Gerður Róbertsdóttir

Gerður Róbertsdóttir, sagnfræðingur og verkefnastjóri á Borgarsögusafni Reykjavíkur, flytur erindið Saltstólpar eða …? – Viðhorf kvenna á sjöunda áratug 20. aldar, fimmtudaginn 30. nóvember, kl. 12-13 í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands.
Erindið byggir hún á nýlegri MA ritgerð sinni þar sem skoðuð voru viðhorf kvenna til jafnréttismála á árunum 1960 til 1969. Einkum var stuðst við blaðagreinar skrifaðar af konum á þessum árum. Fyrir 1970 var kynjakerfið hér á landi staðnað. Ríkjandi hugmyndir gengu út frá því að karlar væru fyrirvinnur en konur húsmæður. Markmið ritgerðarinnar var einkum að varpa ljósi á hugmyndir kvenna um hlutverk kvenna og kvenleikann. Með því að rýna í og greina blaðaskrif kvenna á þessum árum var skoðað hvort hrikt hafi í stöðnuðu kynjakerfi, hvort nýjar hugmyndir um hlutverk kvenna hefðu verið farnar að skjóta rótum á þessum tíma, á árunum áður en rauðsokkurnar komu fram, og hvort nýr kvenleiki hafi þá þegar verið í burðarliðnum. Voru konur á þessum árum eins og saltstólpar, voru þær enn að gangast undir íhaldssöm viðhorf og samsama sig hefðbundnum hlutverkum eða voru þær farnar að andæfa og gagnrýna staðnað kynjakerfi?
Erindið er flutt á íslensku og aðgangur er öllum opinn og ókeypis.
Finndu viðburðinn á Facebook!