Ömmur á faraldsfæti á Höfn

1509_ommurafaraldsfaetiLaugardaginn 26. september, kl. 14, verður haldið málþing um ömmur í fyrirlestrasal Nýheima á vegum RIKK – Rannsóknarstofnun í jafnréttisfræðum við Háskóla Íslands – og Rannsóknarseturs Háskóla Íslands á Höfn.

Til Hafnar koma Erla Hulda Halldórsdóttir, sagnfræðingur og Dagný Kristjánsdóttir, bókmenntafræðingur og flytja fyrirlestra úr röðinni „Margar myndir ömmu“ sem nú í september eru fluttir víðs vegar um landið.

Fyrirlestur Erlu Huldu nefnist: „Hvers vegna amma? Saga og sjónarhorn“ og í honum verður rætt um aðferðir og kenningar í sambandi við ‚ömmusögu‘. Hvað þýðir það að skrifa um ömmu? Hvaða kosti hefur það og hvað ber að varast? Erlendis hafa sögur af ömmum og formæðrum verið notaðar til þess að varpa ljósi á aðra þætti þjóðarsögunnar en þá sem teljast til hinnar almennu og viðurkenndu sögu. Sögur kvenna passa oftar en ekki illa við þá sögu. Inn í þessa aðferðafræðilegu umfjöllun stíga formæður Erlu Huldu sem voru húsmæður vestur á Snæfellsnesi með stóra barnahópa og enga þvottavél og vinnukonur sem ‚lentu‘ upp í hjá kvæntum húsbændum sínum. Ömmur mínar hafa enga tengingu við Hornafjörð en það gerir aftur á móti híbýlaprúður langafi sem fær að fljóta með í sögunni.

Fyrirlestur Dagnýjar nefnist: „Hvað vildu þær — hefðu þær verið spurðar?“ Ömmur Dagnýjar, Ólína Kristín Snæbjörnsdóttir (1879-1964) og Þórunn Magnúsdóttir (1878-1960), voru ólíkar konur en nánast jafn gamlar, báðar bráðgreindar en höfðu fáa möguleika í lífinu. Dagný spyr sig hvað þær hefðu viljað verða ef þær hefðu átt valkosti kvenna í dag og leitast við að svara því í fyrirlestri sínum. Ólína var prestsfrú á Stað á Reykjanesi. Hún stjórnaði stóru heimili, þrjú börn komust upp auk fósturbarna sem ólust upp á Stað. Þar var mikið var um gestakomur og mikil risna. Ólína var alin upp í Hergilsey á Breiðafirði, annáluð hannyrða- og sögukona. Þórunn var ljósmóðir á Keisbakka á Skógarströnd. Umdæmi hennar var stórt og mjög erfitt og heilsa hennar var farin að gefa sig fyrir fimmtugt. Fjögur af fimm börnum hennar lifðu.

Málþingið hefst kl. 14 og hefur hvor fyrirlesari um klukkustund til umráða fyrir erindi sitt og umræður. Á milli fyrirlestranna tveggja verður kaffihlé.

Aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir.

Málþinginu stýrir Soffía Auður Birgisdóttir.

Dagskráin er hluti af fyrirlestraröðinni „Margar myndir ömmu“ hjá RIKK – Rannsóknarstofnun í jafnréttisfræðum – sem styrkt er af framkvæmdanefnd um 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna. Fyrirlestrarnir eru nú fluttir víðs vegar um land undir heitinu „Ömmur á faraldsfæti“ í samstarfi við Stofnun rannsóknarsetra við Háskóla Íslands, prófessorsembætti Jóns Sigurðssonar og hug- og félagsvísindasvið Háskólans á Akureyri.

Viðburðurinn er á Facebook.