Reynsla kvenna af fíknimeðferð

Markmið rannsóknarinnar er að skoða reynslu kvenna af vímuefnameðferð hér á landi með tilliti til líðanar og öryggis í meðferð, árangurs meðferðarinnar og úrræða í boði. Undirmarkmið er að skoða sögu kvennanna með sérstöku tilliti til erfiðra upplifana í æsku og hvort að þær eigi sögu um ofbeldi í nánum samböndum.

Meðferð við vímuefnafíkn á Íslandi hefur að miklu leyti byggst á hugmyndafræði 12 spora samtaka hingað til, ef meðferð á Landspítala er undanskilin. Þar er hugræn athyglismeðferð grundvöllur meðferðarinnar. Þó að nokkrar breytingar hafi verið á áherslum meðferðarinnar á undangengnum árum og kynjasjónarmið séu nú tekin til skoðunar í meðferðinni er engin meðferð í boði fyrir konur eingöngu þar sem byggt er á nýjustu þekkingu um kynjamiðaða meðferð og lengst af hefur skort á þekkingu á sértækum vanda kvenna með fíknivanda og aðferðum við að taka á þeim vanda. Þetta er ekki séríslenskt vandamál en eins og kemur fram hjá Salter og Beckenridge (2014) virðist sem sú þekking sem til er á kynjamiðaðri meðferð ekki vera nýtt í meðferðarstarfi og því einkennist mikið af meðferðarframboði af kynjablindu. Rannsóknin horfir því til þeirrar þekkingar sem til er um kynjamiðaða og áfallameðvitaða meðferð og upplifun þjónustuþega í meðferð.

Nálgunin í rannsókninni er þverfræðileg og verður leitast við að nýta ólíkar rannsóknaraðferðir og áherslur til að bæta þekkingu á sértækum vanda kvenna í meðferð.

Rannsóknarspurningar eru eftirfarandi:

  • Hver er reynsla íslenskra kvenna af áfengis- og fíkniefnameðferð?
  • Er tekið tillit til sértæks vanda kvenna í meðferðinni?
  • Upplifa konurnar öryggi í meðferðinni?
  • Var konunum vísað í önnur úrræði vegna fjölþætts vanda?
  • Var tekið á fjölþættum vanda í meðferðinni? Hvernig?

Áherslur í rannsókninni eru annarsvegar áhersla á konur sem nýta sér meðferðarþjónustu og hins vegar á hagnýti rannsóknarinnar.

Tekin verða viðtöl við 12 konur sem farið hafa í gegnum fíknimeðferð og leitast við að kanna sögu þeirra, reynsluheim og upplifun af meðferðarkerfinu og hins vegar er reynsla kvenna könnuð með spurningakönnun sem send er á félaga í Rótinni – félags um málefni kvenna með áfengis- og fíknivanda og fleiri.

Reynsla kvenna af meðferðarkerfinu hefur lítið sem ekkert verið rannsökuð hérlendis til. Erlendar rannsóknir og skimanir á íslenskum meðferðarstöðum sýna að konur sem koma til meðferðar eiga við fjölbreyttan vanda að stríða og stærstur hluti þeirra á að baki sögu um ofbeldi sem ekki er brugðist við í meðferðinni. Því er rannsóknin mikilvægur liður í því að kanna reynslu kvenna á upplifun og árangri meðferðar. Rannsóknin mun nýtast til að bæta meðferðarstarf á Íslandi, konum til góða.

Leitast er við að greina þætti sem trufla bataferli kvenna með fíknivanda og í framhaldi bæta úrræði fyrir þennan hóp. Rannsóknir sýna að það sjónarhorn, sem hefur verið ríkjandi í meðferð hér á landi, að áfallameðferð gagnist ekki í áfengismeðferð eigi ekki við rök að styðjast. Í rannsókn á áhrifum meðferðar vegna fjölkvilla kemur fram að áfallameðferð virkar vel fyrir fólk með fíknivanda en fíknimeðferð virkar hins vegar ekki á áfalla­vandann (Multi-site randomized trial of behavioral interventions for women with co-occurring PTSD and substance use disorders. 2010.Sjá: http://www.ncbi.nlm.nih.gov/pmc/articles/PMC2795638/#!po=38.6364.) Þessar niðurstöður stangast á við það sem hingað til hefur verið haldið fram að fyrst þurfi að vinna með fíknivandann og taka á öðrum vanda síðar. Rannsóknin bendir til þess að áfallastreitumeðferð bæti gæði áfengismeðferðar.

