Óþekk(t)ar ömmur á faraldsfæti

Annadís Gréta RúdólfsdóttirLaugardaginn 12. september flytur Annadís Gréta Rúdólfsdóttir, lektor í aðferðafræði rannsókna við Háskóla Íslands, fyrirlesturinn „Óþekk(t)ar ömmur“ í Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra á Skagaströnd, kl. 14-15.
Gerð er grein fyrir ævi nútímakvennanna Fanneyjar Bjarnadóttur (1913-2008) og Svövu Sigurðardóttur (1914-2012). Báðar voru fæddar utan hjónabands og voru lágt settar í stigskiptu kerfi samfélagsins. Í fyrirlestrinum er skoðað hvernig félagslegt auðmagn (e. social capital) hafði afgerandi áhrif á möguleika þeirra til að ná fram draumum sínum og þrám. Þær gegndu hlutverkum móður og eiginkonu en voru einnig kynverur og neytendur samtímamenningar. Lífshlaup þeirra er sett í samhengi við hefðbundna hugmyndafræði um hina „góðu móður“ og hvernig þær hugmyndir hafa haft áhrif á afstöðu afkomenda til þeirra og þær minningar sem lifa um þær.
Fyrirlesturinn er hluti af fyrirlestraröðinni „Margar myndir ömmu“ hjá RIKK – Rannsóknarstofnun í jafnréttisfræðum – sem styrkt er af framkvæmdanefnd um 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna. Fyrirlestrarnir eru nú fluttir víðs vegar um land í samstarfi við Stofnun rannsóknarsetra við Háskóla Íslands, prófessorsembætti Jóns Sigurðssonar og hug- og félagsvísindasvið Háskólans á Akureyri.
Viðburðurinn er öllum opinn og er á Facebook.