktorsnemi á Menntavísindasviði við HÍ, fyrirlestur sem ber heitið „Samtvinnun kyngervis og kynhneigðar og hinsegin rannsóknir“. Fyrirlesturinn fer fram í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins, kl. 12:00-13:00.

Innan hinsegin- og kynjafræða hefur á undanförnum áratugum verið talsverð umræða um hvernig kynhneigð og kyngervi samtvinnast þegar kemur að mótun sjálfsmyndar og/ eða kúgun jaðarhópa innan samfélagsins. Sumir fræðimenn hafa lagt áherslu á mikilvægi kyngervis í stað kynhneigðar á meðan aðrir hafa lagt áherslu á kynhneigð frekar en kyngervi þegar kemur að kúgun (undirokun) jaðarhópa. Í fyrirlestrinum mun Jón Ingvar draga saman þessa umræðu en jafnframt ræða hugtak Judith Butler um hið gagnkynhneigða mót (e. heterosexual matrix). Hann mun einnig fjalla um doktorsrannsókn sína á stöðu hinsegin ungmenna í íslenskum framhaldsskólum og nefna dæmi sem varpa ljósi á það hvernig orðræðan um kynhneigð og kyngervi getur haft mótandi áhrif á þau og viðhorf þeirra til umhverfisins. Greining á samtvinnun kynhneigðar og kyngervis dregur fram undirliggjandi þræði valds sem mótar okkur og agar, en þar skapast jafnframt tækifæri til að trufla ríkjandi orðræðu.

Fyrirlesturinn er haldinn í samstarfi við Þjóðminjasafn Íslands.

Öll velkomin!