Litlar rannsóknir hafa farið fram hér á landi á reynslu kvenna af vímuefnameðferð. Skimun á ofbeldissögu hefur að einhverju leyti verið framkvæmd á meðferðarstöðum og leiddi hún í ljós að einhverjar upplýsingar eru til um sögu þeirra þegar þær koma til meðferðar og tölfræði um komur í meðferð. Hins vegar hafa ekki verið gerðar rannsóknir á upplifun kvennanna sjálfra af meðferðinni þar sem bakrunnur þeirra er skoðaður með tilliti til áfallasögu og fjölþætts vanda. Í skýrslu heilbrigðisráðherra um heilsu kvenna, frá árinu 2000, (Heilbrigðis- og tryggingaráðuneytið. (2000). Heilsufar kvenna. Álit og tillögur nefndar um heilsufar kvenna. Sjá: https://www.velferdarraduneyti.is/media/Skyrslur/Heilsa_kvenna.pdf) er þó vísað í rannsókn Ásu Guðmundsdóttur, sálfræðings, þar sem fram kemur að aðstæður kvenna sem koma til meðferðar séu mjög frábrugðnar aðstæðum karla. Einnig kemur fram að félagsleg staða kvenna sem koma til meðferðar sé bág, þær séu oft einar með börn á framfæri, atvinnulausar eða á örorkubótum og oft er núverandi eða fyrrverandi maki einnig með vímuefnavanda. Þá segir: „Helmingur kvennanna hafði orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi í æsku. Andleg vanlíðan er aðalástæða þess að þær leita sér aðstoðar en ekki félagslegir þættir eins og er vanalegra hjá körlum.“ (Sjá einnig: Ása Guðmundsdóttir, 1997. „Tilfinningaleg vandamál kvenna í áfengismeðferð“ í Íslenskar kvennarannsóknir – Erindi flutt á ráðstefnu í október 1995, ritstj. Helga Kress og Rannveig Traustadóttir, útg. Rannsóknastofa í kvennafræðum).

Í skýrslu sem unnin var fyrir félags- og tryggingamálaráðuneytið 2010 (Ingólfur V. Gíslason (2010). Rannsókn á ofbeldi gegn konum. Viðbrögð heilbrigðisþjónustunnar. RBF) segir um konur sem koma til meðferðar á Vog að almennt sé ekki gerð leit að konum sem búa við ofbeldi t.d. (bls. 9) en á Vogi hefur verið skimað eftir misnotkun og ofbeldi: „Í fyrsta lagi er ofbeldi nokkuð sameiginlega reynsla kvenna sem leita á Vog, þær hafa langflestar verið beittar einhverju ofbeldi. Raunar var það samdóma álit viðmælenda, bæði á Vogi og í áhættumeðgöngunni hjá Landspítalanum, að konur sem væru í mikilli neyslu væru með ofbeldi sem „sjálfsagðan“ þátt í sínu lífi og raunar eitthvað sem þær upplifi yfirleitt ekki sem sitt megin vandamál. Þannig var talið að a.m.k. 70 – 80% þeirra kvenna sem stríddu við fíkn hefðu verið beittar einhverju ofbeldi.“

Hafa ber í huga að konurnar eru bara spurðar um reynslu af ofbeldi þegar þær koma inn í meðferðina og skráningunni er ekki breytt síðar. „Þannig að ef kona neitar því í upphafi að hafa verið beitt ofbeldi þá stendur sú skráning jafnvel þó það komi fram síðar í meðferðinni að hún sé vissulega þolandi ofbeldis.“ Því má ætla að sá hluti kvenna sem kemur til meðferðar sem hefur orðið fyrir ofbeldi sé stærri en umrædd 70-80%.

