Rannsóknaverkefni um tilflutning kvenna milli svæða á Íslandi og félagslegar og atvinnulegar aðstæður þeirra

Rannsóknaverkefni um tilflutning kvenna milli svæða á Íslandi og félagslegar og atvinnulegar aðstæður þeirra (e. Gendered Outcome of Socio-Economic and Occupational Restructuring).

Í verkefninu er lögð áhersla á að kanna afstöðu kvenna til atvinnumöguleika á strandsvæðum þar sem miklar efnahagsbreytingar eiga sér nú stað. Áhersla er lögð á að skoða þær hindranir sem konur þurfa að glíma við á vinnumarkaði í samanburði við karla. Fækkun kvenna á barnseignaraldri í þessum sjávarbyggðum getur dregið úr möguleikum slíkra byggða til atvinnusköpunar og efnahagsþróunar. Í rannsókninni er sérstaklega hugað að búferlaflutningum kvenna frá jaðarsvæðum og hvernig það getur haft áhrif á sjálfbærni viðkomandi samfélaga. Sérstaklega verður leitað svara við því hvernig konur meta möguleika sína varðandi atvinnu í þeim breytingarferlum sem nú eru að eiga sér stað í sjávarbyggðum landsins, og hvaða þættir skipi þær mestu máli þegar ákvarðanir eru teknar um búsetu.

Húsavík var valin sem vettvangur rannsóknar þar sem þar er dæmi um byggðarlag sem hefur byggt afkomu sína á sjávarútvegi en hefur gengið í gegn um umtalsverðar breytingar varðandi atvinnulíf síðustu tvo áratugi. Vettvansrannsókn var framkvæmd á Húsavík í ágúst 2009 þar sem tekin voru viðtöl við 16 konur með fjölbreytilegan menntunarlegan bakgrunn; konur sem voru á ólíku aldursskeiði; og konur sem höfðu hafið eigin atvinnurekstur. Úrvinnsla rannsóknargagna stendur nú yfir. Verkefnið er unnið í samstarfi þeirra Önnu Karlsdóttur, lektors í landafræði og Auðar H. Ingólfsdóttur, MA í stjórnmálafræði. Verkefnið var fjármagnað af RIKK.