image001Út er komin bókin Retrenchment or renewal? Welfare states in times of economic crisis. Bókin er gefin út í ritröð norræna öndvegissetursins NORDWEL (The Nordic Welfare State – Historical Foundations and Future Challenges) sem stendur að útgáfu bókarinnar ásamt öndvegissetrunum REASSESS og EDDU. Ritstjórar eru Guðmundur Jónsson prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands og Kolbeinn Stefánsson félagsfræðingur og starfsmaður Hagstofu Íslands.

Efnahagskreppan sem reið yfir heimsbyggðina árið 2008 hefur verið velferðarríkjum þung í skauti og skekið fjárhagslegar, félagslegar og stjórnmálalegar undirstöður þeirra. Bókin fjallar um áhrif kreppunnar á velferðarríkin á Vesturlöndum og félagsmálastefnu þeirra. Hvernig brugðust ríkin við kreppunni á sviði velferðarmála? Hefur kreppan haft sömu áhrif á stöðu karla og kvenna? Markar kreppan upphaf aðhaldsstefnu og niðurskurðar í velferðarkerfum eða eru vísbendingar um að nýtt tímabil félagslegra umbóta sé að hefjast?

Í bókinni eru 16 greinar eftir 20 fræðimenn frá ýmsum löndum og úr ýmsum greinum hug- og félagsvísinda. Í fyrsta hlutanum er fjallað um kreppur í víðu sögulegu samhengi, þróun velferðarhugtaksins og þátt vaxandi ójöfnuðar í efnahagshruninu 2008. Annar hlutinn fjallar um pólitísk viðbrögð við keppunni og afleiðingar hennar á félagslega velferð. Í þriðja hluta er beitt kynjafræðilegu sjónarhorni og rætt um áhrif kreppunnar á viðhorf til kynhlutverka og stöðu kvenna og karla. Í fjórða hluta er fjallað um almennar stjórnmálalegar breytingar í kjölfar kreppunnar og að hvaða marki hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar hefur haldið velli.

Lesandinn fær góða yfirsýn yfir samspil efnahagsáfalla og velferðarkerfa á undanförnum árum en í bókinni er einnig er að finna ítarlegar rannsóknir á afmörkuðum þáttum kreppunnar og einstökum löndum. Þau lönd sem sérstaklega eru skoðuð eru Bandaríkin, Bretland, Danmörk, Finnland, Írland, Nýja-Sjáland og Ungverjaland – að ógleymdu Íslandi sem fjallað er um í fjórum köflum. Höfundar þeirra eru Guðmundur Jónsson, Ingólfur V. Gíslason, Magnús Sveinn Helgason, Stefán Ólafsson og Vilhjálmur Árnason.