Í erlendum rannsóknum blasir sama mynd við og þrátt fyrir að núverandi þekking á áhrifum kyns á þróun fíknivanda, og að skynsamlegt sé að meðhöndla hann í því samhengi, virðist sem meðferð sé oftar en ekki veitt án vitundar um kynjasjónarmið. Salter og Beckenridge vilja meina að sú leið að bjóða meðferð sem ætlað er að vera sniðin að allra þörfum (e. one size fits all) horfi fram hjá þörfum kvenna fyrir meðferð sem tekur á ofbeldi í nánum samböndum, geðrænum vanda og foreldrahlutverki. Refsandi meðferðarmenning sem miðar að breyttri hegðun hefur önnur áhrif á konur, sérstaklega þær sem hafa orðið fyrir misnotkun og ofbeldi, en karla. Þjónusta sem býr að þekkingu á margslunginni sögu kvenna er líklegri til að leiða af sér jákvæðar breytingar og opna á tækifæri til að taka á fjölþættum og flóknum þörfum sem ekki sé mætt í ósérhæfðri meðferð. (Michael Salter y Jan Breckenridge. 2013. „Women, trauma and substance abuse: Understanding the experiences of female survivors of childhood abuse in alcohol and drug treatment.“ International Journal of Social Welfare, 23. árgangur, 2. hefti, bls. 165-173.)

Kyn er þannig mikilvægur áhrifaþáttur á þróun fíknar og rannsóknir sýna að þau vandamál sem fylgja fíknivanda leggjast oft þyngra á konur en karla vegna félagsmótunar og kynhlutverka. Í bókinni Women, girls and Addiction. Celebrating the Feminine in Counseling Treatment and Recovery er ítarlega fjallað um konur og fíkn út frá femínískum kenningum og bent á að þó að mikið hafi áunnist í jafnréttisbaráttu þá sé það enn svo að konur í vestrænum samfélögum séu jaðarsettar og kúgaðar. „Kúgunin sem konur með fíknivanda verða fyrir er flókin, margþætt og kerfisbundin. Það er ekki hægt að meðhöndla fíkn eina og sér (þ.e. án þess að taka tillit til geðheilsuvanda, menningaráhrifa eða líkamlegrar heilsu) …“ (Briggs, Cynthia A., Jennifer L. Pepperell. Women, girls and Addiction. Celebrating the Feminine in Counseling Treatment and Recovery. New York, Routledge, 2009:5.)

Rannsóknarhópur

Kristín Pálsdóttir er verkefnisstjóri RIKK við Háskóla Íslands. Kristín er með B.A. próf í spænsku og ferðamálafræði, M.A. próf í ritstjórn og útgáfufræði. Kristín var talskona Femínistafélags Íslands á árunum 2009-2012 og er nú talskona Rótarinnar, félags um málefni kvenna með áfengis og fíknivanda. Hún hefur starfað að verkefnastjórn og rannsóknum hjá RIKK síðan haustið 2014.

Sæunn Kjartansdóttir er hjúkrunarfræðingur og hefur lokið réttindaprófi í sálgreiningu frá Arbours Association í London árið 1992 og hefur starfað sem sálgreinir á eigin meðferðarstofu frá árinu 1992. Hún starfaði sem hjúkrunarfræðingur á Borgarspítala og geðdeildum Kleppsspítala og Landspítala á árunum 1979-1987, sem hjúkrunarfræðingur og sálgreinir á dagdeild geðdeildar Sjúkrahúss Reykjavíkur á tímabilinu 1992-2000 og sem ráðgjafi á neyðarmóttöku þess 1993-1998 og sem handleiðari fyrir hjúkrunarfræðinga og lækna neyðarmóttökunnar. Hún er höfundur þriggja bóka um sálarfræði.

Anna María Jónsdóttir er geðlæknir á geðsviði Landspítala og hjá Miðstöð foreldra og barna. Hún hefur starfað með teymi á Landspítala – Háskólasjúkrahúsi sem hefur sérhæft sig í meðferð og aðstoð við foreldra sem eiga við geðraskanir að stríða sem hefur verið í formlegu samstarfi við fíkniskorina á Teigi sem hefur gert kleift að veita foreldrum með fíknivanda sömu aðstoð.

Katrín G. Alfreðsdóttir er með meistaragráðu í félagsráðgjöf og viðbótarnám í fjölskyldumeðferð. Hún er jafnframt að ljúka námi í EMDR sem er sálfélagsleg meðferð sem þróuð er til að vinna úr afleiðingum áfalla hjá einstaklingum. Katrín starfaði sem félagsráðgjafi á fíknigeðdeild Landspítalans og sem sjálfboðaliði hjá Rauða kross Íslands í Konukoti og í verkefninu Frú Ragnheiður sem byggir á hugmyndafræði skaðaminnkunar og hefur þann tilgang að ná til jaðarhópa samfélagsins með heilbrigðisþjónustu án fordóma. Hún er í ráði Rótarinnar.