HG myndFöstudaginn 25. apríl flytur Hólmfríður Garðarsdóttir, prófessor í spænsku við HÍ, fyrirlestur sem ber heitið „Pilsaþytur í forsetahöllum Rómönsku Ameríku: Fjölgun kvenforseta í álfunni“. Fyrirlesturinn fer fram í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins, kl. 12:00-13:00.

Í dag gegna fjórar konur starfi forseta í löndum Rómönsku Ameríku. Það vekur sérstaka athygli, ekki síst þegar rótgróin karlrembu-ímynd álfunnar er höfð í huga. Í fyrirlestrinum skoðar Hólmfríður þessa stöðu í samhengi við sögu þeirra kvenna sem gegnt hafa forsetaembættum í löndum Rómönsku Ameríku á seinni hluta 20. aldar. Einnig verður leitast við að svara því hvort það hafi skipt máli að fleiri konur hafa komist til valda í löndum álfunnar og hverju þær hafa áorkað.

Fyrirlesturinn er haldinn í samstarfi við Þjóðminjasafn Íslands.

Öll velkomin!