Nútímans konur

Föstudaginn 21. október kl. 14:00-15:30 flytur Erla Hulda Halldórsdóttir sagnfræðingur fyrirlesturinn „Nútímans konur“ í stofu 105 á Háskólatorgi.

Í fyrirlestrinum kynnir Erla Hulda helstu niðurstöður nýútkominnar doktorsritgerðar sinnar í sagnfræði, Nútímans konur. Menntun kvenna og mótun kyngervis á Íslandi 1850–1903, en þó einkum þann hluta sem snýr að stofnun og starfsemi kvennaskólanna og þeirri hatrömmu umræðu sem fram fór á síðum landsmálablaðanna um hlutverk og eðli kvenna.

Grein Páls Melsteð um menntun kvenna, sem birtist í Norðanfara árið 1870, hratt af stað snarpri umræðu um menntun og samfélagslegt hlutverk kvenna þar sem sjá má eindregna afstöðu gegn óhagnýtri og óþjóðlegri menntun kvenna, með öðrum orðum þeirri menntun sem gat leitt þær af braut hefðbundins hlutverks móður og húsmóður. Í meginatriðum var kvennaskólunum ætlað að endurskilgreina hlutverk kvenna í anda ríkjandi kyngervishugmynda. Á þann hátt var brugðist við nútímavæðingu, frelsiskröfum og öðrum breytingum sem taldar voru ógna heimilinu og hinu svokallaða kvenlega eðli. Reyndin var þó sú að kvennaskólarnir urðu í senn vettvangur uppbrots og samsemdar, nærandi og styrkjandi rými þar sem kyngervi kvenna og sjálfsverund var endurskilgreind í takt við nýja tíma, hvort sem var til andófs við ríkjandi gildi, og birtist í því sem kallað var ókvenlegt (og er í rannsókninni nefnt ómynd eða úrhraks-kvenleiki) eða í anda styðjandi kvenleika sem samþykkti og studdi forræði hins karllega.

Erla Hulda Halldórsdóttir lauk doktorsprófi sagnfræði frá Háskóla Íslands fyrr á þessu ári. Hún hefur um árabil fengist við rannsóknir og störf á sviði kynjasögu og kynjafræða og birt greinar og bókarkafla um rannsóknir sínar á innlendum og erlendum vettvangi. Erla Hulda er nú sjálfstætt starfandi fræðimaður og vinnur að ævisögu Sigríðar Pálsdóttur (1809–1871).