Gústav Adolf Bergmann Sigurbjörnsson er fyrsti fyrirlesari fyrirlestraraðar RIKK – Rannsóknastofnunar í jafnréttisfræðum á haustmisseri 2021. Fyrirlestur Gústavs nefnist „Samskipti og samkennd: #MeToo á mörkum reynsluheima” og verður haldinn kl. 12.00-13.00 þann 14. október í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands.

 

Í fyrirlestrinum mun Gústav kynna fyrirbærafræðilegar nálganir á skilningi okkar á öðru fólki og reifa tengsl samkenndar og samskipta. Hann mun sýna hvernig skilningur á samþættingu þessara tveggja fyrirbæra gefur okkur fyllri mynd af því í hverju það felst að trúa þolendum. Hann mun draga upp mynd af því sem hann kallar vitnisburðarvæðingu frásagnarinnar og hvernig hún spilar stóran þátt í því hvernig okkur mistekst að skilja hvert annað. Hann mun sýna fram á hvernig skilningur á sambandi samskipta og samkenndar dýpkar skilning okkar á tjáningu mismunandi reynsluheima og hvernig þetta síðarnefnda er eitt þeirra stóru verkefna sem gerir #MeToo svo mikilvægt.

 

Gústav er doktorsnemi í heimspeki og stundakennari við Háskóla Íslands. Hann rannsakar samskipti og samskiptavanda út frá sjónarhornum fyrirbærafræði og félagsþekkingarfræði.

 

Katrín Ólafsdóttir er fundarstjóri.

 

Að fyrirlestri loknum verður upptaka gerð aðgengileg á heimasíðu RIKK og Youtube-rás Hugvísindasviðs.

 

25. ágúst á þessu ári voru liðin 30 ár frá stofnun RIKK, eða Rannsóknastofu í kvennafræðum eins og stofnunin hét á fyrstu starfsárum sínum. Að því tilefni tekur hádegisfyrirlestraröð stofnunarinnar á haustmisseri 2021 stöðuna á jafnréttisrannsóknum þar sem litið er til þess hvert kvenna-, kynja- og jafnréttisrannsóknir stefna með áherslu á nýja rannsakendur á sviðinu. Umfjöllunarefni fyrirlestrana eru fjölbreytt og endurspegla breiddina í jafnréttisrannsóknum.

 

Frekari upplýsingar um fyrirlestraröðina má finna á heimasíðu RIKK – rikk.hi.is – og Facebook-síðu stofnunarinnar auk þess sem hægt er að skrá sig á póstlista RIKK og fá tilkynningar um viðburði senda í tölvupósti.